Snorri Guðmundsson matgæðingur með meiru á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni og býður sælkerarétti sem allir eru úr hans smiðju. Einn rétturinn er sá vinsælasti á síðunni hans og svo er líka uppskrift af kleinuhringjum sem eru nýjasta æðið hans.
Snorri er þróunarstjóri og ljósmyndari hjá Eldum rétt og hef verið þar síðustu 8 ár ásamt því að taka að sér önnur ljósmyndaverkefni. „Matur og matarljósmyndun er búið að eiga hug minn allan í yfir 10 ár og síðast þegar ég athugaði var ég búinn að semja vel yfir 1300 uppskriftir. Ég sæki mér oftast innblástur við uppskriftaskrif með því að skoða fallegar myndir af mat, en þá fer hugmyndaflugið á fullt og það verður eitthvað skemmtilegt til,“ segir Snorri dreyminn á svip.
„Ég er alinn upp við mjög góðan mat og það var mikið um tilraunamennsku í eldhúsinu hjá foreldrum mínum þegar ég var yngri svo ástin á góðum mat byrjaði snemma. Þegar ég var 27 ára flutti ég til Vancouver til þess að læra hljóðhönnun og þá opnaðist fyrir mér alveg nýr heimur í mat með öllu því úrvali sem var þar í boði. Skömmu eftir að ég flutti aftur heim til Íslands byrjaði ég svo með mitt fyrsta matarblogg og keypti mér mína fyrstu myndavél. Þá var ekki aftur snúið og leiddi það svo til þess að ég fékk starf við vöruþróun hjá Eldum rétt. Að vera hjá Eldum rétt er búið að vera ótrúlega skemmtilegt ferðalag og í raun algjör draumur þar sem ég fæ að eyða deginum við það tvennt sem mér þykir skemmtilegast, tilraunamennsku í eldhúsinu og matarljósmyndun.
Snorri er iðinn í eldhúsinu og segist njóta þess að matreiða fyrir dóttur sína. „Ég bý með Vöku dóttur minni sem er 4ja ára og strax orðin mikill sælkeri, en það besta sem hún fær er kolkrabbi og skelfiskur, og þá sérstaklega pasta með rækjum eða humar,“ segir Snorri og brosir.
Hér kemur ljúffengi vikumatseðillinn hans Snorra og við á matarvefnum skorum á ykkur að prófa kleinuhringina hans, þeir eru rosalegir. Fyrir áhugasama þá er hægt að fylgjast með því sem Snorri er að gera á maturogmyndir.is og Matur og myndir á Instagram.
Mánudagur – Ómótstæðilegt kjúklingasalat
„Mér þykir gott að byrja vikuna á einhverju léttu eftir að hafa látið meira eftir mér yfir helgina og þá er fátt sem mér þykir betra en þetta salat. Þessi hunangs- og límónudressing er algjörlega geggjuð, sérstaklega með mangó.“
Þriðjudagur – Grillað risarækju-tacos
„Það er skylda að halda upp á taco tuesday, en ég er sérstaklega hrifinn af því að nota risarækjur í taco. Þessi taco smellpassa á grillið, en annars má líka steikja rækjurnar og baka maísinn ef veðrið stendur ekki með manni.“
Miðvikudagur – Smjörkjúklingur að hætti Snorra
„Þessi er vinsælasta uppskriftin á síðunni hjá mér og það kemur mér ekkert sérstaklega á óvart. Butter chicken eða smjörkjúklingurinn er í svakalegu uppáhaldi hjá mér og ég geri þennan rétt reglulega.“
Smjörkjúklingur að hætti Snorra
Fimmtudagur – Bolognese af bestu gerð
„Þegar maður er með barn á heimilinu verður maður að bjóða upp á pasta að minnsta kosti einu sinni í viku, ef ekki oftar. Ég kvarta samt ekki því ég elska pasta. Þessi útgáfa þykir mér sérstaklega skemmtileg með steiktu parmaskinkunni.“
Föstudagur – Heimagerð pítsa
„Við höldum áfram í hefðirnar hér með föstudagspítsunni. Það er svakalega gaman að gera sitt eigið deig en úrvalið af góðum tilbúnum pítsaakúlum í búðum er þó ansi gott. Munið bara að taka deigið út 2 tímum áður en það er byrjað að vinna með það.“
Laugardagur – Djúsí lambafillet
„Á laugardögum þykir mér gott að gera extra vel við mig og þá er þessi uppskrift í miklu uppáhaldi. Íslenskt lamb er æði og mér þykir það best með piparostasósunni sem við þekkjum öll svo vel.“
Sunnudagur – Dýrðlegir kleinuhringi
„Á sunnudögum þykir mér oft gaman að baka eitthvað gott og þessir biscoff kleinuhringir eru nýjasta æðið mitt. Það er skylda að prófa.“