Bragð- og matarmikil gúllassúpa

Á haustin er dásamlegt að fá sér bragð- og matarmiklar …
Á haustin er dásamlegt að fá sér bragð- og matarmiklar súpur eins og gúllassúpu. Unsplash/Leanna Myers

Þegar hausta tekur þá er ljúft að laga matarmiklar súpur sem gott er að ylja sér við og njóta við kertaljós. Þessi dásamlega ungverska gúllassúpa er ótrúlega góð og hægt er að leika sér með hráefnið og gera uppskriftina að sinni ef vill. Hún er bragð- og matarmikil og ekki síður góð daginn eftir.  Svo það er upplagt að gera ríflegan skammt og eiga afgang.

Ungversk gúllassúpa

Fyrir 8 til 10

  • 1,8 kg nautakjöt, nautagúllasbitar henta hér best (má setja meira)
  • 1-2 msk. hveiti
  • 6-8 nýjar kartöflur
  • 1-2 laukar
  • 2 grænar paprikur
  • 2 rauðar paprikur
  • 2 msk. tómatþykkni
  • 2 dósir tómatar í bitum
  • 2 dósir maukaðir tómatar
  • 2 l vatn (eða eftir þörfum)
  • 2 tsk. nautakraftur
  • 2 hvítlaukar, litlu í körfunni
  • 1 ferskt chili, rautt (má sleppa og nota krydd í staðinn)
  • 1 tsk. svartur pipar
  • 3 tsk. paprikukrydd
  • Gróft sjávarsalt eftir smekk
  • Ólífuolía til steikingar eftir þörfum

Til skreytinga

  • Fersk steinselja
  • Eða aðrar kryddjurtir sem passa með

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skera nautakjötið í gúllasbita ef þess þarf.
  2. Veltið bitunum upp úr hveiti og steikið á heitri pönnu.
  3. Takið til stóran pott og setjið kjötbitana í pottinn.
  4. Skerið laukinn í grófa bita og steikið á heitri pönnu með ólífuolíu.
  5. Bætið lauknum í pottinn.
  6. Hellið öllum tómötunum yfir kjötið og laukinn í pottinum ásamt tómatþykkninu.
  7. Bætið við vatninu í pottinn ásamt nautakrafti.
  8. Pressið hvítlaukinn og bætið honum út í pottinn.
  9. Kryddið með öllum kryddunum.
  10. Látið sjóða á meðan þið útbúið kartöflurnar.
  11. Skrælið kartöflurnar og skerið í fallega bita.
  12. Skerið niður paprikurnar í hæfilega stóra bita, passið að þeir séu ekki of stórir.
  13. Skerið niður chili.
  14. Bætið kartöflunum og paprikum í pottinn og látið malla.
  15. Látið súpuna malla og taka sig við vægan hita í hálfa klukkustund eða þrjú korter.
  16. Skreytið áður en súpan er borin fram, til dæmis með ferskri steinselju eða öðrum kryddjurtum ef vill.
  17. Njótið við kertaljós og huggulegheit.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert