Heiðdís býður upp á tófúhræru á ristað brauð

Heiðdís Hlynsdóttir tók áskorun bróður síns og deilir með lesendum …
Heiðdís Hlynsdóttir tók áskorun bróður síns og deilir með lesendum sínum uppáhaldshádegisverði sem er tófúhræra. Samsett mynd

Á dögunum skoraði Henrik Hlynsson á litlu systur sína, Heiðdísi Hlynsdóttur leikkonu, að taka við keflinu af sér og ljóstra upp sínum uppáhaldsmorgun- eða hádegisverði. Heiðdís fagnaði áskoruninni og ljóstrar hér upp sínum uppáhaldshádegisverði sem nýstárlegri og ótrúlega spennandi samsetningu.

Heiðdís útskrifaðist úr leiklistarskólanum Copenhagen International School of Performing Arts sumarið 2021 og hefur haft ýmislegt fyrir stafni síðan. Til dæmis lék hún í leiksýningunni Stóri Björn og kakkalakkarnir eftir Matthías Tryggva Haraldsson sem var sýnd á leikhúshátíðinni BEHOLD í Kaupmannahöfn og svo kom út fyrsta kvikmynd hennar í fullri lengd í febrúar, Óráð, eftir Arró Stefánsson. Leiklistin þurfti aðeins að fara á hilluna þar sem ég varð móðir í október 2022 þegar ég eignaðist litlu draumadísina hana Matthildi Móu. Nú þegar fæðingarorlofinu er lokið þá finn ég hvað listin er að toga aftur í mig og ég er orðin ótrúlega spennt fyrir að fara að leika aftur hvort sem það er á skjánum eða á sviði,“ segir Heiðdís spennt.

Fær mestan innblástur á Instagram

Áhuginn á mat hefur alltaf verið til staðar en áhuginn á matargerð kom aðeins seinna þegar ég var fátækur námsmaður og þurfti að hrista eitthvað fram úr erminni með ódýrasta hráefninu. Að elda varð að hálfgerðri hugleiðslu eftir amstur dagsins í skólanum og ekkert jafnaðist á að fá að elda ein og hlusta á tónlist. Ég sæki mestan innblástur á Instagram þar sem ég er með möppu fulla af stuttum myndbrotum af mat og uppskriftum. Eins og systir mín þá fer ég ekki oft eftir uppskriftum og leyfi frekar bragðlaukunum að leiða mig áfram með smakki. Það þó er alltaf gaman að fá hugmyndir þegar maður er þreyttur á sömu gömlu máltíðunum og þá hafa þessar Instagram hugmyndir hjálpað mikið. Asískur matur er í mjög miklu uppáhaldi núna,“ segir Heiðdís dreymin á svip.

Ljóstrar upp um uppáhaldshádegismatinn

Ég ætla að ljóstra upp uppáhaldshádegismatnum mínum sem ég á til að gera ef ég hef tíma og er mjög svöng. Flestir eru mjög hrifnir af, og hafa borðað, eggjahræru en ég vil kynna til leiks tofuscramble toast eða tófuhræru á ristuðu brauði á góðri íslensku. Tófú er mikið notað í Asíu, búið til úr soja baunum, ótrúlega próteinríkt og hægt að elda það á marga vegu eins og til dæmis að gera tófúhræru. Í fyrstu tvö skiptin sem ég smakkaði tófú var ég ekki mikill aðdáandi en nú hafa hlutirnir svo sannarlega breyst og ég fæ ekki nóg.“ Stóra leyndarmálið í þessum nýstárlega rétti úr smiðju Heiðdísar er næringargerið. „Það lítur út eins og fiskamatur, stútfullt af B12 og er himneskt á bragðið,“ segir Heiðdís.

Skorar á Villa Neto

Ég vil skora á yndislegan vin minn, Vilhelm Neto. Flestir þekkja til hans þar sem hann er búinn að gera það ótrúlega gott innan leiklistargeirans á Íslandi. Akkúrat núna er hann fastráðinn leikari í Borgarleikhúsinu, hann á það til að stela sýningunni með góðu gríni og meðfæddum hæfileikum, sem hann hefur svo fínpússað í gegnum árin. Hann er harðduglegur og vinnusamur og er líka með hlaðvarpið Já, OK með Fjölni Gíslasyni og uppistand með VHS hópnum. Mig grunar að hann lumi á einhverjum dýrindis uppskriftum,“ segir Heiðdís og glottir. 

Tófuhræran hennar Heiðdísar er hin girnilegasta og á eftir að …
Tófuhræran hennar Heiðdísar er hin girnilegasta og á eftir að gleðja mörg matarhjörtu. Ljósmynd/Heiðdís Hlynsdóttir

Tófúhræra á ristuðu brauði

  • 250 g tófú (Heiðdís notar singh tofu)
  • sveppir eftir smekk
  • rauðlaukur eftir smekk
  • spergilkál eftir smekk
  • brauðsneið að eigin vali
  • smjör eða hummus
  • soja sósa eftir smekk
  • matarolía eftir smekk
  • pipar eftir smekk
  • Best á allt krydd eftir smekk
  • paprikukrydd eftir smekk
  • hvítlaukskrydd eftir smekk
  • engiferkrydd eftir smekk
  • avókadó
  • Shiracha
  • næringager

Aðferð:

  1. Byrjið á því að steikja grænmetið á pönnu aðeins á undan tófú-inu.
  2. Þegar grænmetið er tilbúið, brjótið þá eða rifið niður tófúið með fingrunum þannig að það verði að scamble á pönnunni.
  3. Þið megið þurrka tófúið svo það geti dregið meira bragð í sig en það er ekki nauðsynlegt. Bætið síðan við soja sósu og matarolíu.
  4. Hrærið vel og bætið við kryddunum eftir smekk, líkt og Heiðdís gerir.
  5. Hrærið aðeins í og þegar tófúið hefur verið að steikjast á miðlungs hita í 5-10 mínútur er það tilbúið.
  6. Ristið brauðsneið og smyrjið með smjöri eða hummus, ef þið viljið extra mikið prótein.
  7. Setjið hræruna ofan á brauðið og skreytið með avókadó, shirachasósu og næringageri sem er er stærsta leyndarmálið hingað til.
  8. Berið fram og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert