Ólöf Ólafsdóttir konditorí, eftirréttadrottning Íslands, er annáluð fyrir kunnáttu sína í eftirréttagerð og þekkt fyrir að galdra fram dýrindis eftirrétti sem gleðja bæði auga og munn. Hún er að fara gefa út sína fyrstu uppskriftabók sem ber nafn með rentu Ómótstæðilegir eftirréttir og það er deginum ljósara að bókin hennar Ólafar á eftir að slá í gegn líkt og hún hefur gert með eftirréttum sínum. Bókarkápan er einstaklega fallega og myndirnar listaverk, hver einasti réttur fangar augað og vekur áhuga.
Ólöf lærði konditor í Danmörku og hefur starfað lengi í veitingageiranum. Þessa dagana starfar Ólöf á veitingastaðnum Monkeys og sér um að þróa og gera eftirréttina en þeir hafa notið mikilla vinsælda og eru þekktir fyrir fallega áferð sína og bragð. „Ég er með diplómu frá The Chicago Chocolate Academy í diskuðum eftirréttum en þar fékk ég meðal annars verðlaun fyrir að sigra eftirrétt ársins 2021,“ segir Ólöf sem á góðra minningar úr náminu.
Ólöf hefur alltaf verið með brennandi áhuga á bakstri, hvort sem það er að baka eftirrétti eða kökur. „Áhuginn minn á bakstri vaknaði þegar ég var lítil stelpa. Ég sá meira og minna um að undirbúa og baka fyrir allar afmælisveislur sjálf og einnig fyrir litlu systir mína. Ég var svo heppin að ég fékk að nýta sköpunargleði mína til fulls og baka allt sem að ég vildi í eldhúsinu heima hjá mömmu. Ég setti allt eldhúsið á hliðina, eftir bakstursævintýrin mín, var hveiti og súkkulaði alls staðar, þá meina ég gjörsamlega alls staðar, Í öllum skúffum, hillum og yfir öllu gólfinu,“ segir Ólöf og hlær.
Bókin hennar Ólafar er væntanleg í byrjun október og verður full af uppskriftum, fróðleik og tækni. „Mig langaði að gera bók sem væri ekki bara fyrir áhugabakara heldur einnig fyrir bakara sem vilja ganga skrefinu lengra og vinna sig áfram með allskonar uppskriftir.
Bókinni er skipt upp eftir erfiðleikastigum frá 1-3 og veitir nýja sýn á eftirrétti sem hægt er að gera heima. Ég legg mikið upp úr fjölbreyttum uppskriftum og koma til með að vera vegan, glútenfríar og laktósa lausar uppskriftir.“
Þegar Ólöf er spurð út tilurð þess að hún ákvað að gefa út bók kemur í ljós vinna hennar með fjölmiðlum hafi kveikt neistann hjá henni. „Ég hef unnið mikið með fjölmiðlum í gegnum árin ásamt því að deila mörgum uppskriftum með þjóðinni en sú vinna myndi ég segja hafa dregið mig í þessa átt. Ég elska að hanna nýja eftirrétti og leyfa sköpunargleði minni að njóta sín og finnst mér hún einmitt skína í gegnum þessa bók. Skemmtilegt er að segja frá því að nafnið bókarinnar kom út frá einni af mínum fyrstu blaðagreinum, þá var fyrirsögnin „Ómótstæðilegir eftirréttir Ólafar“. Þessi setning sat í mér lengi og fannst mér hún fullkomin fyrir nafn bókarinnar sem er jú „Ómótstæðilegir eftirréttir." Uppskriftirnar í bókinni eru allt frá uppskriftum sem Ólöf hefur átt lengi í sarpinum yfir í nýjar uppskriftir sem hún er búin að vera að vinna í og þróa fyrir bókina.
Bókin er mikið augnakonfekt, myndirnar af öllum eftirréttum eru fallegar og fágðar og fanga augað um leið. „Þegar ég fékk þessa hugmynd um að gefa út bók fór ég fyrst beint til mömmu og spurði hana hvort hún væri ekki til í að taka myndirnar fyrir bókina og vinna þetta með mér. Mamma, Ruth Ásgeirsdóttir, er lærður ljósmyndari og hefur starfað sem slíkur í mörg ár og fannst mér tilvalið að fá hana til að taka myndirnar,“ segir Ólöf og er einstaklega ánægð með samstarf þeirra mæðgna. „Þetta hefur verið einstaklega skemmtilegt samstarfsverkefni hjá okkur og er ég ekkert smá heppin með mömmu. Við mæðgur elskum að skapa nýja hluti, ég með mitt handbragð að gera nýja eftirrétti og mamma sem listrænn ljósmyndari að fanga augnablikið í gegnum linsuna og sá um að taka allar myndirnar í bókinni.“
Ólöf er búin að standa í ströngu allt þetta ár að undirbúa bókina, hanna og þróa eftirrétti í bókina, baka og stílsera og koma uppskriftunum saman. En það eru fleiri stór verkefni fram undan hjá Ólöfu sem eiga huga hennar og krefjast mikillar vinnu en Ólöf er nýr meðlimur íslenska kokkalandsliðisins. Kokkalandsliðið er þessa dagana að æfa stíft fyrir Ólympíuleikana sem haldnir verða í febrúar á næsta ári í Stuttgart. „Ég byrjaði í íslenska kokkalandsliðinu í byrjun árs og hefur það verið algjört ævintýri. Það er heiður að vinna með svona hæfileikaríkum kokkum enda hef ég lært mikið síðan að ég byrjaði að æfa með liðinu og hver dagur er nýtt ævintýri. Þessa dagana erum við á ströngum æfingum og verðum fram að keppni, en við stefnum á að keppa á Ólympíuleikunum og koma með gullið heim.“
Sérgrein Ólafar í landsliðinu er að hanna og þróa eftirréttina ásamt því að keppa í búrinu þegar að því kemur. Það er mikil áskorun að vera í búrinu og huga þarf að hverju einasta smáatriði. „Fyrst og fremst er liðsheildin sem skiptir svo máli að lokum, hvernig við vinnum saman og við stefnum öll að sama markmiðinu og vinnum vel saman.“
Aðspurð segir Ólöf að framtíðin sé óráðin og stórt sé spurt þegar hún er spurð út hvað framtíðin beri í skauti sér. „Ég elska að gera nýja hluti og taka upp á einhverju skemmtilegu þannig það verður bara að koma í ljós hvað framtíðin ber í skauti sér. En þessa dagana er það bókin mín og kokkalandsliðið sem eiga hug minn allan ásamt vinnu minni á Monkeys,“ segir Ólöf og full tilhlökkunar að kynna nýju bókina sína fyrir landsmönnum í október.
Fyrir áhugasama er að fylgjast með ferli bókarinnar á Instagram reikningi Ólafar og skyggnast bak við tjöldin og sjá hvernig uppskriftabók verður til. Sjá hér.