Um helgar er ekkert betra en nýbakað, ilmandi brauð sem nærir líkama og sál. Í smiðju okkar á matarvefnum leynist þetta dásamlega focaccia brauð sem er bakað á ítalska vísu og bragðast dásamlega vel eitt og sér en líka frábært með góðum réttum af ýmsum tagi.
Focaccia brauð með ólífum
- 9 dl hveiti
- 30 g ferskt ger
- ½ dl ólífuolía
- 3 ½ dl hvítvín eða vatn
- 2 tsk. gott salt
- 14 steinlausar ólífur að eigin vali
- 1-2 rósmarín greinar
- Sjávarsalt eftir smekk
Aðferð:
- Byrjið á því að bleyta gerið í vatni og bætið olíunni út í.
- Setjið hveiti og sallt í skál og bætið vökvanum út í.
- Vert að hræra í hrærivél og nota hnoðara.
- Hnoðið þar til deigið er laust frá skálinni.
- Takið til ferkantað form og penslið með olíu.
- Setjið deigið í ferkantað formið og potið ólífunum ofan í deigið, látið glitta í þær.
- Setjið rósmarínkvista ofan í deigið líka.
- Stráið saltflögum yfir deigið.
- Látið hefast í um það bil 30 mínútur.
- Þegar deigið hefur hefast í 30 mínútur, ýtið þá varlega með lófunum ofan á deigið, þannig að það falli aðeins.
- Hitið bakarofninn í 190°C.
- Bakið deigið í miðjum ofninum í um það bil 30 mínútur.
- Takið út þegar focaccia brauðið er fallega gullinbrúnt og berið fram með því sem hugurinn girnist.