Kristín söngkona býður upp á austurlenska grænmetissúpu

Kristín Stefánsdóttir söngkona og tannlæknir elskar að halda matarboð og …
Kristín Stefánsdóttir söngkona og tannlæknir elskar að halda matarboð og útbúa góðan mat og býður upp á austurlenska grænmetissúpu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristín Stefánsdóttir söngkona og tannlæknir elskar að halda matarboð og útbúa góðan mat. Hún á auðvelt með að vera með marga bolta á lofti og hafa nóg fyrir stafni. Þó verkefnin séu mörg þá gefur hún sér ávallt tíma til njóta góðs matar í góðum félagsskap. Haustin heilla Kristínu og henni finnst fá huggulegra en að njóta kvöldanna þegar kertatíminn kemur.

„Mér finnst fátt betra en að hafa vini og stórfjölskyldu í mat og njóta samvista við fólkið mitt en það er líka dásamlegt þegar við hjónin erum bara tvö og útbúum okkur eitthvað hollt og gott. Nú er kertatíminn að fara í hönd og þó ég elski sumarið hlakka ég alltaf til þessa árstíma þegar fer að dimma, við kveikjum á kertum og leggjum fallega á borð. Á haustin finnst mér tilheyra að elda næringarmiklar,  góðar súpur sem ylja manni þegar fer að kólna,“ segir Kristín.

Æfir fyrir tónleika með Páli Óskari

Þessa dagana er Kristín að æfa fyrir tónleika í Salnum, þar sem hún og Páll Óska Hjálmtýsson leiða saman krafta sína. „Fram undan eru tónleikar okkar Páls Óskars, Klassískt Popp í Salnum í Kópavogi sem fara fram dagana 14. og 15. september sem þegar uppselt er á en sem betur fer er búið að bæta við aukatónleikum 16. september. Þetta verða sannkallaðir stórtónleikar með 16 manna hljómsveit þar sem við munum flytja bestu popplög tímabilsins 1960-1975. The Beach Boys, The Beatles, Dionne Warwick, Carpenters, Dusty Springfield og fleirum verða gerð skil á þessum glæsilegu tónleikum sem eru sannkallað konfekt fyrir augu og eyru og lagalistinn sömuleiðis,“ segir Kristín sem er full tölhlökkunar.

Mikilvægast að hlusta á líkamann

Kristín er hrifin af haustinu og öllu sem því fylgir. Verkefnin verða fleiri og mataræði breytist með breytum árstíðum. „Ég aðhyllist ekki neitt sérstakt mataræði. Mér finnst mikilvægt að borða hollt en ég er ekki öfgamanneskja og trúi hvorki á boð né bönn. Það er gott að hafa jafnvægi á milli allra þátta; borða oftast hollt en líka nauðsynlegt að leyfa sér inn á milli. Ég er til dæmis mikil eftirréttamanneskja og finnst gott að fá mér góðan eftirrétt með sterkum kaffibolla. Mikilvægast er að hlusta á líkamann; aðalregla mín er sú að ef mér líður ekki vel af matnum þá borða ég hann ekki.“

Aðspurð segir Kristín að það skipti gríðarlegu máli að hún borði og hvað hún borði þegar kemur að orku og úthaldi. „Þegar dagarnir eru langir eins og núna þegar undirbúningur tónleikanna stendur sem hæst, finn ég greinilegan mun á orkunni minn og svefni ef ég sneiði hjá tómum kaloríum og óhollustu en vel til dæmis mat eins og súpuna sem mig langar að deila uppskrift af með ykkur á matarvefnum.

Elskar sterkt kaffi

Hefðbundinn dagur hjá Kristínu þegar kemur að því að raða saman matseðli fyrir daginn er fjölbreyttur og girnilegur. „Ég byrja á því að drekka nýpressaðan sellerísafa á fastandi maga. Það virkar ótrúlega vel fyrir mig og setur tóninn fyrir daginn.  Ég útbý svo þeyting sem ég fer með í vinnuna sem er stútfullur af hollustu og er líka hrikalega góður. Það endist mér oftast fram eftir degi ásamt ávöxtum. Þá daga sem ég þarf eitthvað meira, tek ég grófa brauðsneið með áleggi sem gæti verið ostur eða egg og grænmeti. Ég drekk líka yfirleitt nokkra kaffibolla yfir daginn; ég elska sterkt og gott kaffi.

Ég borða yfirleitt snemma á kvöldin og finnst best að borða venjulegan heimilismat. Ég borða oftast grænmeti, fisk eða kjúkling og svo finnst mér lambakjöt mjög gott. Þessar vikurnar hef ég reyndar lítinn tíma til að elda en ég passa þá að fara og fá mér eitthvað hollt og næringarríkt svo ég endist út daginn sem getur oft orðið æði langur. Eftir vinnu eru yfirleitt æfingar eða eitthvað annað tengt tónleikaundirbúningnum svo það er nauðsynlegt að vera með matarskipulag í grófum dráttum svo maður endi ekki í einhverju rugli,“ segir Kristín og hlær.

Austurlenska grænmetissúpan hennar Kristínar er ómótstæðilega girnileg.
Austurlenska grænmetissúpan hennar Kristínar er ómótstæðilega girnileg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Matarmikil austurlensk grænmetissúpa  

Þessa dagana eru það súpur sem gleðja Kristínu og deilir lesendum Matarvefsins uppskrift af guðdómlegri grænmetissúpu sem slær yfirleitt rækilega í gegn í  matarboðunum hennar. Hér er á ferðinni matarmikil austurlensk grænmetissúpa og Kristín segir að súpan sé mjög góð daginn eftir líka. „Þessi súpa hefur fylgt fjölskyldunni í mörg ár. Ég hef betrumbætt hana að mínum smekk gegnum árin. Það er kostur hvað hún er holl og ljúffeng og hentar jafnframt öllum sama hvaða matarstefnu þeir aðhyllast,“ segir Kristín og bætir við að vert sé að fagna haustinu og rútínunni sem er svo kærkomin.  „Fara á tónleika, í göngutúra eða kíkja í bók. Kveikja á kertum. Umfram allt vera góð hvert við annað,“ segir Kristín að lokum og farin á æfingu.

Nú er kertatíminn kominn og þá er huggulegt að borða …
Nú er kertatíminn kominn og þá er huggulegt að borða við kertaljós og nostra við borðhaldið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Austurlensk grænmetissúpa

Súpugrunnur

  • 1 l vatn
  • 2 dósir kókosmjólk
  • 3-4 gerlausir grænmetisteningar
  • 2-3 msk. curry Paste

Krydd

  • 1 rautt chili, smátt skorið eftir smekk
  • 1 hvítlaukur, smátt skorinn
  • rauðlaukur, smátt skorinn
  • maldon salt eftir smekk
  • pipar eftir smekk
  • paprikuduft eftir smekk
  • indverskt karrí eftir smekk
  • garam masala
  • timian helst ferskt, smátt saxað
  • oreganó helst ferskt, smátt saxað
  • Ferskt basil og ögn af fersku rósmarín, smátt skorið
  • Þetta krydd má líka allt vera úr kryddstauk en það er mun betra og bragðsterkara ferskt.

Grænmeti

  • sætar kartöflur eftir smekk
  • gulrætur eftir smekk
  • blómkál eftir smekk
  • brokkolí eftir smekk
  • ólífuolía eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á að skera rauðlauk, hvítlauk og rautt chili smátt og svissa saman í olíu.
  2. Bætið svo grænmetinu út í í frekar stórum bitum.
  3. Setjið svo kryddið út í og hrærið saman.
  4. Sjóðið 1 l af vatni, leysið grænmetisteningana upp í vatninu og hellið síðan út í ásamt kókosmjólkinni.
  5. Bætið síðast við curry paste.
  6. Leyfið súpunni að malla í um það bil 30-40 mínútur og gefið ykkur tíma að smakka til. Gott er að hafa þessa súpu frekar sterka fyrir þá sem þola það en annars eftir smekk.
  7. Berið fram með nýbökuðu súrdeigsbrauði og njótið. 
Kristínu finnst ómissandi að bjóða upp á nýbakað súrdeigsbrauð með …
Kristínu finnst ómissandi að bjóða upp á nýbakað súrdeigsbrauð með súpunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert