Girnilegur fiskréttur með indversku karrí og bönunum

Ljúffengur fiskréttur með indversku karrí og bönunum sem gleður bragðlaukana.
Ljúffengur fiskréttur með indversku karrí og bönunum sem gleður bragðlaukana. Ljósmynd/Sjöfn

Á mánudögum er dásamlegt að fá sér góðan fiskrétt og gleðja bragðlaukana. Þessi ljúffengi fiskréttur með indversku karrí og bönunum er bragðgóður og sáraeinfalt að útbúa. Besta við réttinn er karríbragðið og bananinn. Karrí og banani passa fullkomlega vel saman. Bananaaðdáendur eiga eftir að elska þennan rétt.

Á leið í bakarofninn.
Á leið í bakarofninn. Ljósmynd/Sjöfn

Þorskhnakkar í indverskri karrísósu með bönunum

  • 800 g þorskhnakkar
  • smjör
  • 3 dl rjómi, má líka nota matreiðslurjóma
  • 1 msk. indverskt karríkrydd
  • hnífsoddur af cayennepipar
  • brokkolí eftir smekk
  • ½ grænmetisteningur
  • Maizenamjöl ef vill
  • rifinn ostur eftir smekk
  • 1-2 bananar
  • ólífuolía eftir smekk 

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 180°C með blæstri.
  2. Takið til meðalstórt eldfast mót eða fat og smyrjið með örlitlu smjöri.
  3. Skerið þorskhnakkana í hæfilega jafnstóra bita.
  4. Blandið saman rjóma og grænmetistening og kryddið til með kryddunum. Ef vill bætið smá maizenamjöli við til að þykkja blönduna.
  5. Leggið þorskbitana í mótið ásamt brokkolí.
  6. Hellið blöndunni yfir þorskinn og brokkolí-ið.
  7. Stráið rifnum osti yfir réttinn.
  8. Bakið í ofninum í um það bil 20-25 mínútur eða þangað til rétturinn verður fallega gullin og osturinn farinn að lyfta sér.
  9. Hitið smá ólífuolíu á pönnu á miðlungs hita.
  10. Skerið banana í sneiðar og léttsteikið á pönnunni.
  11. Kryddið til með indversku karríkryddi.
  12. Leggið bananasneiðar ofan á réttinn eftir smekk.
  13. Berið fram réttinn með grjónum og fersku salati að eigin vali og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert