Nú þegur tekur að hausta og daginn fer að stytta þá er tilvalið að gera haustlega rétti í eldhúsinu. Þeir sem elska svínarif ættu að prófa þennan girnilega rifjapottrétt sem lagaður er frá grunni af samfélagsmiðlastjörnunni Alinu Prokuda. Þvílík snilld að horfa á hana töfra fram þennan ómótstæðilega rétt og hún er með aðferðina á hreinu. Þetta er rétturinn sem steinliggur um helgina.
Rifjapottréttur af bestu gerð
- 2 kg heil óelduð svínarif
- ¼ bolli sojasósa
- ¼ bolli hoisin sósa
- ¼ bolli hunang
- ¼ bolli púðursykur
- ¼ bolli eplaedik
- 2 msk. jurtaolía
- 2 msk. rifið ferskt engifer
- 2 hvítlauksrif, söxuð
- 1 msk. Miso púrra (Miso paste)
- ½ tsk. kínversk fimm kryddblanda (kínversk kryddblanda sem inniheldur fimm krydd og dregur nafn sitt af því. Blandan er klassísk á svínakjöt og á önd)
- ¼ tsk. cayenne pipar
- salt og svartur pipar eftir smekk
Aðferð:
- Undirbúið rifin með því að skera þau í aðskilda bita líkt og sýnt er í myndbandinu hér fyrir neðan.
- Þeytið saman sojasósu, hoisinsósu, hunangi, púðursykri, eplaediki, jurtaolíu, engifer, hvítlauk, miso púrru, kínversku fimm kryddblönduna og cayennepipar í skál.
- Skilið eftir ¼ bolla af maríneringunni til að nota síðar.
- Hellið sósunni yfir rifin, passið að þau séu fullhúðuð og látið marínerast í um það bil 3 klukkustundir eða lengur.
- Forhitið ofninn í 180°C.
- Setjið rifin í keramikpott með loki inn í ofn og eldið með lokinu á í um það bil 2 klukkustundir.
- Fjarlægið lokið og hækkið ofnhitann í 200°C.
- Penslið rifin með restinni af maríneringunni og bakið í 10-15 mínútur til viðbótar eða þar til rifin eru klístruð og karamelliseruð.
- Fjarlægðu rifin úr pottinum. Setjið restina af sósunni úr pottinum á meðalhita í 6 mínútur til að karamellisera og hellið svo yfir rifin.
- Raðið rifunum fallega upp á fat eða kringlóttan disk og skreytið rifin með lauksneiðum og sesamfræjum áður en þau eru borin fram.
- Upplagt að bera fram ektar steikarfranskar, grillaðan maís eða ferskt salat með rifjunum og njóta.