Villi Neto sviptir hulunni af uppáhaldsrétti sínum

Vilhelm Þór Neto leikari ljóstrar upp sínum uppáhaldsrétti sem kemur …
Vilhelm Þór Neto leikari ljóstrar upp sínum uppáhaldsrétti sem kemur úr smiðju pabba hans. Samsett mynd

Á dögunum skoraði Heiðdís Hlynsdóttir leikkona á vin sinn, Vilhelm Þór Neto leikara og grínista, að taka við keflinu af sér og ljóstra upp sínum uppáhaldsmorgunverði eða rétti. Vilhelm, sem er alla jafna kallaður Villi Netofagnaði áskoruninni og ljóstrar hér upp sínum uppáhaldsrétti sem kemur frá Portúgal.

Villi hefur mikla ástríðu fyrir matargerð og hefur gaman af því að elda þegar tími gefst á milli æfinga. Þessa dagana er Villi að vinna í Borgarleikhúsinu að uppsetningu á Deleríum Búbónis. „Ég er að vinna með alveg yndislegum leikhóp og nýt þess í botn. Ég er líka að vinna að útgáfu minnar fyrstu grínplötu sem er rétt ókomin út,“ segir Villi Neto.

Villi Neto segir pabba sinn elda besta mat í heimi …
Villi Neto segir pabba sinn elda besta mat í heimi og hér er hann ásamt pabba sínum Augusto Neto og afa sínum José Neto. Ljósmynd/Vilhelm Neto

Pabbi eldar besta mat í heimi

Ástríða þín í eldhúsinu og matargerð, hvaðan kemur innblásturinn?

Ástríða mín og innblástur fyrir matargerð kemur mikið frá pabba. Pabbi býr næstum því í eldhúsinu og lærði matargerð af ömmu sinni sem rak gistiheimili fyrir ferðalanga í Portúgal. Pabbi minn eldar besta mat í heimi, hann er sá allra besti, enginn toppar hann.

Ertu til í að ljóstra upp uppskrift að þínum uppáhaldsrétti?

Ég ætla að mæla með Bacalhau à Brás, einum af mínum uppáhaldsréttum, og ég er farinn að kunna að gera hann á Íslandi þrátt fyrir vöntun á saltfiski.

Á hvern viltu skora til að taka við keflinu af þér og svipta hulunni af sínum uppáhaldsrétti?

Ég ætla að skora á vin minn, matgæðinginn Atla Sig.,“ segir Villi Neto og er strax orðinn spenntur að sjá hvað Atli muni töfra fram.

Bacalhau à Brás að hætti Villa Neto.
Bacalhau à Brás að hætti Villa Neto. Ljósmynd/Vilhelm Neto

Bacalhau à Brás

  • 1 kg af frosnum þorskhnökkum eða þorskbitum
  • nóg af salti
  • 255 g dallur af Pik-Nik-kartöflustráum
  • 6 egg
  • 1 laukur, skorinn í þunnar sneiðar
  • 4 hvítlauksgeirar
  • fersk steinselja eftir smekk
  • svartar ólífur eftir smekk
  • hvítur pipar eftir smekk
  • lárviðarlauf
  • góð ólífuolía, ekkert kjaftæði hér, mjög mikilvægt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að þíða þorskinn í nógu af salti, látið hann liggja í salti eða í saltdalli.
  2. Setjið vatn í pott með lárviðarlaufi og tveimur hvítlauksgeirum, láta það sjóða upp úr.
  3. Þegar byrjar að sjóða setjið þorskinn út í, án saltsins sem hann var að þíddur í.
  4. Slökkvið strax undir pottinum þegar þorskurinn er kominn út í.
  5. Látið þorskinn vera í pottinum með loki á í um það bil 15 mínútur.
  6. Takið þorskinn upp úr vatninu að því loknu og leyfið honum að kólna.
  7. Þegar þorskurinn er orðinn kaldur takið hann þá í sundur og gangið úr skugga um að það séu engin bein.
  8. Takið til stóran pott.
  9. Setjið örlitla ólífuolíu í pottinn og setjið tvo saxaða hvítlauksgeira og laukinn í þunnum sneiðum og steikið á meðallágum hita.
  10. Þegar laukurinn er orðinn glær bætið þá þorskinum út í, smá salt eftir smekk og eldið saman.
  11. Hrærið eggin í lítilli skál á meðan rétturinn er að malla.
  12. Þegar um það bil fimmtán mínútur eru liðnar bætið þá við Pik-Nik-kartöflunum ofan í pottinn með saltfisknum og lauknum og hrærið saman.
  13. Hellið helmingnum af eggjunum ofan í pottinn með saltfisknum og hrærið það saman.
  14. Slökkvið á hellunni.
  15. Hellið rest af eggjablöndunni út í og hrærið saman við.
  16. Bætið við steinselju og ólífum eftir smekk og ástríðu.
  17. Kryddið til með salti, hvítum pipar og svörtum pipar eftir smekk.
  18. Berið fram og njótið.  
Vilhelm Neto með móður sinni Guðlaugu Rún.
Vilhelm Neto með móður sinni Guðlaugu Rún. Ljósmynd/Vilhelm Neto
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert