Bakstur og skreytingar hugleiðsla Þórunnar

Þórunn Högna listrænn stjórnandi og stílisti hjá Icewear sviptir hulunni …
Þórunn Högna listrænn stjórnandi og stílisti hjá Icewear sviptir hulunni af sínum matarvenjum að þessu sinni. Ljósmynd/Aðsend

Þórunn Högna listrænn stjórnandi og stílisti hjá Icewear sviptir hulunni af sínum matarvenjum að þessu sinni. Þórunn er annálaður fagurkeri og snillingur að galdra fram fallegar kræsingar fyrir hvers kyns tilefni. Hún nær ávallt að fanga augað og hugmyndarík og frjó þegar hún er beðin að fara ótroðnar slóðir fyrir veisluhöld svo dæmi séu tekin.

Áhuginn færst yfir í að elda og baka

Þórunn er líka mikil fjölskyldumanneskja, hún á fjögur börn og eiginmann og elskar að hlúa að fjölskyldunni, halda matarboð og veislur sem ylja matarhjartanu. „Ég hef alla tíð, frá unga aldri haft mikinn áhuga að gera fínt í kringum mig. Elska allt sem við kemur tísku og hönnun og núna fyrir um það bil 10 árum fór áhuginn að færast í matar-og kökugerð. Mér finnst sérstaklega gaman að elda og eyði oft dágóðum tíma í eldhúsinu í að  elda og baka. Mér finnst einstaklega gaman að halda veislur. Flestir sem þekkja mig vita að ég fer stundum aðeins of langt með baksturinn og skreytingarnar en þetta er mín hugleiðsla,“ segir Þórunn og brosir.

Hvað færðu þér í morgunmat?

Oftast nær fæ ég mér tvöfaldan hafra cappuccino, lágkolvetna brauð með osti og kaffiskyr frá Örnu með bláberjum. Og svo um helgar í sveitinni þá gerir maðurinn minn geggjað avókadó-eggja brauð, sem er orðið svona „signature“ morgunmatur þar 

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

Nei, yfirleitt ekki, er oftast södd eftir morgunmatinn/hádegismatinn.

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?

, ég borða yfirleitt á milli 12-14, en ég borða bara þegar ég er svöng þannig það fer eftir. Er mikið á ferðinni og er alltaf með eina Coke Zero og safa frá Móðir Náttúru í bílnum.

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

Ost, skinku, mjólk, haframjólk, Örnuskyr, hummus. Við erum með 2 ísskápa, einn uppi í eldhúsinu og einn niðri í þvottahúsi, í honum er alltaf til Kristall, Coke Zero og Collab.

Trufflunaut og lambafillet uppáhalds

Uppáhaldsgrillmaturinn þinn?

Trufflunaut, lambafillet með steiktu grænmeti, smælki og bernaissósu (sem ég geri sjálf).

Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á hvert ferðu?

Apótekið, alltaf góður matur og frábær þjónusta.

Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á bucket-listanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja?

Nei, enginn sérstakur en þegar ég fer á nýjan áfangastað er ég búin að kynna mér veitingastaði þar og er dugleg að prófa eitthvað nýtt. Mér finnst alveg einstaklega gaman að fara á nýja veitingastaði og upplifa nýjar matarvenjur. 

Hvaða matarupplifun stendur upp úr í lífi þínu?

Þær eru nokkrar. Hef farið á nokkra Budabar veitingastaði í heiminum, meðal annars í París, Búdapest, Monakó en Monakó stendur upp úr, Nobu í Marbella, sjúklega góður matur og Hilton Hotel Bimini Bahamas, eitt besta sushi sem ég hef smakkað og frábær upplifun. Verð að nefna líka Rasika geggjaður Indverskur staður í Washington, klárlega einn besti indverski matur sem ég hef fengið. 

Skolaði niður ostru með æluna í hálsinum

Hvað er það versta sem þú hefur bragðað?

Ostrur. Þegar ég var í námi í París þá var mér boðið í mat, þá 19 ára gömul, þar sem ostrur voru bornar fram. Ég hafði aldrei smakkað ostrur og vissi ekki hvernig ég ætti að borða þær en lét til skara skríða, rétt náði að skola einni niður með ælunni í hálsinum og hef ekki borðað þær síðan og mun ekki gera það. 

Uppáhaldskokkurinn þinn?

Það er enginn sérstakur kokkur í uppáhaldi en lærði mikið af foreldrum mínum. Skoða mikið af matreiðslubókum og horfi á matreiðsluþætti, svo fæ ég oft innblástur í mína matargerð þegar ég ferðast og fer út að borða og geri mínar útgáfur af þeim réttum.

Uppáhaldsdrykkurinn þinn?

Ég elska góðan hafra-cappuccino og svo er ég dottin á Coke Zero vagninn, og ef ég vil gera vel við mig þá fæ ég mér hvítvín (Saint-Cernin) frá Róbert Wessman. 

Ertu góður kokkur?

Já, ég hugsa að ég sé góður kokkur. En þú ættir frekar að spyrja fólkið mitt. Ég er mjög mikið í eldhúsinu, er óhrædd við að prófa nýja rétti og hef alltaf fengið góð viðbrögð frá fjölskyldunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert