Elskar að hanna og búa til skálar fyrir krúttlega hunda

Hekla Nína Hafliðadóttir hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir keramik hönnun …
Hekla Nína Hafliðadóttir hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir keramik hönnun sína. Nýjasta hönnun hennar eru fallegar keramik hundaskálar sem fanga augað. mbl.is/Árni Sæberg

Hekla Nína Hafliðadóttir er ung og upprennandi listakona sem hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir hönnun sína. Hekla stundar nám í Myndlistaskólanum í Reykjavík í keramik og hefur þegar gert nokkrar keramiklínur sem hafa slegið í gegn. Nýjasta hönnun hennar eru fallegar keramik hundaskálar sem fanga augað.

Ég hef alla mína tíð verið mikill dýravinur og elska ég fátt meira en hunda. Frá því ég byrjaði að búa til keramik hefur það alltaf verið á planinu að búa til fallegar vörur fyrir hunda og fleiri dýr. Hugmyndin að búa til keramik hundaskálar kom í raun út frá því að mér finnst ekki mikið úrval af fallegum hundaskálum hér á landi. Mig langaði að búa til fallegar skálar sem fólk vill hafa inn á heimilinu sínu og þarf ekki að fela inn í bílskúr,“ segir Hekla.

Ein tegundin hönnuð fyrir hunda með síð eyru

Skálarnar eru mikið prýði og sóma sér vel inni á heimilum fólks. „Ég vildi hafa hundaskálarnar litaglaðar og stílhreinar á sama tíma og er því hægt að velja um fimm handmáluð mynstur á skálarnar. Skálarnar er hægt að fá í tveimur stærðum og tveimur formum, með beinum veggjum og veggjum sem halla inn á við, sem er mjög sniðugt fyrir hunda með síð eyru, þá fara eyrun ekki ofan í skálina þegar hundurinn er að borða og drekka. Ég hafði mjög gaman að því að hanna skálarnar og ég elska að búa þær til fyrir alla krúttlegu hundana.“

Bósi hundurinn hennar Heklu fékk þessa fallegu hundaskál fyrir matinn …
Bósi hundurinn hennar Heklu fékk þessa fallegu hundaskál fyrir matinn sinn í 13 ára afmælisgjöf í ágúst. mbl.is/Árni Sæberg

Bósi fékk sérgerðar keramik skálar

Hundurinn minn Bósi er algjör dekur dúlla sem fær allt sem hann vill. Hann var því mjög sáttur þegar hann fékk sérgerðar keramik hundaskálar merktar með nafninu hans í 13 ára afmælisgjöf núna í ágúst,“ segir Hekla og brosir. 

Aðspurð segir Hekla að Bósi sé íhaldssamur þegar kemur að mat. „Bósi borðar þurrmat frá Barking Heads og er alls ekki mikið fyrir að breyta til, hann vill bara þennan ákveðna þurrmat og engan annan. Honum finnst þó mjög gott að láta blanda kæfu við matinn sinn því uppáhalds maturinn hans Bósa er Skólakæfa og fær hann smá skólakæfu á nánast hverjum degi. Hann er líka mikið fyrir það að sníkja mat við matarborðið og verður mjög spenntur þegar það er brokkolí á boðstólum, hann hefur elskað brokkolí síðan hann var hvolpur.

Bósi er það mikill prins að hann vill helst láta þjóna sér, honum finnst best að ég haldi á beininu hans á meðan hann er að naga það og vill láta færa sér vatnsglös nokkrum sinnum yfir daginn. Hundar eru svo yndisleg dýr og eru alltaf til staðar fyrir okkur mannfólkið. Bósi hefur verið minn besti vinur frá því að ég var 10 ára og hann gerir svo sannarlega alla daga betri.“

Hekla ætlar að halda áfram að hanna og gera hundaskálar. Hún er líka með á planinu að bæta skálum við fyrir fleiri en hunda og mannfólkið. „Ég er ótrúlega ánægð að ég sé byrjuð að gera hundaskálar og mun klárlega setja skálar fyrir önnur dýr í sölu inn á síðunni minni í framtíðinni,“ segir Hekla að lokum innblásin af sköpunarkrafti.

Fyrir áhugasama er hægt að fylgjast með hönnun og vöruþróun Heklu heimasíðu hennar hér. 

Hundaskálarnar litaglaðar og stílhreinar á sama tíma og hægt að …
Hundaskálarnar litaglaðar og stílhreinar á sama tíma og hægt að velja um fimm handmáluð mynstur á skálarnar. Skálarnar er hægt að fá í tveimur stærðum og tveimur formum. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert