Grænmetissteik og meðlæti að hætti Elínar

Elín Kristín Guðmundsdóttir býður upp á uppskrift að grænmetissteik með …
Elín Kristín Guðmundsdóttir býður upp á uppskrift að grænmetissteik með rótargrænmeti, thaini sósu og salati. Samsett mynd

Elín Kristín Guðmundsdóttir matarfrumkvöðull sem á og rekur fyrirtækið Ella Stína vegan hefur þróað nýja grænmetissteik sem hefur notið mikilla vinsælda. Það sem gerir grænmetissteikin sérstaka er að það eru engar hnetur í steikinni sem er kærkomið fyrir marga.

„Grænmetissteikin inniheldur engar  hnetur, hún er eina grænmetissteikin sem ég veit um sem er á markaði sem er án hneta og því er hún með ákveðna sérstöðu. Þegar ég hannaði þessa uppskrift þá var ég að horfa til þess að mæta þörfum þeirra sem eru eru með hnetuóþol en langar til að geta gætt sér að góðri grænmetissteik. Viðtökur neytenda hafa verið mjög góðar,“ segir Elín.

Grænmetissteikin lítur vel út og meðlætið er lítríkt og fjölbreytt.
Grænmetissteikin lítur vel út og meðlætið er lítríkt og fjölbreytt. mbl.is/Árni Sæberg

Ekkert betra en íslenskt grænmeti

Hver árstíð hefur sinn sjarma, eins og haustið þar sem allir fallegu litirnir í náttúrunni skarta sínu fegursta og uppskera af öllu íslenska grænmetinu frá sumrinu kemur í verslanir. „Þessi tími er uppáhalds tíminn minn, ég get hangið í verslunum og skoðað allt litríka grænmetið og valið mér í hvern réttinn af öðrum. Það er ekkert betra en íslenskt grænmeti brakandi ferskt og nýtt. Mér finnst gott að borða eins mikið og ég get af grænkáli, rauðkáli, rófum, gulrótum, spírum, nýjum kartöflum, rauðrófur, sveppum og papriku svo fátt sé nefnt,“ segir Elín.

Elín býður lesendum matarvefsins upp á uppskrift af girnilegum haustrétti, grænmetissteik, rótargrænmeti og thaini sósu sem á vel við á þessum árstíma. „Meðan grænmetissteikin og rótargrænmetið er að bakast í ofninum er gott að útbúa Thaini sósuna. Þannig nýtist tíminn vel og allt tilbúið á sama tíma,“ segir Elín.

Grænmetissteik með rótargrænmeti, haustsalati og thaini sósu

Fyrir 2-3

  • 1 stk. Grænmetissteik frá Ellu Stínu vegan.

Aðferð:

  1. Eldið eftir leiðbeiningum á umbúðum.

Rótargrænmeti með grænmetisblöndu

  • íslenskar kartöflur, nota hýðið þegar þær eru svona nýjar
  • sæt kartafla
  • 3-4 gulrætur
  • ½ rauðrófa 
  • ½ íslenskt blómkálshöfuð
  • ½ íslenskt spergilkálshöfuð
  • ½ askja íslenskir flúða sveppir
  • rótargrænmetisblanda frá Kryddhúsinu eftir smekk
  • salt og pipar eftir smekk
  • avókadóolía eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á að stilla ofninn á 180°C.
  2. Skerið niður allt rótargrænmeti og grænmeti.
  3. Steikið allt grænmetið aðeins á pönnu áður en það fer inn í ofn.
  4. Takið til ofnskúffu klædda bökunarpappír.
  5. Setjið fyrst á ofnplötuna kartöflur og rauðrófur.
  6. Setjið inn í ofn og látið bakast þar til kartöflurnar og rauðrófurnar hafa fengið fallegan lit.
  7. Steikið aðeins spergilkál, blómkál og sveppi sér á pönnunni.
  8. Raðið síðan restinni af grænmetinu í ofnskúffuna og hellið smá avókadóolíu yfir.
  9. Bakið í um það bil 10 mínútur, þarf mun minni tíma en rótargrænmetið.
  10. Grænmetið er tilbúið þegar það hefur tekið á sig gylltan lit og er stökkt að utan og mjúkt að innan. 

Thaini sósa

  • 1 dl tahini
  • 1 dl kalt vatn
  • 1-2 hvítlauksrif, pressað
  • 4 msk. sítrónusafi
  • 1 tsk. hlynsíróp eða agave
  • ½ tsk. salt

Aðferð:

  1. Blandið öllum hráefnum saman í skál og hrærið þar til úr verður silkimjúk sósa.
  2. Getið líka sett allt hráefnið í lítinn blandara og blandað vel saman.
  3. Smakkið til og bætið við sítrónusafa, hlynsýrópi eða salti eftir smekk.

Ferskt haustsalat

  • salat af eigin vali
  • íslenskt rauðkál
  • ½ íslensk gul eða rauð paprika
  • ½ íslensk gúrka
  • íslenskir kirsuberjatómar.
  • radísuspírur 
  • 1 gulrót

Aðferð:

  1. Skerið allt grænmetið niður eftir smekk.
  2. Blandið saman í skál.
Haustlegt og fallegt á matarborðinu.
Haustlegt og fallegt á matarborðinu. mbl.is/Árni Sæberg
Thaini sósan passar ákaflega vel með grænmetissteikinni.
Thaini sósan passar ákaflega vel með grænmetissteikinni. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert