Kolbrún Ýr Árnadóttir býður upp á vikumatseðilinn að þessu sinni sem er ketó vænn alla leið. Kolbrún Ýr stendur á bak við síðuna Ketó-þjálfun, þar sem hún deilir góðum ráðum og uppskriftum. Kolbrún gefur lesendum matarvefsins einnig nokkur gullráð til að fara eftir þennan septembermánuð, þegar við þurfum mest á hvatningunni að halda.
„Ég er mikil áhugamanneskja um mat og matargerð og hef verið í mörg ár,“ segir Kolbrún Ýr í samtali og bætir við: „Ég myndi segja að áhuginn hafi byrjað þegar ég og fjölskylda mín keyptum veitingastaðinn Thorvaldsen og rákum í sjö ár. Þar vann ég með ýmsum matreiðslumönnum og kom að hönnun á matseðlum þar öll árin,“ segir Kolbrún Ýr Árnadóttir.
Kolbrún Ýr nýtur þess að vera í eldhúsinu og töfra fram kræsingar fyrir sig og sína. „Mér þykir fátt skemmtilegra en að bjóða fjölskyldu og vinum í mat þar sem ég er búin að nostra við matinn yfir daginn og njóta svo saman.“ Kolbrún segist hafa strögglað við aukakílóin frá um 25 ára aldur og hefur prófað flesta kúra og bætiefni sem til eru. „Þegar ég kynntist lágkolvetna- og ketómataræðinu fann ég að það hentaði mér mjög vel, ég fann mína hillu. Eins og svo oft áður þegar fólk er að byrja á nýju mataræði vantar það hugmyndir og sérstaklega á íslensku. Mér fannst alveg vanta að ég gæti keypt mér matseðil sem segði mér hvað ég ætti að borða yfir daginn og uppskriftir. Það er alls engin skylda að fara eftir seðlinum frá a til ö heldur má líta á hann sem eins konar tillögur að deginum. Með því að fjárfesta í svona tilbúnum matseðli lærirðu heilan helling um nýjar samsetningar og einnig hvernig á að setja saman máltíðir,“ segir Kolbrún Ýr og bætir við að núna í sumar hafi golfið tekið dálítinn tíma frá eldamennskuna. „Núna er ég tilbúin í haustið og taka matseldina föstum tökum aftur og er búin að taka saman vikumatseðil fyrir vikuna sem er fjölbreyttur og keto vænn.“
Hægt er að fylgja Ketó -þjálfun á facebook hér og á Instagram reikningnum hér.
Mánudagur – Fiskréttur sem steinliggur
„Mér finnst rosa gott að byrja vikuna á fiskrétt, svo létt og gott í magann því oft erum við búin að borða aðeins þyngri mat yfir helgina.“
Þriðjudagur – Ketó-salat með kjúkling
„Gott kjúklingasalat er klassískt, mér finnst líka gott að gera aðeins aukalega og eiga í hádegismat jafnvel næstu 2 daga. Gott að skipuleggja sig vel.“
Miðvikudagur – Kjötbollur úr smiðju Thelmu
„Ég ber kjötbollurnar fram með fersku pico de gallo og hrísgrjónum en ég sleppi þeim fyrir mig en aðrir fjölskyldumeðlimir fá þau.“
Fimmtudagur – Fajita-kjúklingavefjur
„Hér má nota kjúkling eða nautahakk, svo nota ég lágkolvetna vefjurnar frá lowcarb.is.“
Föstudagur – Ketó-pítsa með chorizo, klettasalati og parmesan
„Yndislegt að enda vinnuvikuna á einfaldri ketó-pítsu og njóta með góðu Tommasi rauðvínsglasi.“
Laugardagur – Gómsætir smábitar Kolbrúnar
„Ég ætla vera með smá hamingjustund á laugardaginn og þá verður þessi réttur fyrir valinu, hef smá tíma til að dúlla mér við þetta yfir daginn og í engu stressi. Ég pikkla rauðlaukinn sjálf og hér er uppskriftin að því.“
„Síðan er keto-kaka í eftirrétt sem slær alltaf í gegn hvort sem þeir eru á ketó/lágkolvetna eða ekki.“
Sunnudagur – Teriyaki núðlur með nautakjöti
„Það er einhver kósí fílingur við heitan ketó núðlurétt á sunnudagskvöldi og síðan fáum við okkur smá kökusneið sem var afgangs frá kvöldinu áður.“