Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar og matgæðingur með meiru sviptir hulunni af sínum matarvenjum að þessu sinni. Rósa er ástríðukokkur og þekkt fyrir að vera höfðingi heim að sækja. Hún hefur gefið út nokkrar matreiðslubækur þar sem hún hefur fengið útrás fyrir sköpunargleðina. Hún er líka mikill fagurkeri og snillingur að galdra fram fallegar kræsingar fyrir ýmis tilefni og finnst langskemmtilegasta að undirbúa veislur eins og afmæli.
„Ég hef haft mikinn áhuga á mat og matargerð frá unglingsaldri og finnst gaman að fylgjast með straumum og stefnum og læra eitthvað nýtt. Ég fengið útrás fyrir þetta áhugamál og sköpunargleðina með því að skrifa, þýða og gefa út matreiðslubækur. Mér finnst mikilvægt að huga vel að mataræðinu og elda sem mest frá grunni til að vita nákvæmlega hvað við erum að setja ofan í okkur og geta passað upp á að fá fjölbreytta næringu úr öllum næringarflokkum Auðvitað gengur það ekki alltaf en að jafnaði er ég að borða um það bil 80% hollt, hreint og næringarríkt fæði og um 20% af öðru sem freistar. Það er ágætt að miða nokkurn veginn við það,“ segir Rósa.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Oftast fæ ég mér ,,hollustuskálar“, hafra- eða chiagraut eða gríska jógúrt sem ég bæti alls kyns góðgæti og hollustu út á eins og ávöxtum, berjum, hnetum, fræjum og möndlum svo úr verða sannkallaðir gleðigrautar. Grautarnir eru mjög saðsamir og gefa jafna og góða orku til að takast við verkefni dagsins. Og það veitir enn meiri gleði ef þeir eru litríkir og fallegir á að líta, eins og á við um flestan mat. En ég byrja daginn alltaf á góðum kaffibolla og vatnsglasi.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Ég reyni að vera ekki að sífelldu narti en ef hungrið sverfur að er gott að eiga hnetur, möndlur og fræ í skúffunni eða töskunni. Á þessum árstíma erum við mæðgurnar duglegar við að útbúa alls kyns hollustustykki og grauta sem gott er að eiga í ísskápnum eða frystinum og grípa með í nesti eða til að fá sér á milli mála. Við styðjumst aðallega við uppskriftir úr bókinni ,,Hollt nesti, morgunmatur og millimál“ sem ég gaf út fyrir nokkrum árum. Þar eru uppáhaldsuppskriftirnar okkar sem klikka ekki.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Já, sérstaklega á löngum, virkum dögum finnst mér mikilvægt að fá holla og góða næringu í hádeginu. Best finnst mér að fylla diskinn af fiski og fjölbreyttu salati og grænmeti, þá er ég til í hvað sem er það sem eftir er dagsins.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Osta, ber, gríska jógúrt, salat og grænmeti. Svo er alltaf til léttmjólk fyrir þá sem hana vilja og möndlumjólk sem ég nota í smúðinga og sýð hafragrautinn upp úr.“
Uppáhaldsgrillmaturinn þinn?
„Vel grilluð lambalund a‘la húsbóndinn stendur alltaf fyrir sínu.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á hvert ferðu?
„Ég fer nánast aldrei út úr Hafnarfirði þegar ég fer út að borða en ég get ómögulega gert upp á milli veitingastaðanna þar. Undanfarin ár hefur fjölbreytt flóra kaffihúsa og veitingastaða blómstrað í bænum og við íbúarnir og aðrir njótum góðs af. Þar er að finna allt frá vinsælum skyndibitastöðum til hágæða veitingastaða. Þannig af nógu er að taka allt eftir því hvað heillar og hentar hverju sinni. Þótt maturinn sé auðvitað aðalmálið finnst mér líka mikilvægt að umhverfið sé fallegt á veitingastöðunum, bæði snyrtilegt og smekklegt. Í mínum huga verður það að vera ákveðin upplifun og stemning að fara út að borða eða skella sér á kaffihús.“
Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á bucket-listanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja?
„Þegar ég heimsæki uppáhaldsborgirnar mínar London og Bologna reyni ég að snæða á einhverjum veitingastaða Ottolenghi, eins og ROVI eða NOPI sem og á indverska veitingastaðnum Dishoom. Í Bologna er alveg ómissandi að fara til Franco Rossi sem rekið hefur samnefndan veitingastað sinn frá árinu 1975. Þar gengur maður að fyrsta flokks ítalskri matargerð vísri og eigandinn gengur á milli gesta og spjallar. Þessir staðir eru alltaf á óskalistanum.“
Hvaða matarupplifun stendur upp úr í lífi þínu?
„Ég er mest fyrir einfalda matargerð og finnst jafnan best að borða frekar hefðbundinn mat, helst ,,beint frá býli“ og þegar lögð er áhersla á árstíðabundið hráefni. Veitingastaðir sem geta boðið upp á slíkt eru í sérstöku uppáhaldi og koma þá fljótt upp í hugann litlu veitingastaðirnir í Bologna þar sem maður fær sér ítalska skinku, osta, tómata og rauðvín sem allt er ræktað og framleitt í næsta nágrenni. Þar er það einfaldleikinn og hreinleikinn sem ræður ríkjum eins og ég kann svo vel að meta. Af íslenskum stöðum langar mig að nefna Friðheima í Reykholti þar sem tómatar ræktaðir á staðnum eru í lykilhlutverki og maturinn framreiddur í náttúrulegu og einstöku umhverfi.“
Hvað er það versta sem þú hefur bragðað?
„Svið.“
Uppáhaldskokkurinn þinn?
„Sá sem eldar eitthvað ljúffengt handa mér í það skiptið.“
Uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Gott kaffi er uppáhaldsdrykkurinn og morgunsopinn heima er sá allra besti. Þegar ég fer á kaffihús fæ ég mér yfirleitt tvöfaldan cappucino.“
Ertu góður kokkur?
„Jú, ætli megi ekki segja að ég sé ágætis kokkur. Ég hef ástríðu fyrir mat og matargerð og það skilar sér yfirleitt á diskana þegar hún er til staðar. Ég hef alltaf lagt mikið upp úr því að hafa kvöldmat fyrir alla fjölskylduna og næ því oftast þótt dagarnir séu annasamir. Mér finnst það ákveðin heilun að dunda við matreiðsluna í lok dagsins, að minnsta kosti þegar ég hef tíma til þess og er ekki á hlaupum. Það er markmið hjá mér að nýta matinn vel og elska að nota afurðir úr mínum eigin garði í matargerðina, salat, kryddjurtir og ber. Annars hefur mér mér alltaf fundist skemmtilegast að undirbúa afmæli og slíkar veislur, bæði að útbúa réttina og leggja fallega á borðið og skapa stemningu.“