Hrogn og lifur það versta sem Áslaug hefur smakkað

Garðbæingurinn Áslaug Hulda Jónsdóttir sviptir hulunni af matarvenjum sínum að …
Garðbæingurinn Áslaug Hulda Jónsdóttir sviptir hulunni af matarvenjum sínum að þessu sinni. Hér er hún með hundinum sínum Benedikt sem ávallt er kallaður Bensi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Garðbæingurinn Áslaug Hulda Jónsdóttir, aðstoðarmaður Háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra sviptir hulunni af matarvenjum sínum að þessu sinni. Hún er mikill matgæðingur og elskar að töfra fram ljúffengar kræsingar fyrir fjölskyldu og vini. Áslaug Hulda er þekkt fyrir að vera höfðingi heim að sækja og það fer enginn svangur út eftir heimsókn til hennar. Meira segja hundurinn hennar Benedikt fær að njóta góðs matar með fjölskyldunni enda einn af fjölskyldunni.

Hvað færðu þér í morgunmat?

„Ég borða aldrei morgunmat en ef það gerist fæ ég mér grænan djús eftir æfingu. Um helgar hendum við oft í bröns og þá eru egg að hætti Benedikts vinsæl, croissant og feitur ostur þegar maður nennir ekki veseni. Þegar strákarnir voru litlir var sport að fá pönnukökur í morgunmat um helgar en það eru nokkur ár síðan þeir hafa vaknað fyrir hádegi.“

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?

„Já, þar sem ég borða sjaldnast morgunmat er hádegisverður ómissandi. Ég er erfiða týpan í mötuneytinu enda er ég með eindæmum matsár. En á slíkum dögum klikkar salatbarinn sjaldan.“

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Ég væri sennilega öðruvísi í laginu ef ég borðaði aldrei á milli mála, það fer ekki á milli mála. Skyr og harðfiskur er besti og algengasti millibitinn. Stundum tölti ég út og fæ mér góðan kaffibolla og súrefni í millimál. Kexskúffan í vinnunni er svo líka stórhættuleg og ég dett stundum ofan í hana.“

Áslaug Hulda er mikill matgæðingur og veit fátt skemmtilegra að …
Áslaug Hulda er mikill matgæðingur og veit fátt skemmtilegra að en að töfra fram kræsingar handa sínu fólki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leynivopnið í ísskápnum Coke Zero

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

„Smjör og rjómi gera allt betra, ég nota hvítlauk og chili mikið í matargerð þannig að það er oftast til í ísskápnum. Síðan bý ég með tæpum sex metrum af karlmönnum sem vilja sitt og í ísskápnum því oftast líka egg, skyr, próteindrykkir og kjúklingur. Coke Zero í dós er síðan leynivopnið mitt, ískalt.“

Uppáhaldsgrillmaturinn þinn?

„Mér finnst grillmatur almennt góður og kolagrill er málið. Kjúklingur, naut, lamb – það fer bara eftir stemninguni hverju sinni. Síðan finnst mér gaman að brasa alls konar meðlæti með grillmat, grillað brauð baðað í hvítlaukssmjöri er oftast ómótstæðilegt.“

Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á hvert ferðu?

„Ég fer ekki oft út að borða á kvöldin en ef ég fer verða La Primavera eða Sumac fyrir valinu. Ef ég fer út í hádeginu og það er ekki hópferð í mathöll er það oftast Duck & Rose eða Kastrup. Óx og Moss eru veitingastaðir sem ég hef ekki farið á en mig langar að prófa.“

Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á bucket-listanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja?

„Nei, enginn einn sérstakur veitingastaður en ég vel mér oft áfangastaði út frá matarmenningu og spennandi veitingastöðum. Mig langar til dæmis til San Sebastian en það er víst veisla fyrir bragðlaukana. Síðan er ég töluvert íhald og fer gjarnan á sömu útvöldu veitingastaðina sem ég veit að klikka ekki þegar ég ferðast erlendis, gæti þess þó alltaf að prófa eitthvað nýtt líka.“

Besta marengsinn bakaði amma og toppaði með stjörnuljósum

Hvaða matarupplifun stendur upp úr í lífi þínu?

„Matarupplifun tengist stund og stað, það er upplifun að borða sushi í Asíu, froskalappir í París og pítsu í Napóli. Matarupplifun tengist líka fólki og góðum minningum. Sem barn var ég í sveit á sumrin og var víst óstöðvandi þegar ég kom heim í sumarlok í lýsingum um allan góða matinn sem ég fékk þar enda góð tilfinning að fá góðan mat eftir langa útiveru og vinnu með mönnum og dýrum. Besta kjötsúpa sem ég hef bragðað var við árbakka eftir viðburðaríkt „river raft“.  Besta marengsinn bakaði amma sem toppaði upplifunina með stjörnuljósum og fiskibollurnar eru bestar í bolluboðunum hjá mömmu.“

Hvað er það versta sem þú hefur bragðað?

„Þetta er hvorki þjóðlegt né töff en hrogn og lifur er það langversta sem ég hef smakkað. Stropuð egg, sem ég bragðaði á Filippseyjum og þau kalla Balut, koma svo sterk inn í annað sætið yfir það versta.“

Uppáhaldskokkurinn þinn?

„Stundum held ég að ég hafi valið mér vini og fjölskyldu út frá hæfileikum þeirra í eldhúsinu. Í alvöru, fólkið mitt gerir svo góðan mat. Og þeir sem eru ekki endilega bestu kokkarnir eru frábærir bakarar. Atvinnukokkarnir í mínu lífi er flestir nafnlausir. Instagramið mitt er troðfullt af matarmyndböndum og fæ aldrei nóg, það er svo margt spennandi í gangi.“

Uppáhaldsdrykkurinn þinn?

„Það fer eftir því hvað ég er að gera. Gott rauðvín með hægelduðum mat að hausti eða kalt cava með brakandi fersku kjúklingasalati að sumri. Drekk sennilega allt of mikið af sódavatni og á alltaf til ískaldan neyðarbauk með Coke Zero.“

Fólk afþakkar ekki matarboðin mín

Ertu góður kokkur?

„Fólk afþakkar að minnsta kosti ekki matarboðin mín! En náum við ekki oftast að gera það vel sem við höfum gaman af og mér þykir afskaplega gaman að elda. Það er eitthvað róandi og gott við matseld. Mig langar að elda þegar ég er glöð og líður vel, líka þegar það er stress og álag – þá róar það mig. Matur tengir líka fólk. Það er gott að njóta góðs matar með sínum og bestu stundirnar eru oft langt borðhald með góðum mat.“

 

Áslaug Hulda er líka þekkt fyrir að vera mikill gleðigjafi, …
Áslaug Hulda er líka þekkt fyrir að vera mikill gleðigjafi, sí hlæjandi og brosandi og meira segja Bensi líka. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert