Karrírétturinn með rækjunum uppáhalds hjá Atla

Atli Sigurðarson vinur Villa Neto sviptir hulunni af sínum uppáhaldsrétti, …
Atli Sigurðarson vinur Villa Neto sviptir hulunni af sínum uppáhaldsrétti, hinum leyndardómsfulla karrírétti með rækjum. Samsett mynd

Á dögunum skoraði Vilhelm Þór Neto, leikari og grínisti, á vin sinn Atla Sigurðarson matgæðing með meiru, að taka við keflinu af sér og ljóstrar upp sínum uppáhaldsrétti. Atli tók áskoruninni fagnandi og ljóstrar hér upp sínum uppáhaldsrétti, hinum leyndardómsfulla karrírétti sem hefur fylgt honum frá bernsku.

Sér um markaðsmálin hjá Stórkaup

Atli hefur verið önnum kafinn undanfarið og er að takast á við ný og spennandi verkefni. „Ég er nýbúinn að klára meistaranámið í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands, og bíð bara eftir að fá skírteinið í hendurnar nú í lok október. Ég var svo heppinn að fá mjög spennandi starf við sjá um markaðsmálin hjá Stórkaup sem er nýjasta viðbótin í Haga fjölskyldunni ef mér skjátlast ekki, ég ætti að vera með þetta á hreinu. Margir hugsa eflaust um gömlu Stórkaups verslunina í Skeifunni þar sem var hægt að kaupa kjúklingaspjót og kokteilsósu í eins lítra flöskum. Þetta er hins vegar nýtt batterí en það var ákveðið að endurnýta nafnið góða. Stórkaup þjónustar núna einungis rekstraraðila og er með alveg ótrúlegt úrval af aðföngum. Við erum með allt frá bleium fyrir leikskóla og upp í sjálfvirka gólfþvottaróbóta sem skúra heilu vöruhúsin. Þarna hlýtur að vera eitt breiðasta vöruúrval landsins,“ segir Atli og er spenntur fyrir komandi tímum í vinnunni.

Áhuginn minn kom eftir áhorf á matreiðsluþætti

Hefur þú ávallt haft gaman að því að matreiða og baka?

„Það eru um það bil tíu ár síðan að matreiðsla varð að áhugamáli hjá mér. Ég missti mig í að horfa á matreiðsluþætti og annað tengt matargerð þegar ég var í menntaskóla. Ég fór þá að hafa gaman að því elda eitthvað gott fyrir sjálfan mig og aðra. Það er fátt meira gefandi en að halda gott matarboð.“

Hvar færðu innblásturinn þegar kemur að því að matreiða?

„Ég væri eiginlega að ljúga ef ég segði að innblásturinn kæmi frá vel völdum fjölskyldumeðlimum. Ég held að þetta hafi allt byrjað með Masterchef þáttunum. Þá fyrst fannst mér geðveikt kúl að geta gert eitthvað geðveikt úr einhverju drasli sem kom upp úr Bónus poka,“ segir Atli og hlær. „Ég er algjör hákur á matreiðsluþætti og verð stundum háður ákveðnum mat ef ég sé eitthvað spennandi í sjónvarpinu. Til að mynda þegar ég horfði á Ugly Delicious þáttinn um pítsur, keypti ég mér í framhaldinu pítsaofn og ákvað að borða pítsu í kvöldmatinn í heila viku eingöngu til þess að æfa mig í að gera pítsur. Ég er reyndar mikill græjukarl og það skilar sér inn í eldhúsið þar sem ég elska að versla mér allskonar missniðugt dót og drasl. Ég dýrka að skoða nýja potta og pönnur og annað sem ég verð einfaldlega að eignast, sem kærastan skilur ekkert í. Fyrir tveimur árum þurfti ég til að mynda nauðsynlega að fjárfesta í pastavél sem hefur komið upp úr kassanum þrisvar sinnum síðan. Við kærastan fórum reyndar á pastagerðarnámskeið í Róm fyrir nokkrum vikum svo vonandi fer pastavélin að sjást oftar í notkun“ 

Var í hverju einasta barnaafmæli innan fjölskyldunnar

Ertu til að svipta hulunni af þínum uppáhaldsréttur og sögunni bak við hann?

„Rétturinn sem ég ætla að ljóstra upp hefur fylgt mér frá barnæsku og í fjölskyldunni er hann þekktur undir nafninu „karrírétturinn með rækjunum“. Amma mín hefur gert þennan rétt í hartnær fimmtíu ár. Þetta er líklegast einhver úrkynjuð íslensk útgáfa af paellu með því sem var í boði hérna á þessum tíma þegar amma byrjaði að útbúa þennan rétt. Þessi réttur var í hverju einasta barnaafmæli innan fjölskyldunnar þegar ég var lítill en þegar barnaafmælunum fór fækkandi þá voru engin tilefni til þess að elda þennan rétt lengur. Ég held að ég hafi verið að borða þetta í fyrsta skipti í tíu ár þegar ég ákvað að henda í þennan rétt í vikunni. Mamma og systir hennar urðu svo spenntar þegar ég sagði þeim að ég ætlaði að fara að elda réttinn hennar ömmu að þær fóru og fundu uppskriftina í gamalli handskrifaðri uppskriftabók frá ömmu,“ segir Atli og er afar sæll með útkomuna.

„Þessi réttur hefur samt alltaf verið einhvers staðar aftast í huga mér sem leiddi til þess að ég tók tveggja ára tímabil þar sem ég fékk mér ávallt karríbát með rækjum á Nonnabita í Hafnarstræti (RIP) þegar ég var á djamminu. Það kallaði fram ákveðna nostalgíu.“

Á hvern viltu skora næst til að taka við keflinu af þér og svipta hulunni af sínum uppáhalds rétti fyrir lesendum matarvefsins?

„Ég ætla að skora á vinkonu mína, sagnfræðinginn og sögukennarann, Nönnu Kristjánsdóttur matgæðings af Guðs náð.“ 

Girnilegur rétturinn hans Atla þar sem grjón og rækjur leika …
Girnilegur rétturinn hans Atla þar sem grjón og rækjur leika aðalhlutverkið. Ljósmynd/Atli Sig

Karrírétturinn með rækjum

  • 2 dl hvít hrísgrjón
  • 1 pk Bachelors Super Rice curry
  • 1 pk (350 g) rækjur
  • 1 bakki (250 g) sveppir
  • smjörklípa
  • 1 paprika (græn helst)
  • 250 ml rjómi
  • ostur til að toppa
  • 1 msk. karríduft
  • salt og pipar eftir smekk
  • cayenne pipar eftir smekk (má sleppa)

Aðferð:

  1. Hrísgrjónin soðin eftir kúnstarinnar reglum og Bachelors pokinn undirbúinn samkvæmt leiðbeiningum.
  2. Afþýðið rækjurnar
  3. Skerið sveppina í frekar þykkar sneiðar og paprikuna í litla teninga.
  4. Bræðið smjör í potti og setjið sveppina út í.
  5. Leyfið þessu að malla á lágum hita þangað til sveppirnir hafa mýkst.
  6. Blandið 1 matskeið af karrí saman við rjómann og setjið til hliðar.
  7. Þegar sveppirnir eru orðnir mjúkir bætið þá við hrísgrjónunum og Bachelors pokanum út í ásamt rækjunum og paprikunni.
  8. Hrærið síða karrí blandaða rjómanum saman við blönduna.
  9. Ef þið viljið er vert að bæta smá cayenne pipar út á blönduna til að fá aðeins meira bragði sem rífur í.
  10. Hráefnið er fært yfir í eldfast mót og saltað og piprað eftir smekk
  11. Stráið ostinum stráð yfir og setjið inn í ofn á 200 °C hita í um það bil 20 mínútur eða þar til osturinn hefur brúnast fallega.  
  12. Berið fram með snittubrauði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka