Nýru í brúnni sósu uppáhaldið hans Péturs Alans

Pétur Alan Guðmundsson kaupmaður í Melabúðinni er ánægður með innmatinn …
Pétur Alan Guðmundsson kaupmaður í Melabúðinni er ánægður með innmatinn í kjötborðinu og ætlar að matreiða nýru, hjörtu og lifur um helgina að hætti móður sinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Nú stendur yfir sláturtíð sem er mikil tilhlökkunarefni hjá mörgum og árum áður var þetta bæði annatími og tilhlökkun því þetta var einni tíminn sem hægt var að fá nýtt og ferskt kjöt. Nú er hægt að fá dýrindis lifur, hjörtu og nýru í helstu kjötborðum landsins þar sem sláturtíðin stendur sem hæst. Undirrituð heimsótti Pétur Alan Guðmundsson kaupmann í Melabúðinni og fékk smjörþefinn af því sem í boði er af innmatnum. Það má með sanni segja að lifur, hjörtu og nýru séu hinn besti matur ef rétt er staðið að matreiðslunni. Innmatur er mjög járnauðugur og því hin hollasta fæða og miðað við aðra matvöru er hann líka ódýr.

Það má með sanni segja að lifur, hjörtu og nýru …
Það má með sanni segja að lifur, hjörtu og nýru séu hinn besti matur ef rétt er staðið að matreiðslu. mbl.is/Árni Sæberg

Innmatur hollur og ódýr

Borðar þú innmatinn og matreiðir?

„Já, innmatur er svo sannarlega dásamlegur matur svo ekki sé minnst á hvað hann er hollur og ódýr. Ég hef að vísu ekki eldað hann undanfarin tvö ár en stefni að því um helgina og ég elda innmatinn og ber hann fram í brúnni sósu,“ segir Pétur Alan sem er ætíð spenntur þegar kemur að kræsingunum sem koma inn í verslunina þegar sláturtíðin hefst.

Nýrun eru uppáhaldsinnmaturinn hans Pétur Alans og hann léttsteikir nýrun …
Nýrun eru uppáhaldsinnmaturinn hans Pétur Alans og hann léttsteikir nýrun og snæðir í brúnni sósu. mbl.is/Árni Sæberg

Matreiði eftir aðferð sem móðir mín kenndi mér

Hvernig matreiðir þú innmatinn þannig að hann bragðast sem best?

„Þegar ég matreiði þessar kræsingar, eins og hjörtu og nýru þá nota ég aðferð sem ég lærði af mömmu. Sker nýrun í tvennt, tek himnuna af og læt útvatnast í köldu vatni í um það bil 20-30 mínútur. Snyrti aðeins hjörtun, sker í sneiðar og svo lifrina í sneiðar. Ég velti öllu upp úr hveiti og steiki á pönnu, byrja á hjörtunum því þau þurfa mesta suðu, síðan nýrunum og enda á lifrinni. Ég sýð hjörtun í um það bil klukkustund, og nýrun í að hámarki í 20 til 30 mínútur. Ég set alltaf smá lifur út í fyrir bragðið en meiripartinn í lok suðu svo hún verði ekki þurr, í svona 3 til 4 mínútur. Ég krydda oftast með „Season All“ kryddi eða álíka kryddi og sýð 3-4 lárviðarlauf með. Sósan á að þykkna vegna hveitisins en ef hún verður ekki nógu þykk er gott að setja sósujafnara eða hrista hveiti og vatn saman.  Síðan setja í hana sósulit til að fá hana fallega brúna,“ segir Pétur Alan. „Nýrun er uppáhaldið mitt, bæði léttsteikt og soðin í brúnni sósu. Þessa aðferð notaði móðir mín, Katrín S. Briem, alltaf og kenndi mér. Einnig kenndi hún mér hvernig best er að elda lifur en uppskriftin er hér fyrir neðan.

Þegar borðaður er járnauðugur matur eins og innmatur er vert að borða C-vítamínríkan mat með eins og kartöflur, grænmeti eða ávexti til þess að líkaminn nýti járnið að fullu. Þessa dagana er ný uppskera af grænmeti í verslunum og því á nógu að taka. 

Innmatur er mjög járnauðugur og því hin hollasta fæða og …
Innmatur er mjög járnauðugur og því hin hollasta fæða og miðað við aðra matvöru er hann líka ódýr. Hér eru hjörtu í forgrunni. mbl.is/Árni Sæberg

Steikt lifur að hætti Katrínar Briem

  • 2 stk. lifur
  • 2 stk. laukur
  • Hveiti eftir þörfum og smekk
  • Vatn eftir þörfum og smekk
  • Sósujafnari eftir þörfum og smekk
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Sósulitur eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að sneiða og brúna lauk á pönnu og hafið mikið af honum.
  2. Leggið hann svo til hliðar.
  3. Sneiðið lifur (það þarf ekki að himnuhreinsa eins og ýmsir gerðu)
  4. Veltið lfirinni upp úr hveiti og steikið hana á pönnu en passa vel að léttsteikja hana, það á aðeins blæða úr henni en hún jafnar sig þegar hún stendur aðeins.
  5. Kryddið til með salti og pipar.
  6. Búið til smá sósu með vatni og hveiti eða sósujafnara og sósulit og setjið saman á pönnuna, ásamt lauknum og lifrinni.
  7. Berið fram með soðnum kartöflum og stappið þær með hýðinu upp úr sósunni og njótið.
  8. Það má líka bera fram með kartöflumús.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert