Kjúklingur í parmesan uppáhalds hjá þingmanninum

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar er mikill sælkeri og elskar …
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar er mikill sælkeri og elskar að elda helgar. Einn uppáhaldsrétturinn hernnar parmesan kjúklingur borinn fram með salati og kartöflum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar er mikill sælkeri og elskar að elda ljúffeng kræsingar þegar tími gefst. Miklar annir eru hjá Þorbjörgu þessa dagana en hún situr meðal annars t í fjárlaganefnd og er varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar.  Svo það er engin lognmolla hjá henni. Hún er fjölskyldumanneskja og gæðastundirnar eru gjarnan við matarborðið. 

Haustin eru annasöm og Þorgbjörg leggur sig fram við að halda upp gæðastundum með fjölskyldunni og þá er helgar oftast best til þess fallnar. „Á virkum dögum er auðvitað minni tími til að stússast við eldamennsku og ég er hiklaust í hópi þeirra foreldra sem elda fljótlega rétti. Reyni að fara stórar Bónusferðir.  Við höfum til að mynda keypt hjá Eldum rétt  sem er þægilegt og vinsælt heima. Fiskikóngurinn á Sogavegi er síðan fastur punktur á mánudögum, þar sem þorskur í raspi verður gjarnan fyrir valinu eða annar góður fiskur. Á haustin er grjónagrautur oftar á borðum og pasta er nokkuð fastur dagskrárliður,“ segir Þorbjörg.

Heimakær um helgar

„Um helgar finnst mér skemmtilegt að geta gefið mér betri tíma í eldamennskuna. Bæði til að setjast niður í gott kaffi og morgunmat og svo að elda kvöldmat. Eitt af því sem gerir þingmennskuna svo skemmtilega er hvað við hittum margt fólk og úr ólíkum áttum. Það gerir reyndar líka að verkum að ég er voðalega heimakær um helgar. Þarf ekki meira en fólkið mitt hér heima.

Aðspurð segist Þorbjörg eiga sér sinn uppáhaldskokk. „Ina Garten er í uppáhaldi þegar ég fer að leita að uppskriftum. Hennar uppskriftum kynntist ég þegar ég bjó í Bandaríkjunum. Á nokkrar uppskriftabækur hennar. Einfaldar en góðar uppskriftir. Engir stælar eða óþarfa vesen.“

Uppáhaldshelgarrétturinn

Þegar hún er beðin um að ljóstra upp hver sé hennar uppáhaldshelgarréttur var hún fljót að svara. „Ég rakst á þennan rétt, parmesan kjúklingur borinn fram með salati og kartöflu og fannst hann virka sannfærandi; bæði einfaldur og girnilegur. Úr verður góður kjúklingur sem bæði krakkar og fullorðnir ættu að hafa smekk fyrir. Rétturinn þarf síðan í sjálfu sér ekki annað en einfalt salat með. En það er ekkert verra að vera með franskar eða kartöflur með,“ segir Þorbjörg og bætir við að þessi réttur sé einn af hennar uppáhaldshelgarréttum sem slær ávallt í gegn. 

Girnilegur kjúklingurinn í parmesan og fljótlegt og einfalt að elda …
Girnilegur kjúklingurinn í parmesan og fljótlegt og einfalt að elda þennan rétt. Ljósmynd/Þorbjörg Sigríður

Parmesan kjúklingur, salat og kartöflur

Fyrir 4

  • 4 kjúklingabringur
  • 2 dl hveiti
  • 2 egg
  • 3 dl brauðraspur
  • 1 dl rifinn Parmesan ostur
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Smjör eftir smekk
  • Góð ólífuolía
  • 1 sítróna

Aðferð:

  1. Byrjið á því að fletja út bringurnar með kjöthamri, ef hann er ekki til má fletja þær út með kökukefli. Það er atriði að bringurnar séu flatar.
  2. Setjið á þrjá mismunandi diska/skálar hveiti, egg og loks brauðraspur á þriðja diskinn.
  3. Blandið hveiti saman með 2 teskeiðum af salti og 1 teskeið af pipar.
  4. Hrærið eggin með einni matskeið af vatni ofan í eggjablöndunni.
  5. Á þriðja diskinn er settur brauðraspur og parmesanostur sem blandað er saman.
  6. Takið síðan bringurnar eina í einu, dýfðið fyrst ofan í hveitiblönduna þannig að hveitið þeki bringuna alla á báðum hliðum.
  7. Næst dýfið þið báðum hliðum bringunnar ofan í skálina með eggjablöndunni.
  8. Loks setjið þið bringuna ofan í blönduna af raspi og osti. Bringunni þrýst ofan í raspið og þess gætt að hún sé öll vel þakin af raspi.
  9. Hvað hveitið og brauðrasp varðar þá má bara bæta við ofan í skálarnar eftir þörfum.
  10. Saltið og piprið bringurnar aðeins í lokin aftur, allt eftir smekk, áður en þið steikið þær á pönnu.
  11. Setjið síðan 1 matskeið af smjöri og 1 matskeið af ólífuolíu á pönnu á miðlungshita. Það er ágætt að elda tvær bringur saman, fer eftir stærð pönnunnar.
  12. Steikið í um það bil 2-3 mínútur á hvorra hlið, eða þangað til þær eru steiktar og orðnar gylltar á litinn.
  13. Bætið síðan smjöri og ólífuolíu á pönnuna fyrir næsta skammt.
  14. Setjið síðan bringurnar í eldfast mót inn í ofn í allt að 15 mínútur á 200 °C hita. Bringurnar eiga að vera þunnar þurfa ekki lengri tíma.
  15. Áður en þið berið bringurnar fram er vert að kreista safa úr ferskri sítrónu yfir þær. Fallegt er að bera réttinn fram með sítrónubát á disknum.
  16. Bætið síðan salati og frönskum kartöflum á diskinn og njótið (uppskrift af salati og frönskum hér fyrir neðan)

Salat með sítrónu vinaigrette

  • 1 salatpakki að eigin vali
  • 2 sítrónur
  • 1 dl ólífuolía
  • Parmesanostur, gróft rifinn niður
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Kreistið safa úr tveimur sítrónum ofan í skál, blandið saman við 1 dl af ólífuolíu, 1 teskeið salti og pipar eftir smekk.
  2. Hrærið val saman.
  3. Takið hluta af vinaigrette og blandið saman við salatið.
  4. Dreifið síðan gróft rifnum parmesanosti yfir í lokin.
  5. Setjið restina af vinaigrette í skál og berið fram.

Franskar kartöflur

  • Kartöflur að eigin vali
  • Ólífuolía eftir smekk
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Rósmarín ef vill
  • Paprikudkrydd ef vill
  • Chilikrydd ef vill

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hitta ofninn í 200°C hita.
  2. Kartöflurnar eru annað hvort bara heiðarlegar franskar úr búðinni eða hægt að flysja nokkrar kartöflur, skera þær svo niður í þunnar sneiðar og setja í skál.
  3. Blandið saman með nokkrum teskeiðum af ólífuolíu, salti og pipar.
  4. Raðið sneiðunum  á bökunarplötu með bökunarpappír, helst þannig að þær séu aðskildar.
  5. Setjið inn í ofn í um það bil 20 mínútur á 200°C hita.
  6. Þegar búið er að baka þær eiga þær að vera orðnar stökkar að utan en mjúkar að innan.
  7. Í staðinn fyrir pipar má nota það sem til, rósmarín, paprikukrydd eða til dæmis chili. Alltaf mjög gott.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert