Berglind Festival á alltaf kalt freyðivín í ísskápnum

Berglind Festival á alltaf svona fjórar til fimm krukkur af …
Berglind Festival á alltaf svona fjórar til fimm krukkur af súrum gúrkum í allskonar stærðum en segir að það sé ekki viljandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Berglind Pétursdóttir, betur þekkt undir nafninu Berglind Festival, sviptir hulunni af skemmtilegum matarvenjum sínum og vel það. Hún elskar að njóta góðra veiga og kræsinga og er þekkt fyrir að vera mikill gleðigjafi á sjónvarspsskjám landsmanna. En hún starfar sem hugmynda- og textahöfundur hjá auglýsingastofunni Hér&Nú í Bankastræti og hefur verið í sjónvarpsþættinum Vikunni með Gísla Marteini síðastliðin 8 ár.

„Ég er mikil áhugakona um mat og finnst fátt skemmtilegra en að borða og drekka eitthvað gott í góðra vina hópi. Ég bý með 12 ára syni mínum á Hverfisgötunni og er að reyna að fá hann til að fá áhuga á fleiri fæðutegundum en pítsu og kebab,“ segir Berglind og hlær.

Feitar og mjúkar pönnukökur bestar

Hvað færðu þér í morgunmat?

„Á virkum dögum fæ ég mér bara kaffi á morgnana en um helgar finnst mér voða gaman að gera amerískar pönnukökur með þeyttum eggjahvítum og kúfaðri skeið af lyftidufti svo þær verða æðislega feitar og mjúkar.“

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Ég er mest í sódavatni og kaffidrykkjum á milli máltíða en annars er banani kóngurinn á milli mála. Sætur, góður og svo handhægur í sínum eigin umbúðum.“

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?

„Þar sem ég borða ekki morgunmat er ég alltaf mjög spennt að fá hádegismat. Ég labba oft heim og borða afganga í hádeginu svo ég spara fullt af pening sem ég nota svo aðeins seinna til að fara á Jómfrúna eða í Pósthúsið þegar ég fæ ógeð á þessu afgangalabbi. Ég er líka mikil áhugakona um hvað aðrir borðuðu í hádeginu. Var bent á það um daginn að það sé kannski smá skrýtið að vera í sífellu að spyrja fólk að því.“ 

Kannski uppáhalds hjá Berglindi, súrar gúrkur og kalt freyðivín.
Kannski uppáhalds hjá Berglindi, súrar gúrkur og kalt freyðivín. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjórar til fimm krukkur af súrum gúrkum í ísskápnum

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

„Smjör, egg og kalt freyðivín. Svo á ég af einhverjum ástæðum alltaf svona fjórar til fimm krukkur af súrum gúrkum í allskonar stærðum en það er ekki viljandi.“ 

Uppáhaldsgrillmaturinn þinn?

„Ég er ekki grillstelpa og finnst allt bras í kringum grill mjög óspennandi. Grillaður kjúklingur úr Melabúðinni er minn grillmatur.“

Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á hvert ferðu?

„Mér finnst alltaf geggjað að setjast á Vínstúkuna og fá mér smárétti með einhverri æðislegri vínflösku, Sumac fyrir sparileg tilefni. Skál, Jómfrúin, Matbar og Brút líka alltaf góðir.“

Safna saman veitingastöðum í París

Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á bucket-listanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja?

„Við vinkonurnar erum duglegar að safna veitingastöðum í París á sameiginlega „google mapsið“ okkar og það eru nokkrir þar sem ég á eftir að prófa.“

Hvaða matarupplifun stendur upp úr í lífi þínu?

„Ég fór til Japan árið 2018 og held ég hafi aldrei innbyrt jafn mikið af ótrúlegum mat og ég gerði á þeim 2 vikum. Fengum mikið af meðmælum og vönduðum okkur að raða saman veitingastöðum en duttum svo líka inn á allskonar skrítna staði, ótrúlegar ramen súpur og sushi-staði sem voru á allt öðru stigi sem vart er hægt að lýsa.“

Hvað er það versta sem þú hefur bragðað?

„Í sömu ferð enduðum við af einhverjum ástæðum á Fugu veitingastað sem seldi bara svona fiska sem geta blásið sig upp. Það var ekki fyrir mig.“

Uppáhaldskokkurinn þinn?

„Rottan í Ratatouille.“ 

Uppáhaldsdrykkurinn þinn?

„Rautt freyðandi Col Fondo frá Zanotto.“

Ertu góður kokkur?

„Langbesti kokkurinn á mínu heimili.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert