Hasselback-kartöflur með smjöri og parmesan

Ljúffengt er að strá rifnum parmesanosti yfir hasselbackkartöflurnar ásamt grófum …
Ljúffengt er að strá rifnum parmesanosti yfir hasselbackkartöflurnar ásamt grófum saltflögum. Ljósmynd/Sjöfn

Góðar kartöflur eru ávallt gott meðlæti og ekkert ljúffengara en ný uppskera af kartöflum. Hasselback-kartöflur eru einstaklega góðar með hvers kyns kjötréttum og steikum svo eru þær líka góðar einar og sér.

Bakaðar í ofni með miklu smjöri og rifnum parmesanosti gerir þær að veislumáltíð.

Hasselback-kartöflurnar er gaman að bera fram því þær eru svo fallegar þegar búið er að skera þær í þunnar sneiðar.

Til eru svokallaðir Hasselback-bakkar sem hægt er að fá í sérverslunum, til dæmis hjá Hnyðju sem er lítið fjölskyldufyrirtæki sem gerir handgerða Hasselback-bakka til að setja undir kartöflurnar þegar þær eru skornar. Þannig má koma í veg fyrir að þær séu skornar of langt niður og detti í sundur.

Hasselback-kartöflur

Fyrir 4

  • 4-6 stórar kartöflur, gott að nota bökunarkartöflur
  • 100 g smjör
  • Parmesanostur eftir smekk
  • Grófar saltflögur eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skera í kartöflurnar þannig að hnífurinn fari ekki alla leið í gegnum kartöflurnar og þær haldist saman á botninum en eru samt í þunnum sneiðum að ofan.
  2. Hitið ofninn í 200°C hita á blæstri.
  3. Raðið kartöflunum í eldfast mót eða fat.
  4. Vert er að hafa alla vega eina kartöflu á mann, ef kartöflurnar eru litlar þá er lag að miða við tvær á mann.
  5. Bræðið helminginn smjörinu og hellið yfir kartöflurnar. Skerið inn helminginn af smjörinu í þunnar sneiðar og stingið í nokkrar ræmur af kartöflunum líka. Megið líka bræða allt smjörið og hella því yfir kartöflurnar.
  6. Setjið inn í ofn og bakið í rúmlega klukkustund eða þar til kartöflurnar verða falleg gullinbrúnar.
  7. Penslið kartöflurnar með brædda smjörinu í fatinu af og til meðan þær bakast í ofninum.
  8. Rétt áður en kartöflurnar eru teknar út stráið þá rifnum parmesanosti eftir smekk yfir þær ásamt grófum saltflögum.
  9. Berið fram í fatinu eða á bretti, má skreyta með ferskum kryddjurtum eins og garðablóðbergi eða timian.
Gott er að velja bökunarkartöflur í þennan rétt og enn …
Gott er að velja bökunarkartöflur í þennan rétt og enn betra að eiga góða hasselbackbakka til að skera í kartöflurnar. Ljósmynd/Sjöfn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert