Á mínum bernskuárum steikti amma mín Sjöfn heitin ávallt lifur á þessum árstíma og var það einn af mínum uppáhaldsréttum. Lifrin var ávallt dúnmjúk og ljúffeng hjá ömmu og eftir að ég fór sjálf að búa og eignaðist fjölskyldu vorum við ávallt boðin í mat, minnst tvisvar í viku ef ekki oftar í mat til ömmu og afa. Við fengum þá áfram að njóta þess að borða góðan innmat á haustin þegar sláturtíðin stóð sem hæst.
Ég verð að játa að það er ákveðin fortíðarþrá sem blossar upp þegar ég sé innmatinn í kjötborðum matvöruverslana og ég hreinlega varð að freista þess á dögunum að elda lifur. Ég fékk því systur mína til að steikja með mér lifur og við buðum afa gamla í lifur að hætti ömmu heitinnar. Þvílíkt sælgæti, algjör nostalgía að njóta þessara góðu máltíðar og öll fjölskyldan slefaði yfir matnum. Lifur í brúnni sósu og heimagerð kartöflumús sem búið er að nostra við er fullkomin blanda að góðri máltíð. Og eitt það besta við þennan mat er að hann er ódýr og bráðhollur.
Steikt lifur að hætti ömmu Sjafnar
Aðferð:
Byrjið á því að sneiða og brúna laukana á pönnu upp úr ólífuolíu og smjöri, látið krauma aðeins.
Leggið laukinn til hliðar á disk eða fat.
Skerið beikonið í bita og steikið á pönnunni.
Takið beikonið til hliðar á disk eða fat.
Skerið lifrarnar tvær á ská, í sneiðar (það þarf ekki að himnuhreinsa).
Setjið síðan hveiti í skál til að velta lifrarsneiðunum upp úr og kryddið hveitið til með hvítum pipar og örlitlu salti eftir smekk.
Bræðið smjör og ólífuolíu á pönnu á meðalhita.
Veltið lifrarsneiðunum upp úr hveitiblöndunni.
Hækkið hitann á pönnunni og steikið sneiðarnar en passið vel að léttsteikja þær, það á aðeins blæða úr þeim en þær jafna sig þegar þær standa aðeins.
Kryddið til með salti og pipar eftir smekk.
Takið lifrarsneiðarnar af pönnunni og setjið á fat meðan sósan er löguð.
Takið fram góðan og stóran pott, t.d. keramik pott.
Búið til sósugrunn með vatni og hveiti eða sósujafnara og sósulit í pottinum.
Bætið síðan lauknum, beikoni og lárviðarlaufum.
Hellið dreitil af rauðvíni út í ef vill, má sleppa.
Bætið við sósulit og smakkið sósuna til.
Þegar þið eruð sátt við sósuna, bragð og áferð bætið þá lifrarsneiðunum út í.
Berið fram í pottinum ásamt heimalagaðri kartöflumús úr nýjum kartöflum.
Njótið vel.