Þessi ljúffengi réttur nýtur mikill vinsælda á mínu heimili og er fullkominn til að njóta á föstudagskvöldi. Þetta eru hakkbollur með ítölsku ívafi sem er upplagt að bera fram með góðu pasta, allra best er að vera með spaghettí eða linguini. Þá sjóðið þið það pasta sem þið viljið nota samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Upplagt að gera það með hakkbollurnar malla í bakarofninum í sósunni. Það dugar vel að bera fram þennan rétt með pasta og parmesanosti. Það getur líka verið gott að vera með ferskt salat og nýbakað súrdeigsbrauð fyrir þá sem vilja njóta enn frekar.
Ótrúlega einfalt og gott.
Ljósmynd/Sjöfn
Ítalskar hakkbollur
- 500 g nautahakk
- 500 g svínahakk
- ½ dl brauðrasp
- 1 laukur, smátt skorinn
- 3- 4 hvítlauksrif, marin (eða heill geiralaus hvítlaukur)
- 3 msk. fersk steinselja, smátt söxuð
- 2 msk. fersk basilíka, smátt söxuð
- 2 msk. rifinn parmesanostur
- 1 egg
- Svartur pipar eftir smekk
- Paprikukrydd eftir smekk
- Ólífuolía
Aðferð:
- Byrjið á því að hita ofninn í 200°C hita.
- Blandið síðan saman öllum hráefnum í skál, annaðhvort í hrærivélaskál og setjið krókinn á eða blanda saman með lófunum en þá er gott að vera í einnota plasthönskum.
- Mótið síðan jafn stórar bollur úr deiginu.
- Hitið ólífuolíu á pönnu og hafið góðan hita á pönnunni.
- Steikið síðan hakkbollurnar á báðum hliðum þar til þær verða gullinbrúnar.
- Þær fara síðan í eldfast mót með sósunni yfir í bakarofn í um það bil 20 til 25 mínútur.
Ítalska basilíku- og hvítlaukssósan
- 1 hvítlaukur, geiralaus marinn (þessi í körfunni)
- ½ laukur, smátt skorinn
- 2 dósir hakkaðir tómatar að eigin vali
- 2 dl vatn
- ½ kjúklingateningur
- 1 msk. fersk basilíka, smátt söxuð
- Svartur pipar eftir smekk
- Ólífuolía eftir smekk
- Parmesanostur eftir smekk
Aðferð:
- Byrjið á því að hita ólífuolíu við vægan hita í potti, steikið laukana í olíunni í um það bil mínútur eða þar til þeir eru orðnir mjúkir.
- Bætið öllu hinu í pottinn og leyfið sósunni að malla á meðan þið búið til hakkbollurnar.
- Þegar hakkbollurnar eru tilbúnar er þeim raðað í eldfast mót og sósunni hellt yfir og gott er að rífa niður smá parmesanost yfir líka.
- Síðan er fatið með bollunum sett inn í ofn við 200°C hita í um það bil 20 til 25 mínútur.