Fastur liður á matarvefnum á laugardagsmorgnum eru Húsó-uppskriftirnar sem koma úr hinu leyndardómsfulla eldhúsi í Hússtjórnarskólanum við Sólvallagötu. Skólameistarinn Marta María Arnarsdóttir flettir að þessu sinni ofan af uppskriftinni að plokkfisknum, þessum gamla góða, sem boðið hefur verið upp á íslenskum heimilum í áranna rás. Með plokkfisknum er ákaflega gott að fá heimagert rúgbrauð, eða þrumara og ferskt salat. Hér erum við komin með uppskriftina að plokkfisknum, rúgbrauðinu og salatinu sem allir í Hússtjórnarskólanum læra að gera.
Marta María Arnarsdóttir skólameistari Hússtjórnarskólans heldur áfram að gleðja lesendur matarvefsins með girniegum uppskriftum úr eldhúsi skólans.
mbl.is/Eggert Jóhannesson
Þetta er tilvalinn réttur til að bjóða upp á í komandi viku og gott að undirbúa sig aðeins fyrir þessa máltíð. Til að mynda þarf að eiga fisk og kartöflur í réttinn og rúgbrauðið þarf að gefa sér tíma í að baka.
Plokkfiskur – sá gamli góði
- 450 g soðin ýsa
- 400 g kartöflur, flysjaðar, kældar og skornar í bita
- (Athugið að hér er vel hægt að nota afgangs fisk, t.d. sem geymdur hefur verið í frysti, og kartöflur sem áður hafa verið soðnar).
- ½ laukur flysjaður og saxaður mjög smátt
- 50 g smjör eða smjörlíki
- 50 g hveiti
- 3-4 dl vökvi (fiskisoð og mjólk)
- Salt og pipar (og karrí ef vill)
- Nýmalaður svartur pipar eftir smekk
Aðferð:
- Laukurinn er kraumaður í smjörinu.
- Hveitið sett út í og bakað upp með mjólkinni.
- Salt og pipar (og mögulega karrí) sett út í eftir smekk.
- Fiskurinn og kartöflubitarnir settir út í í lokin og hrærið í með sleif.
- Berið fram með salati, rúgbrauði og smjöri.
Salat
- 4-6 gulrætur
- 1 appelsína
- 3 msk. rúsínur
Aðferð:
- Rífið gulræturnar með rifjárni eða í matvinnsluvél.
- Skerið appelsínurnar í bita.
- Blandið saman í skál og berið fram með rúsínum.
Heimagert rúgbrauð
- 2 l rúgmjöl
- 1 l hveiti
- 100 g sykur
- 3 dl síróp
- 3 msk. þurrger
- 2 msk. salt
- 6 dl vatn
- 6 dl mjólk
Aðferð:
- Öllu hrært saman, sett í smurða dós, látið standa í 6 klukkutíma.
- Bakað við 100°C í 12 klukkustundir.