Hekla kom, sá og sigraði nemakeppnina í ár

Hekla Guðrún Þrastardóttir nemi hjá Hygge Coffee & Micro bakery …
Hekla Guðrún Þrastardóttir nemi hjá Hygge Coffee & Micro bakery kom, sá og sigraði keppnina í ár. Samsett mynd

Nemakeppni Kornax var haldin á föstudaginn. Nemakeppnin hefur verið haldin árlega frá árinu 1998 og hefur markmið keppninnar verið að gefa bakaranemum tækifæri til að öðlast keppnisreynslu auk þess sem þetta er frábær æfing fyrir lokapróf í bakaraiðn.

Flestir ef ekki allir bakarar landsins hafa tekið þátt í keppninni að minnsta kosti einu sinni á sínum starfsferli.

Kornax hefur verið styrktaraðili þessarar keppni frá upphafi auk þess sem Landssamband bakarameistara hefur komið að því að veita verðlaun. Klúbbur bakarameistara hefur einnig komið að keppninni og veitt verðlaun.

Guðbjörg Salvör Skarphéðinsdóttir frá Kökulist var í öðru sæti, í …
Guðbjörg Salvör Skarphéðinsdóttir frá Kökulist var í öðru sæti, í þriðja sæti Lovísa Þórey Björgvinsdóttir frá Bæjarbakarí og Hekla Guðrún Þrastardóttir nemi hjá Hygge Coffee & Micro bakery var í fyrsta sæti. Ljósmynd/Árni Þorvarðarson

Þrjár efnilegar í faginu hlutskarpastar

Hekla Guðrún Þrastardóttir nemi hjá Hygge Coffee & Micro bakery kom, sá og sigraði keppnina í ár en vörurnar hennar voru bæði spennandi og vel vandaðar.  Í öðru sæti lenti Guðbjörg Salvör Skarphéðinsdóttir frá Kökulist og í þriðja sæti lenti Lovísa Þórey Björgvinsdóttir frá Bæjarbakarí. 

Árni Þorvarðarson, fagstjóri bakaradeildar í Hótel- og matvælaskólanum ásamt Ásgeiri Þór Tómassyni hafa séð um skipulag keppnina síðustu ár en alls tóku 13 þátttakendur þátt í ár. Forkeppni hófst 6. október og í kjölfarið á henni komust 6 nemar áfram í úrslit.

„Það er gaman að segja frá því að í fyrsta skipti í sögunni voru einungis kvenkyns nemendur í úrslitum. Bakarastéttin hefur verið karlæg í gegnum árin og því er gaman að sjá þessa þróun,“ segir Árni og bætir við að keppnin hafi verið æsispennandi í ár.

Ákveðið þema gegnum allt ferlið

„Til að komast langt í keppninni þarf viðkomandi nemandi að vera skapandi, vel skipulagður og framkvæma í samræmi við undirbúninginn. Keppendur þurfa að finna sér þema, búa til skrautstykki og tengja baksturinn við þemað sem valið hefur verið,“ segir Árni.

„Það er einstaklega skemmtilegt að sjá þá sköpun sem fram fer í keppni sem þessari og fylgjast með því sem nemarnir töfra fram. Listrænir hæfileikar hvers og eins skína í gegn og brauðið og kræsingarnar fanga augað. Það er gaman að sjá hversu mikið keppnin hefur sprungið út, metþátttaka var í ár og framtíðin er björt í faginu,“ segir Árni að lokum og horfir björtum augum til framtíðarinnar í faginu.

Hekla með sitt glæsilega vinningsborð með afurðir sínar sem slógi …
Hekla með sitt glæsilega vinningsborð með afurðir sínar sem slógi í gegn. Ljósmynd/Árni Þorvarðarson
Kræsingar sem keppendur útbjuggu voru glæsilegar og þeim til mikils …
Kræsingar sem keppendur útbjuggu voru glæsilegar og þeim til mikils sóma. Ljósmynd/Árni Þorvarðarson
Listrænir hæfileikar keppenda fengu að njóta sín til fulls.
Listrænir hæfileikar keppenda fengu að njóta sín til fulls. Ljósmynd/Árni Þorvarðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert