Í tilefni kvennafrídagsins í dag er lokað víða og meðal annars í Mosfellsbakarí. Í tilkynningu frá Mosfellsbakarí segir að fjarvera kvenna hafi mikil áhrif á rekstur Mosfellsbakarís og munu því verslanir þeirra vera lokaðar í dag, þriðjudaginn 24. október. Þar kemur einnig fram að þakklæti til allra frábæru kvennanna sem standa vaktina í bakaríinu og Mosfellsbakarí styðji þær í jafnréttisbaráttunni.
„Fjarvera kvenna hefur mikil áhrif á rekstur Mosfellsbakarís. Eins og er eru einungis konur sem vinna í afgreiðslunni á virkum dögum. Það kom því ekkert annað til greina en að loka verslunum okkar þennan dag svo allar konur í fyrirtækinu gætu tekið þátt í kvennafrídeginum,“ segir Hafliði Ragnarsson, bakara- og súkkulaðimeistari hjá Mosfellsbakarí.
Aðspurður segir Hafliði jafnframt að viðbrögð við þessari ákvörðun hafi verið góð. „Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð við þessari ákvörðun bæði frá starfsfólki og frá viðskiptavinum.“