Húsó-smábrauðin fullkomin fyrir helgarbaksturinn

Skólameistarinn í Hússtjórnarskólanum, Marta María Arn­ars­dótt­ir, deilir hér með lesendum …
Skólameistarinn í Hússtjórnarskólanum, Marta María Arn­ars­dótt­ir, deilir hér með lesendum uppskriftinni af Húsó-smábrauðunum ljúffengu. Samsett mynd

Fast­ur liður á mat­ar­vefn­um á laug­ar­dags­morgn­um eru Húsó-upp­skrift­irn­ar sem koma úr hinu fræga eld­húsi í Hús­stjórn­ar­skól­an­um við Sól­valla­götu enda er mörg leyndarmál geymd þar. Skóla­meist­ar­inn Marta María Arn­ars­dótt­ir deilir nú með lesendum ljúffengri uppskrift af brauðbollum sem gjarnan eru kallaðar Húsó-smábrauðin. Húsó-smábrauðin er fullkomin fyrir helgarbaksturinn hvort sem þau eru borin fram með morgunverðinum, brönsinum eða helgarkaffinu. Þau er langbest nýbökuð og ylvolg og ilmurinn er svo lokkandi þegar þau koma út úr ofninum.

Brauðbollur – Húsó-smábrauðin

  • 50 g lint smjör eða brætt
  • 1 ½ dl vatn eða mjólk
  • ½ egg
  • 2 ½ tsk. þurrger
  • 1 tsk. sykur
  • 200 g hveiti
  • 50 g heilhveiti
  • ½ tsk. salt

Aðferð:

  1. Leysið gerið upp í volgu vatni eða volgri mjólk (37°C).
  2. Blandið sykri, salti, smjöri og hveiti saman við.
  3. Hrærið deigið saman með sleif eða hnoðið í hrærivélaskál þar til deigið verður samfellt og losnar frá skálinni.
  4. Látið hefast í ½-1 klukkustund eftir aðstæðum.
  5. Mótið bollur og látið hefast aftur í 10-15 mínútur eða setjið inn í kaldan ofn.
  6. Gott er að pensla brauðið með mjólk eða restinni af egginu og strá fræjum yfir.
  7. Bakið í miðjum ofni við 180°C í um það bil 10-12 mín þar til bollurnar eru orðnar fallega gullinbrúnar.
  8. Berið fram volgar og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert