Eva hin mikla eldhúsnorn

Eva Dögg Rúnarsdóttir meðstofnandi & skapandi stjórnandi vellíðunarfyrirtækisins Rvk Ritual …
Eva Dögg Rúnarsdóttir meðstofnandi & skapandi stjórnandi vellíðunarfyrirtækisins Rvk Ritual er ein af þeim sem elskar þessa árstíð og velur að borða það sem passar best við árstíðina. mbl.is/Árni Sæberg

Nú er veturinn skollinn á í allri sinni dýrð. Það er ekki bara gróðurinn og landslagið sem breytist heldur líka matarvenjurnar. Margir fara í orkumeiri sem á við árstíðina og velja mat sem passar við veðurfar og hitastig.

Eva Dögg Rúnarsdóttir meðstofnandi & skapandi stjórnandi vellíðunarfyrirtækisins Rvk Ritual er ein af þeim sem elskar þessa árstíð og velur að borða það sem passar best við árstíðina. Eva lítur á sjálfan sig sem mikla eldhúsnorn og nýtir hvert tækifæri í eldhúsinu til að heila fjölskylduna sína með ýmsum kryddum og lækningajurtum til að öllum líði sem allra best allan ársins hring.

Best fyrir heilsuna að lifa með árstíðum

Breytast matarvenjurnar á veturna?

Já, samkvæmt ayurveda sem eru systur vísindi yoga, Þá eru haustin vata árstíð og veturinn kapha árstíð með sterkum vata tón. Ég er einmitt vata sjálf svo að haustin eru svona mín uppáhaldsárstíð. og ég held áfram að borða vata með smá kapha fram á vetur. En ég trúi því að það sé best fyrir okkur og heilsuna okkar að lifa með árstíðunum og í takt við náttúruna, að borða eftir árstíðum og staðsetningu. og auðvitað eftir þinni líkamstýpu samkvæmt bæði ayurveda og human design,“ segir Eva

Á haustin borða ég “vata” mat þó að ég reyni nú að gera það á einhvern hátt yfir allar árstíðirnar. Ég einblíni aðallega á heitan mat og heit krydd. Ég borða mikið af súpum og heitum pottréttum og drekk mikið af te, helst úr íslenskum jurtum sem ég er búin að týna yfir sumarið. Einnig nýt ég þess að borða íslenskt grænmeti á okkar aðal uppskerutíma á haustin og draga það svo (og öll vítamínin) inn í veturinn með mér. MEð því að vera búin að gera seyði, pestó og annað úr íslenska grænmetinu.

Dahl lætur mér líða betur í líkama og sál

Áttu þér þinn uppáhaldsvetrarétt?

, ég elska Dahl og töfrandi Kitchari og svo elska ég líka allskonar næringarríkar súpur. En Dahl er svona réttur sem lætur mér alltaf líða betur í líkama, huga og sál. Fullkomið að borða við kertaljós í íslenskri lægð og finna næringuna flæða inn í allar frumur líkamans.“

Er einhver saga bak við réttinn?

Nei, þetta er bara mín eigin útgáfa af indversku dahli. Hún er alls ekk hefðbundin. Mér finnst svo gott að gera risastóran pott og geyma svo afganginn í frysti svo dreg ég hann fram af og til og bæti endalaust í af einhverju nýju svo Dahlið þróast svona eftir mínu skapi og mínum fíling. Ég bæti því við sem fjölskyldan þarf af heilsubætandi kryddum, grænmeti og oft baunum líka. Dahl-ið geri ég alltaf með rauðum linsum en oft bæti ég við kjúklingabaunum eða smjörbaunum við, einnig er gott að saxa hvítkál ofan í eða spínat os.frv.. Um að gera að nota ímyndunaraflið.  Allir í fjölskyldunni borða þetta af bestu lyst og ekki síst yngsti fjölskyldumeðlimurinn sem er ekki nema 17 mánaða. Fullkomið að fela allskonar hollt og gott í þessu.

Eva sviptur hulunni af uppskriftinni

Eva sviptir hér hulunni að uppskriftinni fyrir lesendur og hvetur alla til að prófa. Hvað varðar magn að hverju segir Eva að vert sé nota innsæið og betrum bæta að vild. Fyrir áhugasama er að hægt að fylgja Evu á Instagram bæði á @evadoggrunars og @rvkritual

Lostæti þessi fallegi og litríki indverski réttur hjá Evu.
Lostæti þessi fallegi og litríki indverski réttur hjá Evu. mbl.is/Árni Sæberg

Indverskt dahli

  • 1-2 msk. kókosolía
  • 2 saxaðir gulir laukar
  • 4 hakkaðir hvítlauksgeirar, má vera meira
  • 2 tsk. ferskt engifer, má vera meira
  • 1 tsk. ferskt túrmeric, má vera meira
  • 1 tsk kóríander krydd
  • 1 tsk. kúmen krydd (malað)
  • 1 tsk. papriku krydd
  • 2 tsk. garam masala
  • 300 g rauðar linsur
  • 750 ml grænmetissoð
  • 1 dós kókosmjólk
  • 1 dós af tómötum
  • smá salt og pipar og smá lime eða sítrínusafi
  • lítill haus af blómkáli

Skraut ef vill

  • Kókosjógúrt
  • Fersk steinselja
  • Kóríander
  • Sesamfræ
  • Fræ eða hnetur að eigin vali

Aðferð:

  1. Hitið kókosolíuna í potti.
  2. Bætið söxuðum lauknum út í og ​​steikið í 2-3 mínútur þar til hann er hálfgagnsær.
  3. Bætið síðan hvítlauknum og engiferinu út í í eina mínútu í viðbót þar til töfrandi og vel ilmandi.
  4. Bætið loks kryddinu út í og ​​steikið í nokkrar sekúndur til að vekja kryddin og koma bragðinu fram.
  5. Setjið linsurnar í fínt sigti og skolið aðeins.
  6. Bætið þeim síðan við laukblönduna á pönnunni.
  7. Hellið grænmetissoðinu út í , hrærið saman og látið sjóða.
  8. Eldið undir loki í um það bil 6 mínútur, eða þar til linsurnar hafa dregið í sig mest af vökvanum.
  9. Bætið blómkálinu við og látið malla í um það bil 2 mínútur í viðbót.
  10. Því næst setjiði kókosmjólk og tómatana út í og látið malla í 5-10 mínútur í viðbót, eða þar til linsurnar eru mjúkar. Ef sósan er of þykk, bætið þá við aðeins meira seyði eða kókosmjólk, þar til þið finnið bragð og áferð sem talar til ykkar.
  11. Kryddið með salti, pipar  og limesafa eftir smekk.
  12. Mikilvægasta er síðan að skreyta dahl-ið með fallega með kókosjógúrt, ferskri saxaðri steinselju eða kóríander og sesamfræjum eða öðrum fræjum/hnetum sem þ viljið.
  13. Berið fram yfir hrísgrjónum eða með góðu nanbrauði sem hægt er að dýfa í.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert