Gómsætur marens með súkkulaðimús og hindberjum

Guðbjörg Salvör Skarphéðinsdóttir bakaranemi lenti í öðru sæti í Nemakeppni …
Guðbjörg Salvör Skarphéðinsdóttir bakaranemi lenti í öðru sæti í Nemakeppni Kornax og býður upp á helgarbaksturinn að þessu sinni. mbl.is/Árni Sæberg

Guðbjörg Salvör Skarphéðinsdóttir, 18 ára bakaranemi frá Hafnarfirði, gerði sér lítið fyrir og lenti í öðru sæti í Nemakeppni Kornax sem haldin var á dögunum og er það glæsilegur árangur.

Keppnin hefur verið haldin árlega frá árinu 1998 og hefur markmið keppninnar verið að gefa bakaranemum tækifæri til að öðlast keppnisreynslu auk þess sem þetta er frábær æfing fyrir lokapróf í bakaraiðn.

Margar góðar minningar um bakstur

Ástríðan fyrir bakstri hefur ávallt verið til staðar hjá Guðbjörgu og hún vissi fljótt hvert hugurinn stefndi.

„Síðan ég man eftir mér hefur mér alltaf fundist mjög gaman að baka. Þegar ég hugsa til baka get ég séð svo ótal margar góðar minningar sem tengjast bakstri. Til að mynda á ég góðar minningar frá því að ég var að baka með fjölskyldunni, til dæmis gera lakkrístoppa með fjölskyldunni þegar við vorum öll föst inni í snjóstormi með heitt kakó, baka skinkuhorn á sólbjörtum sumardegi uppi í sumarbústað með mömmu og skreyta afmæliskökur með systur minni. Síðan eru það allir þessir dagar sem ég og vinkona mín komum heim eftir skóla og fórum beint að baka,“ segir Guðbjörg dreymin á svip.

Guðbjörg byrjaði að vinna í bakaríinu Kökulist þegar hún var 16 ára gömul og nýbúin að ljúka grunnskólanámi. „Strax eftir fyrstu vikuna vissi ég að þetta starf, að vera bakari, væri eitthvað sem ég ætti heima í. Alltaf á erfiðum eða streituvaldandi tímum fann ég frið þegar ég byrjaði að baka, til dæmis kökur, og skreyta þær. Í þessum aðstæðum og umhverfi leið mér vel og ég fann að ég gæti dregið mig út úr streituvaldandi heiminum og inn í heiminn minn. Það má segja að baksturinn sé mín hugleiðsla og veiti mér vellíðan. Ég á rúmt eitt og hálft ár eftir af námssamningnum mín hjá Kökulist og eftir að honum lýkur er planið að auka þekkingu mína og fara í meira nám sem tengist bakaraiðninni, eins og til dæmis konditor í Danmörku.“

Uppskriftin kemur frá mömmu

Aðspurð segir Guðbjörg að það sé hefð fyrir því að baka ávallt fyrir afmælisveislur og ýmis kaffiboð og helgarbaksturinn sé líka eitt af því sem hún haldi í. Guðbjörg býður hér lesendum upp á uppskrift fyrir helgarbaksturinn sem kemur úr fjölskyldunni. „Þessi uppskrift kemur frá mömmu minni og hefur hún bakað þessa marenstertu fyrir flest afmæli og kaffiboð. Þegar hún gerir þessa tertu setur hún súkkulaði á botnana og setur svo þeyttan rjóma yfir með súkkulaðirúsínum og síðan næsta botn ofan á, eftir það fer svo sama krem og í uppskriftinni hér nema tertan er skreytt með súkkulaðirúsínum. Hið skemmtilega við marens er hversu mikið maður getur látið sér detta í hug að setja á milli. Ég elska súkkulaði og þess vegna veit ég upp á hár hvað á að vera á minni tertu en hún er með súkkulaðimús og ferskum hindberjum. Hér höfum við því klassískan hvítan marens með súkkulaðimús og ferskum hindberjum á milli og súkkulaðikremi á toppnum eins og mér finnst allra best.“

Guðbjörg vill líka gefa lesendum gott ráð fyrir baksturinn. „Marens er svakalega viðkvæmur svo ég passa mig að hræra ekki mikið. Ef þú hrærir of mikið fer allt loftið úr kökunni og botninn fellur í ofni,“ segir Guðbjörg að lokum.

Marensterta með súkkulaðimús og ferskum hindberjum er uppáhaldstertan hennar Guðbjargar …
Marensterta með súkkulaðimús og ferskum hindberjum er uppáhaldstertan hennar Guðbjargar og uppskriftin kemur úr smiðju mömmu hennar. mbl.is/Árni Sæberg

Marens með súkkulaðimús og hindberjum

Marens

  • 4 eggjahvítur
  • 200 g sykur
  • 1 tsk. lyftiduft
  • 2 bollar Rice Krispies

Aðferð:

Byrjið á því að hita ofninn í 140°C hita með blæstri.

Þeytið saman eggjahvítur og sykur þangað til blandan er stífþeytt.

Bætið síðan lyftidufti og Rice Krispies varlega saman við með sleif.

Teiknið tvo hringi hvorn á sinn bökunarpappírinn sem eru um það bil 20-22 cm í þvermál og leggið á bökunarplötu.

Skiptið blöndunni jafnt niður í hringina sem þið teiknuðuð, sléttið úr og jafnið út eftir hringnum. Setjið inn í ofn og bakið í 60 mínútur, slökkvið þá á ofninum og leyfið marensinum að kólna í ofninum.

Súkkulaðimús

  • 500 ml þeyttur rjómi
  • 300 g dökkt súkkulaði
  • 1 ½ dl rjómi

Aðferð:

  1. Bræðið saman rjóma og súkkulaði og kælið síðan niður í um það bil 35°C.
  2. Blandið síðan varlega saman við þeytta rjómann.

Krem

  • 80 g flórsykur
  • 4 eggjarauður
  • 100 g súkkulaði
  • 50 g smjör

Aðferð:

  1. Byrjið á því að þeyta saman flórsykur og eggjarauður.
  2. Bræðið saman súkkulaði og smjör og blandið síðan öllu saman og fáið þessa fallegu fisléttu áferð.

Skraut og á milli botna

  • Hindber eftir smekk
  • Bláber eftir smekk
  • Jarðarber eftir smekk
  • Súkkulaðidropar eftir smekk

Samsetning

  1. Byrjið á því að setja annan botninn á kökudisk og setjið súkkulaðimúsina á milli ásamt hindberjum. Þið ráðið hversu mikið magn þið viljið hafa af hindberjum.
  2. Leggið síðan hinn botninn ofan á og smyrjið súkkulaðikreminu ofan á.
  3. Skreytið með berjum og sætindum að vild.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert