Hér er á ferðinni uppskrift að kjúklingalasagna hentar fullkomlega í matarboðin þar sem öll fjölskyldan kemur saman til að njóta. Uppskriftin kemur úr smiðju Valgerðar Grétu Gröndal, alla jafna kölluð Valla, og heldur úti uppskriftasíðunni Valla Gröndal.
„Þetta er virkilega bragðgóður og skemmtilegur réttur sem allir sem smakka, hvort sem er börn eða fullorðnir, fá ekki nóg af. Það er líka svo þægilegt við þennan rétt að ég notaði kjötið af einum heilum kjúkling. Það væri vel hægt að kaupa tilbúinn kjúkling til að flýta enn meira fyrir sér. Þennan rétt er einnig hægt að skipta í hluta og frysta. Það er mjög gott sparnaðarráð að elda ríflegt magn og frysta afganga. Það getur flýtt mikið fyrir manni í hversdeginum að eiga eitthvað tilbúið í frysti eða jafnvel taka með sem nesti í vinnu,“ segir Valla og er ánægð með afraksturinn.
Kjúklingalasagna
Fyrir 4-6
- 2 msk. ólífuolía
- Kjöt af einum heilum stórum kjúkling, hægt að nota 4 kjúklingabringur í þennan rétt
- 1 græn paprika
- 1 geiralaus hvítlaukur
- 1 laukur
- 3 stórar gulrætur
- 1 box sveppir
- ½ piparostur
- 1 dós, venjuleg stærð niðursoðnir tómatar
- 1 flaska tómatpassata
- ½ krukka grænt pestó
- 1 msk. oreganó
- 1 msk. ítalskt krydd
- 1 msk. grænmetiskraftur í krukku frá Rapunzel
- 2 tsk. kjúklingakraftur eða 2 teningar
- Salt og pipar eftir smekk
- 1 poki mozzarellaostur og ½ piparostur rifinn
Aðferð:
- Saxið smátt eða setjið í matvinnsluvél: papriku, hvítlauk, lauk, gulrætur, sveppi og piparost og steikið í frekar stórum potti.
- Bætið tómötum, passata, pestó og kryddum út í og látið malla í 5 mínútur.
- Bætið kjúkling út í og látið malla aðeins áfram.
- Hitið ofn í 190°C
- Raðið í standard stærð af ferköntuðu lasagna eldföstu móti:
- Fyrst kássa, síðan lasagnablöð og svo framvegis.
- Látið efsta lagið vera kássu og stráið mozzarellaosti og rifnum piparosti yfir
- Bakið í 40 mínútur.
- Berið fram með góðu salati og hvítlauksbrauði að eigin vali.