Dýrindis kleinuhringir

Gunnar Jökull Hjaltason deilir hér með lesendum uppskrift að kleinuhringjum …
Gunnar Jökull Hjaltason deilir hér með lesendum uppskrift að kleinuhringjum fyrir helgarbaksturinn sem eiga án efa eftir að hitta í mark. mbl.is/Árni Sæberg

Gunnar Jökull Hjaltason bakaranemi frá Mosfellsbakaríi sigraði í keppninni um brauð ársins í ár með ljúffengu brauði, kamút-súrdeigsbrauði sem sló í gegn. Gunnar er aðeins tvítugur og hefur þegar sannað sig vel í bakarahlutverkinu. Hann hefur unnið í rúm þrjú ár í Mosfellsbakaríi og unir sér vel.

Áhugi Gunnars fyrir bakstri hefur ávallt verið til staðar frá því hann man eftir sér og veit hann fátt skemmtilegra en að baka kræsingar og bjóða fólkinu sínu upp á. Bakarastarfið fer vel með hann og að þurfa að vakna um miðja nótt til að baka truflar Gunnar ekki. „Mér finnst það bara fínt enda hef ég alltaf verið morgunhani þannig að það að vakna snemma höfðar vel til mín og líka fínt að vera búinn snemma í vinnunni,“ segir Gunnar.

Langar að starfa sem bakari í öðrum löndum

Gunnar er ekki búinn að taka ákvörðun um næstu skref þegar hann hefur lokið sveinsprófinu. „Ég veit það í raun og veru ekki en held að mig langi að ferðast og starfa sem bakari í öðrum löndum og auka þekkinguna og reynsluna í bakstri. Það er ávallt gaman að bæta við sig og kynnast menningunni í bakaríum í fleiri löndum.“

Nú styttist óðum í aðventu- og jólabaksturinn en það er helgi fram undan og áður en allar jólauppskriftirnar ryðja sér rúms er hér ein uppskrift úr smiðju Gunnars að dýrindis kleinuhringjum, annars vegar með karamelluglassúr og hins vegar með súkkulaðiglassúr. Þessa kleinuhringi er upplagt að baka og hafa með helgarkaffinu viku fyrir fyrsta í aðventu.

Ómótstæðilega girnilegir kleinuhringir.
Ómótstæðilega girnilegir kleinuhringir. mbl.is/Árni Sæberg

Kleinuhringir

  • 25 g ferskt ger
  • 27 g sykur
  • 5 g salt
  • 1 egg
  • 20 g smjör
  • 323 g hveiti
  • 145 g mjólk

Aðferð:

Vigtið allt saman í skál og vinnið vel saman þangað til hægt er að teygja deigið.

Fletjið deigið út aðeins þykkara en pitsadeig og stingið út í kleinuhringi.

Hitið djúpsteikingarolíu í 180°C og steikið kleinuhringina í um það bil eina og hálfa mínútu á hvorri hlið eða þangað til þeir eru orðnir gullinbrúnir.

Karamelluglassúr

  • 375 g púðursykur
  • 188 g mjólk
  • 94 g smjör
  • 1 g salt
  • 4 g vanilla

Aðferð:

  1. Sjóðið saman púðursykur og mjólk upp í 115°C hita.
  2. Hellið út í pott með spaða, hægt og rólega, mjög varlega.
  3. Síðan megið þið bæta rest út í og vinna þangað til glassúrinn verður mjúkur og bætið síðan vatni við eftir þörfum.

Súkkulaðiglassúr

  • 100 g flórsykur
  • 20 g vatn
  • 6 g kakó
  1. Blandið öllu hráefninu saman og vinnið vel þangað til úr verður brúnn og fallegur glassúr.

Samsetning

  1. Þegar kleinuhringirnir hafa kólnað og glassúrinn er tilbúinn er hverjum og einum kleinuhring dýft ofan í annan hvorn glassúrinn.
  2. Gott að vera með glassúrinn í skál sem passar að dýfa kleinuhringjunum í.
  3. Hafa efri hlutann þakinn glassúr og neðri hlutann án glassúrs líkt og sést á myndunum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert