Heba Guðrún Nielsen gerði sér lítið fyrir og gerði fallegasta Eiffelturn sem sést hefur hér á landi úr piparkökum en Eiffelturninn er eitt frægasta mannvirkið í París í Frakklandi. Þvílík dýrð að sjá meistaraverkið hennar og skartar turninn sínu fegursta heima hjá henni í jólabúningi. Heba Guðrún býr yfir miklu listrænum hæfileikum það sýnir verkið hennar, Eiffelturninn gerðan úr piparkökum en hún hannaði hann frá grunni, setti saman og skreytti.
Heba Guðrún er 23 ára gömul, býr á Seltjarnarnesi og vinnur í grunnskóla í dag. Aðspurð segist hún ekki hafa lært neitt tengt list né bakstri. „Ég hef ekki lært neitt tengt list en væri til í að gera það í framtíðinni. Ég er líka mjög mikið jólabarn og elska að gera allt tengt jólunum. Að búa til listaverk úr piparkökum og skreyta fyrir jólin er ástríða mín,“ segir Heba Guðrún.
Heba Guðrún sýnir lesendum hér hvernig Eiffelturninn varð til, skref fyrir skref.
„Ég byrja á að teikna það sem ég ætla að gera á blað svo ákveð ég hversu stórt ég vil hafa það og sker það þá út í pappa,“ segir Heba Guðrún.
„Þegar ég er búin að skera allar hliðar út í pappa þá set ég það saman alveg eins og ég vill hafa piparkökuhúsið og þá sé ég hvort það passi saman og hvort allar hliðar séu jafnar. Svo tek ég þykkan pappír og sker út hverja hlið fyrir sig og bý þannig til mót sem ég nota til þess að skera piparköku húsið út. Mér finnst best að nota piparkökudeigið frá Ikea, það er mjög einfalt að vinna með það.“
„Síðan baka ég hverja hlið fyrir sig. Þetta tók mig frekar langan tíma því það var svo mikið sem þurfti að skera út. Þegar allar hliðarnar eru tilbúnar byrja ég að skreyta húsin með einföldu kremi sem inniheldur flórsykur, eggjahvítur og „cream of tartar.“
„Þegar allar hliðarnar eru skreyttar eins og ég vill hafa þær þá byrja ég að setja húsið saman. Mér persónulega finnst best að nota límbyssu til þess að líma saman turninn sérstaklega ef þetta er stórt hús eins og þetta og til þess að það haldist í allan þennan tíma. Hjá okkur er þetta bara skraut ekki eitthvað sem er ætlað til þess að borða þó það mætti nú alveg. Þegar turninn er kominn upp þá nota ég sama krem til þess að setja á alla kanta og festa upp það sem þarf, eins og á þessu húsi voru það handriðin.“
„Síðan skreytti ég turninn með slaufum til þess að hafa hann aðeins jólalegri,“ segir Heba Guðrún að lokum og er þegar byrjuð að undirbúa næsta piparkökuhús sem mun til eina til tvær vikur að gera.