Lilja býður upp á fjölskylduvænan vikumatseðil

Lilja Ólafsdóttir á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni sem …
Lilja Ólafsdóttir á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni sem er bæði mjög girnilegur og fjölskylduvænn. mbl.is/Árni Sæberg

Lilja Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Straums, er Skagfirðingur í húð og hár og mikil ­fjöl­skyldu­kona. Þegar kemur að því að laga mat taka allir fjölskyldumeðlimir þátt enda nóg að gera á stóru heimili. Lilja og Jón Heiðar maðurinn hennar eiga þrjár stelpur á aldrinum 8-15 ára sem ásamt hundinum Míó hafa komið sér vel fyrir í Kópavoginum. Hún á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni.

„Ég er svo vel gift, en Jón Heiðar maðurinn minn er mjög duglegur í eldhúsinu ásamt því að miðjustelpan mín er mikill matgæðingur og áhugasöm um eldamennsku. Þegar ég elda vel ég yfirleitt einfaldar uppskriftir í hollari kantinum og svo baka ég líka ágætis kökur. Bakstur á betur við mig enda er bakstur meiri vísindi en eldamennska list.“

Fjölskyldan samstíga um að láta matmálstímana ganga upp

Lilja tók við sem framkvæmdastjóri Straums fyrir um ári, en félagið er nýtt íslenskt fyrirtæki í greiðslumiðlun. „Það hefur verið nóg að gera undanfarið að koma nýju fyrirtæki á koppinn, en félagið er komið með um fjórðungs markaðshlutdeild á íslenskum markaði. Ég er því einstaklega glöð með hversu samstíga allir í fjölskyldunni eru að láta matmálstímann ganga upp þótt nóg sé að gera í leik og starfi. Mestu skiptir að við hittumst og borðum saman og því valdi ég einfaldar og fjölskylduvænar uppskriftir fyrir vikumatseðil minn.“

Hér deilir Lilja vikumatseðlinum sínum sem lítur girnilega út og er mjög fjölskylduvænn.

Mánudagur – Kjúklingalasagna sem allir elska

„Það elska allir kjúkling á heimilinu og alltaf gaman að prófa nýjar kjúklingauppskriftir. Við eigum það líka til að elda ríflegt magn í kvöldmatinn og getum þá hitað upp afganga í hádeginu eða þegar minni tími er til að elda.“

Kjúklingalasagna sem allir elska og ekki að ástæðulausu.
Kjúklingalasagna sem allir elska og ekki að ástæðulausu. Ljósmynd/Valla Gröndal

Þriðjudagur – Ofnbakaður fiskur í rjómaostasósu

„Við viljum elda fisk að minnsta kosti tvisvar í viku yfir veturinn og er þessi uppskrift einföld og þægileg til að elda eftir annasaman dag.“

Girnilega ofnbakaður fiskréttur í rjómasósu.
Girnilega ofnbakaður fiskréttur í rjómasósu. Ljósmynd/Thelma Þorbergsdóttir

Miðvikudagur – Núðluréttur með nautakjöti og grænmeti

„Stelpurnar okkar eru mjög hrifnar af núðluréttum og það er mjög auðvelt að bæta við mikið af grænmeti í þennan rétt, hann hentar því vel fyrir alla fjölskylduna.“

Þessi núðluréttur með nautakjöti lítur vel út og er auðvelt …
Þessi núðluréttur með nautakjöti lítur vel út og er auðvelt að útbúa. Ljósmynd/Valla Gröndal

Fimmtudagur – Saðsamur og góður ofnbakaður lax

„Við elskum einfalda rétti, sérstaklega ef það er hægt að setja allt í eitt mót og inn í ofn, en það sparar líka uppvaskið.“ 

Saðsamur og góður lax borinn fram með grænmeti.
Saðsamur og góður lax borinn fram með grænmeti. Unsplash/Jeff Ahmadi

Föstudagur – Besta pitsa sem Berglind hefur smakkað

„Það er fastur liður á okkar heimili að hafa pitsakvöld á föstudögum. Það hentar okkur fullorðnu líka vel þar sem laugardagsmorgnarnir okkar hefjast alltaf á hjólaæfingu, en þá er gott að vera með fullan tank af kolvetnum.“

Uppáhaldspitsan hennar Berglindar Hreiðars lítur vel út.
Uppáhaldspitsan hennar Berglindar Hreiðars lítur vel út. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Laugardagur – Ljúffeng kalkúnabringa með stökkri villisveppaskel og villisveppasósu

„Þar sem fjölskyldan öll er frekar upptekin í leik og starfi alla virka daga erum við oft duglegri við að elda flóknari rétti um helgar þegar nógur tími er til að vera í eldhúsinu. Kalkúnn er í algjöru uppáhaldi hjá öllum fjölskyldumeðlimum og erum við dugleg að elda kalkún fyrir fjölskyldurnar okkar og vini þegar við erum með matarboð heima.“

Ómótstæðilega girnileg kalkúnabringa með villisveppasósu og þema alla leið.
Ómótstæðilega girnileg kalkúnabringa með villisveppasósu og þema alla leið. Ljósmynd/Gerum daginn girnilegan


Sunnudagur – Ítalskar hakkbollur með spagettí og parmesanosti

„Ítalskur matur er í sérstöku uppáhaldi hjá öllum í fjölskyldunni og höfum við farið í sumarfrí til Ítalíu þar sem allir fundu sína uppáhaldsrétti á ýmsum veitingastöðum sem við höfum svo reynt að endurgera saman heima.“

Ekta ítalskar kjöthakksbollur eins og þær gerast bestar bornar fram …
Ekta ítalskar kjöthakksbollur eins og þær gerast bestar bornar fram með spagettí og parmesanosti. Ljósmynd/Sjöfn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert