Forréttindi að reka veitingastað í óspilltri náttúru

Hinrik Carl Ellertsson matreiðslumeistari á Storm Bistro er búinn að …
Hinrik Carl Ellertsson matreiðslumeistari á Storm Bistro er búinn að setja saman glæsilegan jólaseðil sem hægt er að njóta í óspilltri náttúrunni í Hvammsvík. Ljósmynd/Storm Bistro

Hinrik Carl yfirmatreiðslumeistari á Storm Bistro í Hvammsvík hefur slegið í gegn með ljúffenga og frumlega matseðla sem hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. Það er eftirsóknarvert að heimsækja sjóböðin í Hvammsvík og fara síðan að njóta kræsinga í anda umhverfisins og því sem náttúran í kring hefur upp á að bjóða. Þessa dagana eru það jólaseðlarnir og jólaplattarnir sem leika aðalhlutverkið og fara með bragðlaukana í nýjan heim.

Undirrituð tók spjallið við Hinrik og fékk að skyggnast inn í heim matreiðslumeistarans og töfrana sem eiga sér stað á Storm Bistro. Hinrik sem er 39 ára gamall, faðir, maki og kennari nýtur sín í starfi og að fá að blómstra í því sem hann er að gera. Ég er búinn að starfa sem matreiðslumaður síðan 2001 og finnst þetta alltaf jafn gaman. Ég hef starfað á mörgum skemmtilegum og góðum veitingastöðum, bæði hérlendis og erlendis, þar á meðal á Dill en þar starfaði ég sem rekstrarstjóri í fimm ár. Einnig vinn ég við kennslu í Hótel- og matvælakólanum. Ég hef verið yfirmatreiðslumeistari Storm Bistro í Hvammsvík síðan staðurinn opnaði sumarið 2022,“ segir Hinrik og bætir við að hann hafi fundið sína hillu mjög ungur. 

Heimspekin sem amma notaði að nýta allt hráefnið sem þú ert með

Mín ástríða fyrir matargerð byrjaði þegar ég var tveggja ára og stóð upp á stól heima hjá ömmu Deddu á Álfossveginum að snúa við lummum. Síðan þá hef ég alltaf reynt að halda mér við þá heimspeki sem hún notaði, að nýta allt hráefnið sem þú ert með. Ekki bara taka besta hlutinn og henda rest, heldur að finna leiðir til að fullnýta vöruna. Einnig að reyna að halda sig við árstíðabundið hráefni, held að Íslendingar séu orðnir mjög blindir á það hvað er í árstíð hverju sinni, og kippa sér ekki upp við að flytja vörur langar vegalengdir til að þær séu alltaf til. Þetta er eitthvað sem mér langar að breyta í matarvenjum Íslendinga, til að fá fólk til að hugsa um hvaðan varan er að koma og hvort hún sé upp á sitt besta hverju sinni,“ segir Hinrik dreyminn á svip.

Hvað er það sem heillar þig við starfið?

Það er svo margt, ég hef verið það heppinn að fá að ferðast um allan heim til að tala um og kynna íslenskan mat. Að fá að upplifa heiminn í gegnum mat er frábær leið til að kynnast menningu í hverju landi og ná til fólks, því allir hafa skoðun á mat. Einnig hef ég mikið unnið við nýsköpun, bæði í því að þróa vörur úr vannýttum hráefnum og fullvinna vörur úr skrítnu hráefni eins og pöddum, þara og rófum, svo fátt eitt sé nefnt.

Tók þátt í fjölmiðlafárinu heima þegar fyrsta Michelin-stjarnan kom

Fyrsti staðurinn á Íslandi sem hlaut Michelin-stjörnu var Dill og það var á þeim tíma þegar Hinrik vann þar. Michelin-stjarnan vakti mikla athygli hérlendis og loksins var komin verðskulduð viðurkenning til matreiðslumanna hér landi fyrir verkum þeirra, íslenska hráefninu og sköpuninni. Því í raun er matargerðin list.

Hvernig tilfinning var að taka á móti Michelin-stjörnu?

Ég var rekstrarstjóri á Dill þegar fyrsta stjarnan á Íslandi kom, en á sama tíma var einmitt bjórhátíð hjá okkur sem við vorum með á Kex, þannig ég var heima, og tók ekki á móti henni, heldur var það auðvitað yfirkokkurinn og meistari Ragnar Eiríksson sem fór út að veita henni viðtöku. En ég tók höggið hérna heima af fjölmiðlafárinu og allri geðveikinni sem því fylgdi. Það var vissulega gaman og við vorum mjög stolt af þessu öllu. En á sama tíma var þetta mjög óraunverulegt, því manni var aðeins búið að dreyma um þetta og bjóst ekki við að þetta myndi koma til Íslands í bráð.

Matseðillinn breytist í takt við veðrið og straumana

Eins og fram hefur komið er Hinrik yfirmatreiðslumeistari á veitingastaðnum Storm Bistro sem staðsettur er í náttúruparadísinni Hvammsvík í Hvalfirði. Hvalfjörðurinn býr yfir miklum töfrum og útsýnið við Hvammsvík er ægifagurt. Á þessum árstíma skartar náttúran sínu fegursta og getur líka verið ögrandi og villt í senn. 

Segðu okkur aðeins frá veitingastaðnum Storm Bistro, áherslunni í matargerðinni og hvað þið eruð að bjóða upp á þessa dagana. 

Á Storm Bistro er alltaf hugmyndin að reyna að vinna með það sem er næst okkur í umhverfinu og endurspeglar náttúruna í kringum okkur. Matseðillinn er einfaldur sem breytist í takt við veðrið og straumana í kringum okkur. Matseðillinn er byggður upp í kringum súpuna okkar sem er gerð úr hráefni beint úr sjónum, með smá tvisti. Hún hefur vakið athygli út fyrir landsteinana sem ég er afar stoltur af. En svo er það smörrebrauðin okkar sem breytast ört, og núna erum við í jólafíling með áherslu á jólahátíðina. Einnig erum við með jólaplatta sem er kjörinn til að deila eftir góða ferð í böðin, og snaps með. Svo erum við með gott kaffi og með því, þannig þetta á ekki að þurfa að klikka.“ Desember er heillandi mánuður og árstíð þar sem matur spilar stórt hlutverk í öllu því sem gert er, eins og máltækið segir: „Matur er mannsins megin“. Þessi tími er einn sá rómantískasti í Hvammsvíkinni á Storm Bistro. Matargerðin speglar sig í náttúrunni og árstíðinni.

Hvalfjörðurinn býr yfir miklum töfrum og útsýnið við Hvammsvík er …
Hvalfjörðurinn býr yfir miklum töfrum og útsýnið við Hvammsvík er ægifagurt. Á þessum árstími skartar náttúruna sínu fegursta og getur líka verið ögrandi og villt í senn. Ljósmynd/Storm Bistro

Jólaplattarnir mjög vinsælir og eru í anda umhverfisins

Á Storm Bistro er boðið upp á sérstakan matseðil í aðventunni og um hátíðirnar. „Jólaplattinn var mjög vinsæll í fyrra þannig við ákváðum að keyra á hann aftur með smávegis breytingum. Smá brot af því besta sem jólin hafa upp á að bjóða í skemmtilegu formi til að deila með þínu besta fólki. Svo erum við einnig að bjóða upp á jólahlaðborð fyrir fyrirtæki og einstaklinga í Hlöðunni hjá okkur, þar sem við getum tekið á móti 20 – 40 manns fyrir eða eftir böðin. En það þarf að bóka jólahlaðborðin með fyrirvara. Hlaðan var nýlega gerð upp og þar eru verk eftir fremstu listamenn landsins eins og Ólaf Elíasson, Birgi Andrésar, Hrafnhildi Árnadóttur, Hörð Ágústsson, Gjörningar klúbbinn o.fl. Það er mjög skemmtileg upplifun að borða í hlöðunni og munum við halda áfram að bjóða hópum að snæða þar,“ segir Hinrik og bætir við: „Það er mikið af hópum sem koma, en samt líður þér alltaf eins og þú sért einn í heiminum þegar þú kemur í Hvammsvík. Við getum tekið á móti fólki í Hlöðuna ef það vill vera út af fyrir sig og gera sér góðan dag, bæði fyrirtæki í stefnumótun eða vinahópur í átta rétta matarveislu um kvöldið eftir að hafa verið í böðunum í góða stund.“ 

Aðspurður segist Hinrki ávallt sækja hráefni úr náttúrunni í kring. „Það hefur alltaf verið stór partur af mínu starfi að nýta nærumhverfið eins og ég get. Tína ber, ná í sveppi, sækja þara eða fá kjöt frá Dodda og Lísu frá Hálsi er eitthvað sem ég nýti mikið í mína eldamennsku og kenni einnig í mínum fræðum í Hótel og matvælaskólanum. 

Dýrðlegir jólaplattar.
Dýrðlegir jólaplattar. Ljósmynd/Storm Bistro

Að reka veitingastað í óspilltri náttúru eru forréttindi

Hvernig er að reka veitingastað í Hvammsvík?

Það getur verið krefjandi, þó svo að við séum ekki langt frá höfuðborginni, þar sem veður í Hvalfirði er margbreytilegt. En það er samt svo skemmtilegt að vinna að þessari uppbyggingu þar sem skýr sýn er á þjónustu og upplifun og það er einstakt að hafa alla þessa náttúru í kringum okkur.

Hver er leyndardómurinn bak við staðinn?

Að reka veitingastað í óspilltri náttúrunni eru forréttindi. En eitt lykilatriðið er að hafa gott teymi af starfsfólki þar sem allir vinna að sömu markmiðum, það er ómetanlegt. Við reynum að halda okkur við einfaldleikann og nýta hráefni úr nærumhverfinu.

Hráefnið úr nærumhverfinu fær að njóta sín.
Hráefnið úr nærumhverfinu fær að njóta sín. Ljósmynd/Storm Bistro

Hátíðlegt kalkúna smörrebröd að hætti Hinriks

Ertu til í að svipta hulunni af einum af þínum uppáhaldsréttum sem tengist árstíðinni, aðventunni og jólunum?

Flestir landsmenn elda einhvern tíman yfir hátíðirnar kalkún og eiga oftast afganga. Það er frábært að nýta þá og gera dýrindis smörrebröd með kalkún. Hérna er ein góð uppskrift af hátíðlegu kalkúna smörrebröd.

Hátíðarkalkúninn er fullkominn í sælkerasamloku.
Hátíðarkalkúninn er fullkominn í sælkerasamloku. Ljósmynd/Storm Bistro

Hátíðlegt kalkúna smörrebröd

  • 500 g kalkúnabringa - elduð
  • 4 sneiðar af þínu uppáhalds brauði - ég nota fínt súrdeigsbrauð
  • 12 sneiðar af beikoni þykkum sneiðum
  • 100 g sellerírót
  • 100 g gulrætur
  • 100 g majónes
  • 100 g sýrður rjómi
  • 5 g dijon
  • 10 ml sítrónusafi
  • 3 g karrí
  • 3 g salt
  • 2 g pipar

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skera grænmeti í jafna teninga og steik í ofni á 160°C hita ásamt karrí og olíu, þar til það verður mjúkt. Tekur um það bil 15 mínútur.
  2. Steikið beikon í pönnu þar til verður stökkt.
  3. Blandið saman majónesi, sýrðum rjóma, sítrónusafa og dijon saman og hrærið.
  4. Bætið síðan grænmetinu út í og hrærið vel og smakkið til með salti og pipar.
  5. Geymið lokað í kæli.
  6. Raðið kalkún á ykkar uppáhaldsbrauðsneið, bætið því næst grænmetissalatinu við og að lokum beikoni.
  7. Skreytið með fallegum jurtum og smá af majónes á milli laga.
  8. Njótið við kertaljós í góðum félagsskap. 
Að njóta í kyrrðinni og fá að vera eins og …
Að njóta í kyrrðinni og fá að vera eins og þið séuð ein í heiminum eru forréttindi. Ljósmynd/Farm Bistro
Hlaðan er nýuppgerð og veggina prýða listaverk eftir íslenska listamenn.
Hlaðan er nýuppgerð og veggina prýða listaverk eftir íslenska listamenn. Ljósmynd/Storm Bistro
Purrusteikin með öllu tilheyrandi.
Purrusteikin með öllu tilheyrandi. Ljósmynd/Storm Bistro
Jólarómantíkin í loftinu.
Jólarómantíkin í loftinu. Ljósmynd/Storm Bistro
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka