Aðventan er tíminn fyrir smákökur, þá má leyfa sér að baka og njóta sem allra mest. Hér er uppskrift að einstaklega góðum súkkulaðibita- og pekanhnetuusmákökum, þær eru guðdómlega góðar. Stökkar að utan, fullar af súkkulaði og hnetum, dúnmjúkar í miðjunni eins og þær eiga að vera. Heiðurinn af uppskriftinni á Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir sem heldur úti uppskriftasíðunni Döðlur og smjör.
Hvern langar ekki í smakk?
Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir
Súkkulaði- og pekanhnetusmákökur
20-25 stk.
- 20 g sykur
- 70 g pekanhnetur
- 240 g smjör, við stofuhita
- 100 g sykur
- 100 púðursykur
- 1 egg
- 1 tsk. vanilludropar
- 240 g hveiti
- 1 pk súkkulaðibúðingur frá Royal
- 1 tsk. matarsódi
- 100 g dökkt súkkulaði
- 100 g rjómasúkkulaði
Aðferð:
- Byrjið á því að setja 20 g af sykri ásamt pekanhnetunum á pönnu stilltri á miðlungshita.
- Leyfið sykrinum að bráðna og húða hneturnar, tekur um 5 mínútur.
- Leyfið þeim að kólna þangað til þær eru saxaðar og settar í deigið.
- Setjið í hrærivél smjör, sykur og púðursykur og þeytið í 2-3 mínútur.
- Bætið þá egginu saman við og þeytið vel saman. Þá er vanilludropum, hveiti, súkkulaðibúðingi og matarsóda bætt saman við og öllu hrært saman, hér getur verið gott að setja viskastykki yfir vélina svo þurrefnin fari ekki út um allt fyrst þegar allt blandast saman. Saxið súkkulaðið og pekanhneturnar niður og hafið bitana frekar í stærri kantinum.
- Blandið saman við deigið og þeytið saman.
- Gott getur verið að vigta kökurnar ef þið hafið þær í stærri kantinum svo þær séu sem jafnastar í bakstri.
- Á myndinni hér eru þær 45-50 g hver kaka.
- En ef þið hafið þær minni er gott að miða við matskeið.
- Mótið allar kúlurnar og setjið í kæli í 10 mínútur.
- Stillið ofninn á 180°C og raðið kökunum á bökunarpappírsklædda ofnplötu og bakið í 12-15 mínútur, styttra ef þær eru litlar.
- Varist að baka þær of lengi svo þær haldi mýktinni inn við miðju.
- Geymast vel við stofuhita.