Víðidalsá er 67 kílómetra löng bergvatnsá. Ein tignarlegasta á landsins. Liðast hún eftir samnefndum dal og fellur í Hópið. Gaman er að virða þetta náttúruvætti fyrir sér þegar ekið er norður. Enn betra er ef hægt er að æja um stund og virða fyrir sér landslagið og ána.
Og það er hægt í Víðigerði. Það er staður sem ég hef rennt fram hjá í fullkomnu hugsunarleysi ótal sinnum. Eflaust haldið að þarna væri í mesta lagi hægt að dæla bensíni á bílinn og kannski grípa kaffibolla og súkkulaðistykki í leiðinni.
En svo fórum við góða reisu fjölskyldan í haust og tókum þátt í réttum að Undirfelli í Vatnsdal. Þegar komið var að heimför sagði Birgir Þór Haraldsson, bóndi með meiru á Kornsá, næsta bæ við Undirfell, að við ættum að koma við í Víðigerði og smakka þar til dæmis fádæma góðar brauðstangir. Ég var dálítið vantrúaður á að matur í vegasjoppu í Húnavatnssýslum gæti risið undir því lofsorði sem bóndinn knái lauk á viðurgjörninginn. En ég hef haft ástæðu til að taka ráðum hans hingað til, og lét því vaða.
Og viti menn. Þarna fékk ég bestu brauðstangir sem ég hef um ævina smakkað. Hnausþykkar, stökkar að utan og mjúkar að innan (eins og ég), bragðmiklar og ljúffengar. Þarna var mér komið á óvart, og það skemmtilega.
Fyrr í þessari viku átti ég svo aftur leið um svæðið með góðum kollegum í tilefni af hringferð Morgunblaðsins. Þá ferð settum við í gang í tengslum við 110 ára útgáfuafmæli Morgunblaðsins og var stefnan að þessu sinni sett á Tröllaskaga og Eyjafjörð. Við gerðum ráð fyrir að vera í Víðidalnum rétt fyrir hádegi og fannst mér upplagt að kynna fyrir Moggafólki brauðstangirnar sem ég hafði blessunarlega komist í tengsl við fyrr í haust.
Við renndum í hlað rétt um hálftólf og það var lítil traffík enda mánudagur á jólaföstu. Við hlömmuðum okkur niður í notalegu umhverfi staðarins sem minnir um margt á þægilega vegasjoppu í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Þá blöstu við okkur upplýsingar sem áttu eftir að breyta ferðalaginu.
Teningunum var kastað enda upplýst að á boðstólum væri hreindýraborgari með jólaívafi. Og í hverju vorum við lent? Þarna á seðlinum var 140 gramma borgari úr ranni Rúdolfs, kryddaður með regnbogapipar og grófu salti. Á borgarann skella þau svo heimagerðu majónesi, klístruðu jólarauðkáli, bragðmiklum bláberjagljáa með bláberjum, gullosti og fersku salati.
Ég er persónulega ekki mjög hrifinn af sætkartöflu-frönskum, ekki frekar en ananas á pitsur, en það mátti láta á það reyna. Og þær smellpössuðu með því sem vertinn kýs að kalla jólasósu með kanil- og negulkeim. Það verður að viðurkennast að þetta hljómar ekki sérdeilis vel – en þetta virkar. Þetta er allt í senn, jólalegt og bragðgott. Ekki síst þegar þetta kemur saman með rauðkálinu klístraða.
Þetta er ekki tillaga. Þetta er skipun. Ef fólk á leið norður eða suður og hún liggur um Víðigerði þá ber að tímastilla ferðalagið þannig að áningarstaðurinn falli innan marka hádegis- eða kvöldverðartímans. Og hreindýraborgarinn á að fara á diskinn.
Þegar við vorum að leggja í hann að nýju náði ég tali af Guðlaugu Jónsdóttur sem á og rekur Víðigerði ásamt syni sínum. Hún stendur þar vaktina löngum stundum eins og þau hafa lengi gert, eða allt frá árinu 2012 þegar þau keyptu reksturinn. Hún segir að hreindýraborgarinn sé fastur liður í aðdraganda jóla, sé á seðli í fjórar vikur á ári og vinsældirnar aukist ár frá ári. Hún hefur allan starfsferilinn komið að matseld og viðurkennir að hugmyndin að hreindýraborgaranum og meðlæti hafi kviknað í vangaveltum sem byggjast á þessari reynslu. Eins segir hún son sinn, Kristin Bjarnason, lunkinn í matarhönnun af þessu tagi. Hann gerði lítið úr því þegar við bárum það undir hann. En gæðin leyna sér ekki og það virtist ekki koma niður á eldamennskunni að hann var nýkominn úr ströngu ferðalagi til Liverpool þar sem vinahópurinn sótti æsilega MMA-bardagasýningu.
Best af öllu – ekki síst í umræðunni um verðlagshækkanir á Íslandi – er að hreindýraborgaramáltíðin kostar ekki nema 3.490 kr. Það er gjöf, ekki gjald. Rétt verð væri 3.990.
Í þessum hluta Hringferðarinnar var m.a. rætt við hjónin sem eiga og reka Jólagarðinn í Eyjafirði. Viðtalið við þau má sjá og heyra hér: