Á Pósthúsinu Mathöll við Pósthússtræti, á veitingastaðnum Pizza Popolare hefur pitsabakarinn Ismail Mesnaoui vakið verðskuldaða athygli fyrir færni sína í pitsabakstri. Ismail er 23 ára gamall „pizzaiolo“ eða pitsagerðarmaður en það er faggrein sem er virt á Ítalíu. Pitsurnar á Pizza Popolare hafi slegið í gegn og reglulega er boðið upp á Pop-up þar sem úrvals álegg eru í boðið á pitsurnar og þessa dagana er truffluveisla á Popolare.
Ismail kemur frá Vicenza á Ítalíu og þaðan kemur innblástur hans í pitsagerðinni, hann hefur ávallt elskað mat og pitsu frá blautu barnsbeini. „Ég byrjaði að læra pitsaagerð 14 ára gamall undir handleiðslu heimsmeistarans Maestro Gabriele Fazzini og Maestro Angelo Mondello,“ segir Ismail og bætir við að hann búi ávallt að þeirri þekkingu sem hann lærði á þessum tíma af þessum listamönnum í pitsagerð.
Hvað fékk þig til að koma til Íslands til að vinna sem pitsagerðarmaður?
„Ég var í sambandi við eigendurnar á Popolare áður en pizzerían opnaði, við virtumst deila saman hugmyndinni um að gera raunverulega tilraun til að búa til bestu pitsuna í Skandinavíu og víðar. Ég var að vinna í Belgíu og Noregi og þegar rétti tíminn kom fyrir mig, flaug ég hingað til lands til að vinna á Pizza Popolare. Þá var ég búinn að kynna mér Ísland vel og hvað landið hefur upp á að bjóða og fannst spennandi kostur að koma hingað til lands og vera þátttakandi í því að búa til bestu pitsuna í Skandinavíu,“ segir Ismail og brosir.
Hvað er sérstakt við pitsaagerðina í Popolare?
„Gæðavörur og hráefni, fornar aðferðir og hefðir þegar kemur að deiginu og framleiðslu. Ofninn er einstakur og ég vildi alltaf vinna með þennan ofn. Steininn er úr Vesuvio eldfjallinu og það er alveg frábært, að baka pitsur í þessum ofni.“
Hverjir töfarnir bak við að búa til góða pitsu?
„Þekkingin og vísindin á bak við handverkið,“ segir Ismail. „Það er líka þessi ástríða sem þarf að vera til staðar í hvert skipti sem unnið er með deigið og hráefnið, hver pitsa er bökuð með ástríðu og þekkingu á hráefninu.“
Segðu okkur aðeins um trufflupartíið sem er núna í Popolare.
„Við erum með nýjar ferskar hvítar trufflur og við pöruðum þær við einfalda pitsu svo trufflurnar fái að skína.“
Eru trufflupitsurnar vinsælar?
„Klárast alltaf, færri fá enn vilja,“ segir Ismail og bætir við að ilmurinn af trufflupitsu sé afar lokkandi og erfitt sé fyrir sælkera að standast ekki freistinguna.