Katrín Halldóra Sigurðardóttir, söng- og leikkona á heiðurinn af vikumatseðlinum sem er fjölskyldumiðaður í aðdraganda jólanna sem fram undan eru.
Katrínu Halldóru þarf vart að kynna, hún söng sig inn í hjörtu þjóðarinnar þegar hún lék Ellý í Borgarleikhúsinu í samnefndri sýningu. Katrín hefur komið víða við á sviði tónlistar síðustu ár og nýverið gaf hún út plötuna Ást fyrir tvo sem ber nafn titillagsins. Söng- og leikkonan Katrín Halldóra nýtur tímans með fjölskyldunni í desember í ár, það er í nógu að snúast í fjölskyldulífinu. Hún leggur mikla áherslu á að halda rútínu fyrir krakkana í desember, kvöldmaturinn er borðaður snemma svo krakkarnir komist í háttinn um klukkan 19.00.
Margt er í bígerð hjá Katrínu Halldóru á nýju ári. „Ég verð annars með útgáfutónleikana mína af plötunni Ást fyrir tvo, í salnum í Kópavogi, 23. og 24. febrúar á komandi ári. Það verður alveg yndislegt kvöld þar sem rómantíkin mun svífa yfir vötnum en lögin af plötunni eru mörg hver svo rómantísk og falleg og einlæg. Þetta eru ábreiður af yndislegum lögum sem flestir þekkja, lög sem ég hef bæði mikið verið beðin um að syngja við athafnir og önnur sem ég held einfaldlega mikið upp á. Ég var að bæta við aukatónleikum þar sem fyrri tónleikarnir voru að seljast upp svo það er hægt að ná sér í miða, tilvalin jólagjöf eða skógjöf líka fyrir tónlistarunnandann. Ég hlakka mikið til að flytja öll þessi dásamlega fallegu lög með tríóinu mínu sem er skipað stórkostlegum tónlistarmönnum, þeim Ásgeiri, Hirti og Birgi Stein,“ segir Katrín Halldóra spennt.
Hægt að nálgast miða hér. Hér er einnig hægt að hlusta á plötuna sem kom út á Spotify.
Fleira spennandi er í gangi hjá Katrínu Halldóru á komandi ári, en í byrjun febrúar fer hún aftur til vinnu í Þjóðleikhúsinu að æfa gamanleikritið Eltum Veðrið. „Leikritið mun skarta mörgum helstu gamanleikurum landsins og er samið af hópnum, fjallar í megindráttum um það þjóðarsport Íslendinga, að elta veðrið,“ segir Katrín Halldóra og hlær.
Vert er að geta þess líka hér að Katrín Halldóra gaf líka út jólalag í byrjun desember, glænýtt lag og texti eftir Braga Valdimar og ber það heiti Þín allra bestu jól. Hægt að hlusta á það hér.
Hér gefur að líta vikumatseðilinn hennar Katrínu Halldóru í aðdraganda jóla.
Mánudagur – Húsó- grjónagrauturinn, krækiberjasaft og lifrarpylsa
„Krakkavænt og einfalt. Ég forðaðist í mörg ár að elda grjónagraut þar sem ég get verið óþolinmóð og hann brenndist endurtekningarlaust fastur við i botninum sem skilaði sér ekki í góði bragði. En það var nú bara einhver yndisleg kona í pottabúð í Smáralind sem kenndi mér að elda grjónagraut. Ég var í búðinni að leita að teflon húðuðum potti, ég á allskonar potta, þar á meðal Le Cruset pott. Hún sagði að ég þyrfti að gefa honum annan séns, hann heldur nefnilega svakalega vel heitu, galdurinn er að fá suðuna upp í nokkrar mínútur, slökkva svo undir pottinum með lokið á og lát standa hræra svo í honum eftir 20-30 mínútur, láta hann svo klára sig á lágum hita. Þetta hefur ekki klikkað síðan ég fékk þessi ráð og pottarnir alltaf fallegir eftir á. Flott að hafa grjónagraut í komandi viku til þess að hita upp fyrir jólin, má líka sleppa sósunni og hafa þetta bara einfalt.“
Þriðjudagur - Nærandi og hreinsandi gulrótasúpa
„Ég elska gulrætur og hvað þá góðar gulrótasúpur. Ég elska líka að eiga allskonar eldhúsgræjur, maðurinn minn grínast oft með það þegar ég er að elda að þá fari rafmagnið af Reykjavík á meðan, það er svo mikið af ýmiskonar tækjum í gangi. En eitt af því sem mér finnst alveg bráðnauðsynlegt að eiga er kraftmikinn blandari, og þá dugar ekkert annað en Vita Mixer, sem ég elska og hvað þá til að elda súpur með. Þegar allt er orðið vel soðið í pottinum færi ég yfir í blandarann í nokkrum skömmtum og útkoman verður alveg silkimjúk og falleg súpa.
Miðvikudagur - Fiskur í raspi á gamla mátann
„Ég á hann nú oftast til tilbúinn í frystinum og elda hann svo með kryddi, salti pipar og smjöri. En fiskur í raspi á gamla mátann klikkar einfaldlega ekki og hentar vel fyrir einn 3ja ára gorm. Ég sýð íslenskar kartöflur með.“
Fimmtudagur - Hakk og spaghettí
„Ég er alltaf að leita að einhverju einföldu sem tekur lítinn tíma og er líka barnvænt. Hakk og spaghettí stendur alltaf fyrir sínu. Ég fylgi oftast ekki uppskriftum alla leið, stundum sleppi ég grænmetinu eða hef eitthvað annað í staðinn bara eftir því hvað ég á til í ísskápnum hverju sinni. Hér er ein góð.“
Föstudagur - Hátíðarlambalæri
„Fátt betra en íslenskt lambakjöt, þægilegt að elda það inni i ofni í stóru fati. Muna bara að elda það ekki of lengi. Lenti Í því nýlega að vera með matarboð þar sem ég ofeldaði lambið svo svakalega að þegar það átti að fara skera kjötið þá hreinlega datt það af beinunum, ekki gott að borða þurrt lambakjöt.“
Laugardagur – Þorláksmessa
„Það er í nógu að snúast í dag og í kvöld, pakka inn síðustu pökkunum og undirbúa matinn á morgun svo það er einfalt pitsukvöld í kvöld. Kaupi oft frosið pitsadeig af börnum einhverra vina minna á facebook sem eru að safna fyrir einhverju sérstöku og auglýsa allskonar til sölu, alltaf sniðugt að eiga. Leyfa svo litlum aðstoðarkokki að fletja út deigið með mér, setja sósu og álegg á. Góð gæðastund saman í eldhúsinu eftir daginn. Þarna kemur pitsaofninn sterkur inn.
Sunnudagur - Aðfangadagskvöld
„Mér finnst ómissandi að vera með kalkún og allt tilheyrandi með honum á aðfangadagskvöld eins og mamma hefur ávallt haft. Þá eru jólin komin. Sætkartöflumús, rauðkál, fylling, waldorfsalat og sósa. Gleðileg jól.“