Nú líður senn að jólum og allir að verða tilbúnir með matseðilinn fyrir aðfangadagskvöld. Eva Laufey Kjaran markaðs- og upplifunarstjóri hjá Hagkaup hefur mikla ástríðu fyrir bakstri og matargerð eins og þekkt er enda hefur hún í fjölda ára gefið landsmönnum uppskriftir af sælkerakræsingum sem hafa slegið í gegn. Eva Laufey afhjúpar leyndardómsfulla jólamatseðil fjölskyldunnar og segir að á honum sé að finna hennar uppáhaldsrétti.
„Á aðfangadag erum við með Beef Wellington, það er algjörlega í uppáhaldi. Innbökuð nautalund með hráskinku og sveppafyllingu, gerist bara ekki betra. Ég er svo auðvitað með gott meðlæti en það skiptir líka miklu máli. Meðlætið er gott rjómalagað kartöflugratín, steiktur ferskur aspas og ljúffeng rauðvínssósa,“ segir Eva Laufey og er farin að hlakka mikið til jólanna með fjölskyldu sinni.