Þetta er bragðgott, einfalt og nokkuð hollt góðgæti sem passar sérlega vel sem matarjólagjöf. Kúlur af þessu tagi heita laddo en þær má rekja til Indlands og henta því mjög vel sem moli eftir indverska máltíð.
Fíkjukúlur með súkkulaði
- 150 g þurrkaðar fíkjur
- 1 ½ msk. hunang
- 40 g pistasíuhnetur, gróft saxaðar
- 20 g kasjúhnetur, gróft saxaðar
- 20 möndlur, gróft saxaðar
- ½ tsk. kardimommuduft
- 1 msk. brætt smjör
- 140 g súkkulaði
Aðferð:
- Setjið fíkjurnar í skál og hellið nýsoðnu vatni yfir þær og látið liggja í u.þ.b. 15 mínútur.
- Hellið þá vatninu af og setjið fíkjurnar ásamt hunanginu í litla matvinnsluvél eða notið töfrasprota og maukið vel.
- Setjið fíkjumaukið í skál og bætið því sem eftir er af hráefninu saman við og blandið vel.
- Rúllið litlar kúlur með höndunum á stærð við kirsuberjatómata. Gott að vera með vatn í glasi og bleyta hendurnar svo að auðveldar sé að rúlla kúlurnar. Setjið á disk.
- Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði, takið af vatnsbaðinu og kælið niður í u.þ.b. 34°C, veltið kúlunum upp úr súkkulaðinu og setjið á disk eða bakka, en gott er að setja svolitla olíu á diskinn eða bakkann svo auðveldara sé að ná kúlunum af.
- Saxið 4-6 pistasíuhnetur fínt og sáldrið strax yfir hverja kúlu, áður en súkkulaðið storknar. Látið harðna alveg.
- Geymist best í kæli, geymsluþol er u.þ.b. sex dagar í kæli.
mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir