Andasalat að hætti Birnu

Birna Hrönn Gunnlaugsdóttir útbjó þetta himneska andasalat úr afganginum af …
Birna Hrönn Gunnlaugsdóttir útbjó þetta himneska andasalat úr afganginum af andakjötinu sem boðið var upp á aðfangadagskvöld. Samsett mynd

Birna Hrönn Gunnlaugsdóttir er iðin við að búa til sælkerasalöt úr jólaafgöngunum og bauð meðal annars upp á þetta dýrindis andasalat sem hún útbjó úr afgöngum eftir hátíðarkvöldverðinn þar sem andabringur léku annað aðalhlutverkið.

Birna er viðskiptastjóri VAXA og býr í Garðabæ ásamt kærasta sínum og dóttur. Hún veit fátt betra en að njóta með sínu besta fólki. „Ég er nærist best í kringum mikið af fólki og þegar það er mikið að gera, því er þessi tími árs minn allra uppáhalds, umvafin fjölskyldu, vinum og þeim sem mér þykir vænt um. Það sem gerir þennan árstíma svona ótrúlega skemmtilegan er allt fólkið mitt og að nýtt ár er handan við hornið og nýju ári fylgja ný verkefni. Það eitthvað sem nærir mig extra mikið eins ný og krefjandi verkefni sem eru fram undan og á nýju ári, árinu 2024, verða mörg ný, skemmtileg og krefjandi verkefni,“ segir Birna.

Tvíréttað í fyrsta skiptið

Aðspurð segir Birna að jólamaturinn hafi verið himneskur og vel hafi verið borðað. „Öll jól hefur verið asparssúpa í forrétt að hætti afa Björns sem var allra besti og mesti snillingur í aspassúpugerð, í aðalrétt var hamborgarhryggur og að sjálfsögðu ís í eftirrétt. En þegar fjölskyldan stækkaði með til komu barna okkar systkina að þá hefur þetta aðeins breyst, þar sem við eyðum aðfangadagskvöldi saman en áramótum í sitthvoru lagi að þá varð breyting á jólamatnum og varð kalkúnn fyrir valinu, ásamt öllu því góða meðlæti sem honum fylgir, eins og sætkartöflumús og tala nú ekki um fyllinguna. Hún er algjört sælgæti, allra best. En þessi jól ákváðum við að breyta til og vorum með tvíréttað og það var því einnig önd á boðstólum. Ég ætla þó ekki að láta eins og ég hafi töfrað fram jólamatinn, það er alfarið verkefni manns systur minnar, kærasta og pabba. Þeir fengu að deila eldhúsinu þessi jólin, ég fékk alfarið að njóta. Síðan eyddi ég jóladag með fjölskyldunni í afslöppun og borða afganga,“ segir Birna og hlær. 

Ertu dugleg að nýta afgangana af jóla- og áramótamatnum?

„Ég ætla bara opinbera það hér og nú að ég er ferleg með afganga heilt yfir og þarf aldeilis að taka það til mín að breyta því. Það er hægt að gera svo ótrúlega mikið úr afgöngum, en einhvern veginn geri ég það alltof sjaldan. Það sem mér finnst þó skemmtilegast að nánast úr öllum mat sem gerður er, er hægt að töfra fram dásamlegt salat og tína ýmislegt úr skápunum til þess að búa til guðdómlegt salat, hvort sem salatið er borið fram sem meðlæti eða aðalréttur. Ég mæli með að fólk setji sér markmið að borða meira salat á nýja árinu, 2024, það er svo ótrúlega gott og tala nú ekki um hversu hollt það er.“

Birna ætlar að vera duglegri á nýju ári að nýta …
Birna ætlar að vera duglegri á nýju ári að nýta afgangana og tvista þeim saman við góð salöt. mbl.is/Árni Sæberg

Ertu til í ljóstrar upp uppskrift þar sem afgangar koma við sögu?

„Mín er ánægjan að gera það. Ég get einnig ljóstrað því upp hvað það er sem gerir gott salat, himneskt salat. Það er að hafa smá tvist í þessu, blanda saman klettasalati og salatblöndu eða asísku babyleaf og salatblöndu en það sem er uppáhaldið mitt núna er að blanda saman asísku babyleaf og klettasalati. Það er eitthvað sem allir verða prófa. Asíska babyleaf er svo stökkt, og klettasalatið bætir bragðið, þetta breytir leiknum. Athugið að með þessari uppskrift sem ég ætla að deila með ykkur er hægt að breyta, til dæmis að setja nautakjöt, kalkún í staðinn fyrir önd eða hvað eina er sem er afgangs eftir hátíðirnar í ísskápnum, Þetta uppskrift að andasalat sem er einföld og hægt að leika sér með hvað fer í salatið, hver og einn getur valið sitt uppáhalds í salatið en undirstaðan er þó mikilvægust að mér finnst, þessi himneska blanda af klettasalati og asísku babyleaf. Síðan er hægt að bæta við og breyta eins og maður vill,“ segir Birna.

Að lokum langar mig minna fólk á að njóta á þessum tíma, flýta sér hægt og þó eitthvað klikki þá er það bara allt í lagi. Ég þarf að minna mig á þetta oft á dag, sérstaklega á þessum tíma. Það má allt vera fullkomlega ófullkomið og sérstaklega þegar álagið er búið að vera mikið,“ segir Birna og býður spennt eftir nýju ári.

Girnilegt andasalat úr smiðju Birnu.
Girnilegt andasalat úr smiðju Birnu. Ljósmynd/Birna Hrönn

Andasalat

  • 2 stk. andabringur eða afgangur að andakjöti
  • 2 öskjur VAXA klettasalat
  • 2 öskjur VAXA asískt „babyleaf
  • ½ askja smátt skornir kirsuberjatómatar
  • 2 stk. mandarínur, takið sundur í lauf (magn eftir smekk)
  • 1 stk. rauðrófa, skorin í þunnar sneiðar
  • Skreytið með smáskornum pistasíuhnetum og salti frá Saltverk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að velja fallega grunna skál eða stóran kringlóttan disk til að setja og bera salatið á.
  2. Blandið saman klettasalatinu og asíska babyleaf salatinu og setjið í skálina.
  3. Dreifið síðan kirsuberjatómötunum yfir.
  4. Dreifið síðan mandarínu laufunum og rauðrófusneiðunum yfir.
  5. Loks andasneiðum eða bitum eftir smekk.
  6. Skreytið með pistasíuhnetum og saltið örlítið með saltflögum.
  7. Berið fram með dressingunni og njótið.

Dressing

  • 1 hvítlauksgeiri, rifinn,
  • 1 tsk. fersk rifinn engiferrót
  • 2 msk. sojasósa
  • 3 msk. hunang

Aðferð:

Setjið öll hráefnin í skál og blandið vel saman. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert