Litríkt salat með appelsínu- og engiferdressingu

Girnilega og litríka ferska salatið hennar Hildar Ómars.
Girnilega og litríka ferska salatið hennar Hildar Ómars. Ljósmynd/Hildur Ómars

Eftir vellystingar í mat og drykk er kærkomið að fá sér eitthvað létt og ferskt að snæða og litríkt salat slær örugglega í gegn hjá mörgum. Hér höfum við salat sem nær utan um nær alla litaflóruna sem kemur úr smiðju Hildar Ómars matarbloggara sem heldur úti uppskriftasíðunni Hildur Ómars. Hildur er ekki frá því að gleðihormónin aukist við það að borða þessa litadýrð.

Ferskt og litríkt salat með appelsínu- og engiferdressingu

  • ¼ hluti hvítkál (260 g)
  • ¼ hluti rauðkál (170 g)
  • 2 meðalstórar gulrætur
  • ½ rauðlaukur
  • ½ gúrka
  • 1 paprika, rauð
  • 1 þroskaður mangó
  • 100 g spínatkál
  • 100 g íssalat
  • 2-3 þroskuð akadó
  • 2 stilkar vorlaukur
  • Kóríander (eftir smekk)
  • Ólífuolía
  • Salt eftir smekk
  • *Salthnetur myndu passa vel við salatið

Dressing

  • 2 appelsínur
  • 1 móna (safinn)
  • 4 msk. tamarisósa
  • 4 msk. lífræn óristuð sesamfræ
  • 1 msk. ólífuolía
  • Vænn bútur engifer (eftir smekk)
  • *Hægt er að bæta við smá vatni ef þið viljið þynnri dressingu en einnig er hægt að setja bara safann úr appelsínunni í stað þess að setja hana heila. 

Aðferð:

  1. Rífið niður hvítkál, rauðkál og gulrætur.
  2. Setjið nokkra dropa af ólífuolíu og smá salt út í og nuddið því vel inn í grænmetið.
  3. Við þetta mýkist hvítkálið og rauðkálið og það verður bæði auðveldara að borða það og melta.
  4. Skolið og skerið það sem eftir er af grænmetinu niður og komið öllu fyrir í stórri skál. Ef þið sjáið fram á að það verði afgangur er ágætt að hafa avókadóið sér þar sem það geymist ekki jafn vel.
  5. Útbúið dressinguna með því að setja öll hráefni í blandara, en einnig er hægt að nota hátt glas og töfrasprota.
  6. Berið fram litríka salatið með appelsínu- og engiferdressingunni.
  7. Skreytið með extra kóríander og salthnetum ef vill.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert