Á mörgum heimilum er mexíkóskur matur vinsæll og sérstaklega þegar kemur að taco. Hann er hægt að bjóða upp á í allskonar útgáfum. Valgerður Gréta Gröndal, alla jafna kölluð Valla, sem heldur úti síðunni Valla Gröndal, er einstaklega hrifin af tacoréttum. Hún segir að mexíkóskur matur vinsæll á sínu heimili og hún sé dugleg að nota kjúklingabaunir í staðinn fyrir kjöt til að gera gott taco. Síðan er hún líka iðin við að útbúa sitt eigið tacokrydd. Hún gerði til að mynda þetta bragðmikla og góða kjúklingabauna-taco fyrir fjölskylduna sem sló í gegn. Það er upplagt að prófa þessa útgáfu næst þegar bjóða skal upp á taco og þetta er líka frábær réttur til að bjóða upp á þegar handboltaveislan hefst á skjánum í næstu viku.
Kjúklingabauna-taco með avókadó-límónukremi og chili
- 8 litlar tacokökur
- 1 dós kjúklingabaunir
- 1 msk. olía
- 3-4 tsk. heimagert tacokrydd (sjá uppskrift fyrir neðan)
- 3-4 msk. vatn
- Rifið ferskt rauðkál
- Rauð paprika skorin í litla bita
- Ferskt kóríander
- Gott snakk sem passar með, t.d. Eat real snakk með chili og lemon
Avókadó-límónukrem
- 1 dós Oatly hafrarjómaostur
- Safi úr hálfri límónu
- ½ þroskað avókadó
- ½ tsk. hvítlauksduft
- ¼ tsk. chiliduft
- Salt og pipar eftir smekk
- Nokkrar greinar ferskt kóríander
Heimagert tacokrydd
- 2 tsk. reykt paprikuduft
- 1 tsk. hvítlauksduft
- 1 tsk. laukduft
- 1 tsk. cumin
- 1 tsk. þurrkað kóríander
- 1 tsk. salt
- ½ tsk. svartur pipar
- ¼ tsk. cayenne pipar
- 1 tsk. maísena mjöl
Aðferð:
- Blandið öllu saman í box og geymið.
Aðferð kjúklingabauna-taco:
- Byrjið á því að blanda saman taco kryddinu, setjið til hliðar.
- Útbúið avókadó-límónukremið.
- Setjið öll innihaldsefnin í lítinn blandara og blandið vel.
- Hellið vatni af kjúklingabaununum og hreinsið hýðið af ef vill en þess þarf þó ekki endilega.
- Setjið olíu á pönnu og hitið. Hellið kjúklingabaununum út á pönnuna og setjið 3-4 tsk. af tacokryddinu saman við.
- Steikið í smástund og hellið vatni saman við.
- Saxið grænmetið og steikið tacokökurnar á grillpönnu.
Samsetning:
- Setjið avókadó-límónukrem fyrst á tacoköku, því næst kjúklingabaunir, svo grænmeti og endið á snakkinu.