Graflax með spínatrönd í anda sjöunda áratugarins

Marta María Arnarsdóttir skólameistari í Hússtjórnarskólanum deilir með lesendum Húsó-uppskrift …
Marta María Arnarsdóttir skólameistari í Hússtjórnarskólanum deilir með lesendum Húsó-uppskrift að graflaxi með spínatrönd. Samsett mynd

Einn af föstum liðum á mat­ar­vefn­um á nýliðnu ári hafa verið Húsó-uppskriftirnar á laug­ar­dags­morgn­um og svo verður áfram á nýju ári enda hafa uppskriftirnar slegið í gegn hjá lesendum. Uppskriftirnar koma úr hinu fræga eld­húsi í Hús­stjórn­ar­skól­an­um við Sól­valla­götu en þar eru mörg leynd­ar­mál geymd sem snúa að matargerð og bakstri.

Skóla­meist­ar­inn Marta María Arn­ars­dótt­ir deil­ir nú með les­end­um uppskrift að graflaxi sem borinn er fram með ristuðu brauði, smjöri, spínatrönd og sinnepssósu eða graflaxsósu að hætti Húsó sem má segja að sé í anda sjöunda áratugarins.

Graflax með spínatrönd borin fram með ristabrauði, sinnepssósu og/eða graflaxsósu …
Graflax með spínatrönd borin fram með ristabrauði, sinnepssósu og/eða graflaxsósu í anda sjöundaáratugarins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Graflax

  • 8 punda lax, flakaður, þveginn og þurrkaður
  • 6 msk. kryddblanda, sjá uppskrift fyrir neðan

Aðferð:

  1. Byrjið á því að flaka laxinn, þvoið hann og þurrkið.
  2. Leggið flökin á bakka, roðin niður.
  3. Stráið kryddinu yfir flökin, u.þ.b. 3 matskeiðar á hvort flak.
  4. Leggið annað flakið ofan á hitt og látið sárin snúa saman.
  5. Látið laxinn liggja í kæli í 14-15 klukkustundir og snúið honum einu sinni.

Kryddblanda á laxinn

  • 3 msk. gróft salt
  • ½ tsk. laukduft
  • ½ tsk. pipar
  • 1 tsk. fennel
  • (1 ½ msk sykur/púðursykur)
  • 2 búnt dill (ferskt) eða 3-4 msk. duft
  • 1 tsk. saltpétur (má sleppa)

Aðferð:

  1. Setjið allt hráefnið saman í skál og hrærið vel saman.

Sinnepssósa með graflaxi

  • 1 dós sýrður rjómi (eða 250 g majónes)
  • 1 msk. sætt sinnep
  • 1 msk. dijon sinnep
  • 1-2 msk. hunang
  • 1 msk. dill
  • 1 tsk. púðursykur
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Öllu hrært saman í skál og bragðbætt eftir smekk.

Spínatrönd

  • 2 pk. frosið spínat (eða 800 g nýtt)
  • 5 dl vatn
  • 5 dl rjómi
  • 2 pk. fiskihlaup (Toro)
  • 1 teningur kjúklingakraftur

Aðferð:

  1. Sjóðið spínatið í litlu vatni samkvæmt leiðbeiningum á pakka.
  2. Hellið á sigti, skolið úr köldu vatni og kreistið allt vatn úr því.
  3. Saxið spínatið.
  4. Hitið vatn og rjóma og leysið hlaupduftið upp í því ásamt teningnum, blandið spínatinu út í og smakkið til með hvítum pipar.
  5. Setjið í mót og kælið.
  6. Berið síðan dýrðina fram með ristuðu brauði, smjöri, spínatrönd og sinnepssósu eða graflaxsósu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert