Skonsubrauðterta með hangikjötssalati

Skonsubrauðterta með hangikjötssalati upp á gamla klassíska mátann.
Skonsubrauðterta með hangikjötssalati upp á gamla klassíska mátann. Ljósmynd/Albert Eiríksson

Það er fátt sem toppar góðar skonsubrauðtertur. Þær eru klassískt, ljúffengt kaffimeðlæti sem standa af sér allar tískubylgjur,“ eins og Albert Eiríksson kemst svo vel að orði á heimasíðu sinni Albert eldar. Albert er iðinn að deila uppskriftum að góðum réttum sem heilla hann upp úr skónum þegar hann mætir í veislur, kaffisamsæti eða matarboð hjá vinum og vandamönnum. Heiðurinn af skonsubrauðtertunni á Hjördís Ingvadóttir en hún kom með þessa gómsætu brauðtertu á hátíðarfund hjá Félagi austfirskra kvenna í Reykjavík þar sem Albert var gestur.

Skonsubrauðterta með hangikjötssalati

Skonsur

  • 2 bollar hveiti
  • ½ bolli sykur
  • 2½ tsk. lyftiduft
  • ½ tsk. natron
  • 2 egg
  • AB-mjólk eftir þörfum, en nota má súrmjólk í staðinn

Aðferð:

  1. Blandið öllum þurrefnum saman, þá eggjum og AB-mjólk/súrmjólk og hrærið.
  2. Bakið á pönnukökupönnu.

Hangikjötssalat

  • 300 g Hellman’s majónes
  • 400 g blandað grænmeti frá Ora
  • 4 egg
  • 170 g birkireykt hangiálegg 

Aðferð:

  1. Hellið grænmetinu í sigti og látið standa smá stund.
  2. Skerið harðsoðin egg og hangikjötið í litla bita.
  3. Blandið öllu saman með majónesi þegar eggin eru orðin köld.

Skraut á skonsubrauðtertuna

  • Gúrka, tómatar, rauðrófur, niðurskorin paprika og steinselja eða það sem ykkur langar að nota til að skreyta dýrðina með.

Samsetning:

  1. Byrjið á því að setja eina skonsu á kringlóttan disk og setjið hangikjötssalat ofan á og lokið með næstu skonsu. Endurtakið leikinn þar til fjórar til fimm hæðir eru komnar.
  2. Skreytið efstu skonsuna, efsta lagið, eftir að þið hafið smurt hana með hangikjötssalati að vild.
  3. Upplagt er að smyrja hliðarnar með majónesi og skreytið síðan með steinselju.
  4. Berið fram og njótið.   
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka