Hér er á ferðinni mjög auðveldur og bragðgóður fiskréttur, er kemur úr smiðju Kristjönu Steingrímsdóttur heilsumarkþjálfa, sem þú munt vilja gera aftur og aftur. Þetta eru þorskhnakkar bakaðir með graskers- og basilpestói sem bragðast guðdómlega vel saman. Kristjana er betur þekkt undir nafninu Jana og hægt er að fylgjast með henni og því sem hún töfrar fram reglulega á Instagram-síðunni hennar hér.
Þorskhnakkar með graskers- og basilpestó að hætti Jönu
Þorskhnakkar með graskers- og basilpestó
- 700 g ferskir þorskhnakkar
- Graskers- og basilpestó (sjá uppskrift hér fyrir neðan)
Aðferð:
- Hitið ofninn í 180°C hita.
- Setjið þorskhnakkana í eldfast mót.
- Dreifið hluta af graskers- og basilpestóinu yfir þorskinn.
- Saltið og piprið og kreistið smá af ferskri sítrónu yfir.
- Bakið inn í ofni í um það bil 18 mínútur.
- Berið fram með fersku salati, bökuðu grænmeti og jafnvel kartöflum eða hrísgrjónum og svo afganginum af pestóinu til að toppa allt saman.
Graskers- og basilpestó
- ½ bolli graskersfræ
- 20 g ferskt basil (1 box)
- 10 g fersk steinselja (½ box)
- 1 hvítlauksrif, afhýtt
- ½ sítróna, safinn
- Smá salt og pipar
- 250 ml eða um 1 bolli, ólífuolía
- 4 msk. rifinn parmesanostur (má sleppa)
Aðferð:
- Blandið öllu nema olíunni og parmesanostinum saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Hellið svo smám saman olíunni út í blönduna og blandið rólega saman.
- Hrærið svo að lokum parmesanostinum út í með skeið, ef þið ætlið að nota hann, sem gerir alveg extra ljúft pestó.