Styrkjandi og bólguminnkandi linsubaunasúpa

Kristjana Dröfn Haraldsdóttir, alla jafna kölluð Jana, mælir með linsubaunasúpu …
Kristjana Dröfn Haraldsdóttir, alla jafna kölluð Jana, mælir með linsubaunasúpu fyrir þarmaflóruna. Samsett mynd

Í upphafi árs er svo ótrúlega gott að styrkja þarmaflóruna með bólgu minnkandi linsubaunasúpu. Hér er á ferðinni uppskrift að linsusúpu sem er einstaklega góð fyrir meltinguna og þarmaflóruna sem kemur úr smiðju Kristjönu Drafnar Haraldsdóttur, alla jafna kölluð Jana, heilsumarkþjálfa. jógakennara og eiganda fyrirtækisins Nærandi líf.

„Ég er með allskonar námskeið þá sérstaklega í að kenna fólki að komast í slökun til þess að endurstilla og endurnæra taugakerfið. Þannig næst fram ákveðin umbreyting í lífi fólks. Fæðan skiptir miklu máli þegar kemur að því að endurnæra líkama og sál,“ segir Jana.

Þessi súpa er einföld og mér finnst gott að gera hana á sunnudegi og geyma fram á mánudag. Það er svo hrikalega ljúft að hugsa til þess að eiga til tilbúna næringarríka máltíð í vikubyrjun. Það styrkir mig allavega í því að huga að því að halda í góðar venjur hvað varðar næringu. Mér finnst gott að hafa súrdeigs fræbrauð með þessari súpu.

Styðja við þarmaflóruna

Linsubaunir eru ríkar af trefjum og járni og þær hjálpa til við að losa um bólgur sem myndast í líkamanum og styðja við þarmaflóruna að sögn Jönu. „Linsubaunir innihalda hægmeltanlega sterkju sem seinkar upptöku kolvetna með blóðsykurs lækkandi áhrifum, auk þess að vera uppspretta lífvera ( prebiotics ) sem nærir þarmaflóruna. Linsubaunir eru ríkar af vítamínum, steinefnum, fitusýrum og andoxunarefnum sem hjálpa til við að draga úr bólgusvari í líkamanum. Gulrætur innihalda gott magn af A-vítamíni og beta-karótíni, bæði hefur verið sýnt fram á að draga úr bólgum. Sellerí inniheldur bólgueyðandi efnasamband sem kallast lúteólín. 

Túrmerik er líka einstök jurt sem gerir líkamanum gott og er í súpunni. „Túrmerik er bólgu minnkandi jurt og getur dregið úr framleiðslu á ensími sem ber ábyrgð á bólgu myndun. Kúmenduft hjálpar til við að draga úr áhrifum bólgu, til dæmis eins og verkja og hefur sótthreinsandi áhrif,“ segir Jana.

Gott að sjóða aukaskammt til að eiga

Linsubaunir er auðvelt að elda. Það er gott að setja þær í vatn um í 1 til 2 tíma áður en þær eru soðnar. Ég sýð yfirleitt þessar baunir í um 20 mínútur og síðan slekk ég undir og geymi á hitanum í um það bil 30 mínútur. Þannig verða þær ekki að mauki. Það sem hefur reynst mér vel er að sjóða aukaskammt. Ég annað hvort nota þá í salat daginn eftir eða frysti. Gott er að nota linsubaunir til að mynda í baunabuff. Með því að bæta linsubaunum við mataræðið þitt ertu að draga úr bólgum og styðja við þarmaflóruna þína,“ segir Jana að lokum og mælir með að allir prófi þessa töfrasúpu.

Linsubaunasúpan býr yfir töfrum fyrir meltinguna og þarmaflóruna.
Linsubaunasúpan býr yfir töfrum fyrir meltinguna og þarmaflóruna. Ljósmynd/Jana

Linsubaunasúpa

  • 2 bollar af grænum linsubaunum ( soðnar)
  • 1 meðalstór rauðlaukur
  • 5 meðalstórar gulrætur
  • 4 sellerí stiklar
  • 1 - 2 tsk. túrmerik (smakka til)
  • 1 tsk. malað kúmen
  • 1 tsk. salt
  • 1 tsk. pipar
  • 1 stk. grænmetisteningur (án gers og aukaefna)
  • ½ bolli sítrónusafi (smakka til)
  • 12 bollar vatn
  • 3 msk. jómfrúarolía
  • 1 bolli. Kóríander, saxað
  • 1 bolli graskersfræ

Aðferð:

  1. Skerð niður laukinn, gulræturnar, sellerí í meðalstóra bita.
  2. Hitið pönnu og bæt við olíunni.
  3. Setjið allt grænmetið á pönnuna og steik  létt upp úr olíunni.
  4. Not meðalstóran pott og bæt við vatninu og grænmetisteningunum.
  5. Sjóðið vatnið og bæt öllu grænmetinu við ofan í pottinn.
  6. Hafið á meðal háum hita.
  7. Tak allt vatn frá linsubaununum og steik létt á pönnu.
  8. Tak af þegar baunirnar eru aðeins orðnar brúnar.
  9. Takið til hliðar og geymið.
  10. Bæt sítrónusafanum, salti og pipar út í pottinn.
  11. Sjóðið þanga til grænmetið er orðið soðið.
  12. Í lokin bætið við linsubaununum og leyfið öllu að blandast saman.
  13. Rif eða saxið kóríander niður og setjið yfir sem skraut og dreif yfir graskersfræjum.
  14. Njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert