Þessir bananasnúðar eru syndsamlega góðir

Bananasnúðar með súkkulaðifyllingu og hnetusmjörskremi.
Bananasnúðar með súkkulaðifyllingu og hnetusmjörskremi. Ljósmynd/Valla Gröndal

Þessir snúðar eru dúnmjúkir og syndsamlega góðir. Það er erfitt að standast þá. Heiðurinn af uppskriftinni á Valgerður Gréta Gröndal, alla jafna kölluð Valla, sem heldur úti uppskriftasíðunni Valla Gröndal. Hún nýtur þess að baka um helgar og töfraði þessa fram síðustu helgi og snúðarnir kláruðust á augabragði.

 Milt bananabragðið af snúðunum fer ótrúlega vel saman með Bionella súkkulaðismjörinu og kanilsykrinum í fyllingunni. Ofan á snúðana smyr ég því allra besta kremi sem til er en í því er meðal annars meira af súkkulaðismjörinu og hnetusmjör. Mjög hógværar yfirlýsingar hér en þau sem hafa fengið að smakka allar prufurnar áttu ekki orð yfir kreminu og snúðunum vissulega líka,“ segir Valla. 

Vel er hægt að mæla með þessari uppskrift og þar sem nú er Veganúar er upplagt að skella í þessa bananasnúða.

Dúnmjúkir og bragðgóðir bananasnúðar.
Dúnmjúkir og bragðgóðir bananasnúðar. Ljósmynd/Valla Gröndal

Bananasnúðar með súkkulaðifyllingu og hnetusmjörskremi

12 stórir snúðar

  • 450 ml Oatly ikaffe haframjólk
  • 115 g vegan smjör
  • 2 stórir vel þroskaðir bananar
  • 950 g hveiti + auka til að hnoða upp úr ef þarf
  • 1 msk. sykur
  • 3 tsk. þurrger
  • 2 tsk. himalaya salt
  • 1 tsk. lyftiduft

Aðferð:

  1. Hitið mjólkina upp í 40°C hita.
  2. Setjið vegan smjörið saman við og setjið til hliðar.
  3. Stappið bananana og setjið til hliðar.
  4. Takið 50 g af hveitinu frá og setjið afganginn af þurrefnunum saman í hrærivélaskál.
  5. Hellið mjólkur-/smjörblöndunni saman við og hnoðið í hrærivélinni í að minnsta kosti fimm mínútur.
  6. Takið deigið upp úr og mótið í kúlu.
  7. Látið hefast í 50 mínútur.
  8. Fletjið deigið út í að minnsta kosti 50-54 cm á breidd.
  9. Smyrjið deigið með Bionella súkkulaðismjöri og stráið kanilsykri eftir smekk yfir. Valla notaði ekki alveg allan sykurinn í fyllingunni (sjá uppskrift hér fyrir neðan).
  10. Skiljið eftir smá rönd neðst.
  11. Rúllið upp í lengju og skerið hana í tvennt.
  12. Skiptið þá hvorum helming í þrennt og þá hverjum þriðjung í tvennt svo 12 snúðar verði úr lengjunni.
  13. Setjið bökunarpappír í eitt mjög stórt form eða tvö minni og raðið snúðunum í formin.
  14. Hitið ofninn í 30-40°C hita.
  15. Úðið ofninn að innan með vatni og setjið formin í ofninn.
  16. Hefið í ofninum í 30 mínútur.
  17. Takið snúðana út og hitið ofninn í 200°C hita.
  18. Bakið snúðana í 20-25 mínútur eða þar til þeir eru orðnir vel gylltir.

Súkkulaðifylling

  • 300 g Bionella súkkulaðismjör
  • 3 msk. sykur
  • 2 msk. Rapadura hrásykur
  • 2 tsk. kanill 

Aðferð:

  1. Smyrjið deigið með súkkulaðismjörinu samkvæmt leiðbeiningum að ofan.
  2. Blandið saman sykrinum og stráið yfir deigið samkvæmt leiðbeiningum að ofan.

Hnetusmjörskrem

  • 120 g hnetusmjör
  • 80 g binoella
  • 30 g mjúkt vegan smjör
  • 2 tsk. vanilludropar
  • 160 g flórsykur
  • 3-4 msk. volg Oatly haframjólk

Aðferð:

  1. Setjið alla hráefnið saman í skál og hrærið vel saman svo úr verði krem.
  2. Smyrjið því á snúðana þegar þeir koma úr ofninum.
  3. Berið fram og njótið í huggulegheitum með ykkar allra bestu.
Það er vel hægt að mæla með þessari dýrð.
Það er vel hægt að mæla með þessari dýrð. Ljósmynd/Valla Gröndal
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert