Tilvalið að baka hrökkbrauð um helgina 

Árni Þorvarðarson bakari deilir hér með lesendum uppskrift að ekta …
Árni Þorvarðarson bakari deilir hér með lesendum uppskrift að ekta sænsku hrökkbrauði eins og þau gerast best. Samsett mynd

Eins og hefð er fyrir er uppskrift fyrir helgarbaksturinn úr smiðju bakarans Árni Þor­varðar­sonar sem einnig er kenn­ari við Hót­el- og matvælaskólann. Að þessu sinni deil­ir hann með les­end­um upp­skrift að hrökkbrauði en hrökkbrauð er hefðbundið sænskt heilkornsbrauð. Þar sem brauðið er þurrt er hægt að geyma það í mjög langan tíma ef það er rétt geymt. Hrökkbrauð hefur verið bakað í Svíþjóð og Finnlandi síðan 500 eftir Krist, upphaflega til að varðveita brauðið yfir langan vetur.

Má setja hvað sem er ofan á hrökkbrauðið

Í Svíþjóð er farið með hrökkbrauð eins og allar aðrar brauðtegundir. Það er hægt að toppa með næstum hverju sem er og er það algengur hluti af morgunmat, hádegismat og kvöldverði eða snarl þess á milli. Einnig er hægt að mylja hrökkbrauðið yfir jógúrtskál og skreyta með ferskum berjum.

Ostur, gúrka og kotasæla passa vel ofan á hrökkbrauð.
Ostur, gúrka og kotasæla passa vel ofan á hrökkbrauð. Ljósmynd/Árni Þorvarðarson

Hrökkbrauð

  • 450 g hveiti
  • 450 g heilhveiti         
  • 300 g rúgmjöl
  • 2 msk. salt     
  • 150 g smjör   
  • 11 g þurrger  
  • 6 dl vatn        

Aðferð:                                  

  1. Byrjið á því að vigta allt saman í hrærivélaskál með krók.
  2. Hrærið í um það bil 6 mínútur rólega og 2 mínútur hraðar.
  3. Látið standa á borði í 15 mínútur.
  4. Skiptið deiginu í tvennt og rúllið út í plötustærð.
  5. Penslið með vatni áður en kornið er sett yfir og þrýstið niður í deigið.
  6. Látið standa á heitum stað með poka yfir í um það bil 40 mínútur.
  7. Forhitið ofninn í 180°C hita.
  8. Skerið með pitsahjóli í passlegar stærðir og bakið í ofni í um 35 mínútur.
  9. Takið þetta út og leyfið þessu að kólna, brjótið þetta svo niður.
  10. Leyfið kexinu alveg að kólna áður en því er pakkað.
  11. Berið fram með morgunverði, hádegisverði, kaffisamlæti eða notið sem snarl á milli máltíða. Hver og einn velur það sem honum þykir best að gera.
  12. Gott er að setja ost, kotasælu og gúrku á hrökkbrauðið svo fátt eitt sé nefnt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert