Eins og hefð er fyrir á laugardagsmorgnum á matarvef mbl.is þá er það Húsó-uppskrift úr hinu fræga eldhúsi í Hússtjórnarskólanum við Sólvallagötu en þar eru mörg leyndarmál geymd sem snúa að matargerð og bakstri. Að þessu sinni deilir skólameistarinn Marta María Arnarsdóttir uppskrift að fersku og bragðgóðu sjávarréttasalat og sinnepssósu sem parast ljómandi vel með salatinu. Þegar nemendur buðu fjölskyldum sínum til kvöldverðar fyrir jólin var þetta salat meðal annars á boðstólum á forréttahlaðborðinu og naut mikilla vinsælda.
Sjávarréttasalat Húsó með sinnepssósu
- 300 g humarhalar
- 300 g stórar rækjur, afþýddar
- Smjör eftir smekk
- 1-2 litlir hvítlaukar, saxaðir
- 1 rautt chilli, skerið smátt
- 1 mangó
- 1/2 hunangsmelóna
- ¼ kantalópumelóna
- Salatblöð
- Fersk steinselja, söxuð
Aðferð:
- Byrjið á því að kúla melónuna með parísarjárni, búa til litlar kúlur úr melónunni.
- Skerið mangó í bita.
- Snöggsteikið humarinn í smjöri með hvítlauk og chili.
- Setjið salatblöðin sett í skál/fat.
- Blandið melónum, mangó, rækjum og humar blandað varlega og sett á salatbeðið.
- Söxuð steinselja sett yfir.
- Berið salatið fram með sinnepssósunni (sjá uppskrift hér fyrir neðan).
Sósa
- 1 dl ólífuolía
- 3 tsk. sætt sinnep
- 2 msk. glært hunang
- 1 tsk. rifin engiferrót
- 1 msk. saxaður graslaukur
- 1 tsk. edik
- Salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
- Setjið allt hráefnið í skál og hrærið vel saman.
- Geymið í kæli fyrir notkun.