Andasalat með mandarínum og geitaosti

Brakandi ferskt og bragðgott andasalat fyrir vandláta.
Brakandi ferskt og bragðgott andasalat fyrir vandláta. Ljósmynd/Sjöfn

Andalæri eru einn af mínum uppáhaldsréttum og þegar ég á afgang af andalærum finnst mér fátt betra en að útbúa ferskt og gott andasalat. Þá ríf ég niður kjötið af andalærunum út á salatið og hægt er að leika sér með hvað er í salatinu. Hver og einn getur valið með sínu nefi. Stundum er líka lag að nýta það sem er til í ísskápnum í salat og setja saman tryllt andasalat.

Hér er ein útgáfan af andasalati sem hefur notið mikilla vinsælda á mínu heimili en ég er iðin við að breyta til í því sem ég hef út í salatinu. Stundum eru í salatinu harðsoðin egg, ástríðuávöxtur, granateplafræ og perlulaukur, eða bara það sem ég á til í ísskápnum hverju sinni sem passar með önd.

Andasalat með mandarínum og geitarosti

  • 2 stk. andalæri, elduð
  • 1 pk. blandað salat frá VAXA eða salathaus
  • 1 pk. geitarostur að eigin vali
  • stk. vorlaukur, skorinn í þunnar sneiðar
  • Rifsber eftir smekk
  • 1-2 mandarínur
  • Hindber eftir smekk
  • Sprettur frá VAXA eftir smekk
  • Grófrifinn parmesanostur

Aðferð:

  1. Byrjið á því að velja fallega skál undir salatið, fallegt er að vera með grunna og stóra skál, þá nýtur salatið sín betur.
  2. Setjið salat í botninn á skálinni og dreifið því.
  3. Því næst dreifið þið lauksneiðunum yfir salatið og takið síðan mandarínurnar í sundur og dreifið bátunum/laufunum yfir salatið.
  4. Rífið niður kjötið af andalærunum og dreifið yfir salatið ásamt rifsberjum, hindberjum og geitarostinum sem þið hafið valið.
  5. Loks er vert að klippa niður sprettur og rifinn parmesanost (grófrifinn eða skorinn með ostaskera) og dreifa yfir salatið að vild.
  6. Berið fram með sósu eða dressingu sem ykkar bragðlaukar girnast.
  7. Ég hef borið salatið fram með léttri hvítlaukssósu, hunangssósu og sinneps-dressingu (sjá uppskrift fyrir neðan).

Sinneps-dressing

  • 4 msk. ólífuolía
  • 2 ½ msk. hvítvínsedik
  • 2 msk. dijon sinnep
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Gerið dressinguna með því að blanda öllum hráefnunum saman í skál og hrær vel.
  2. Geymið í kæli þar til dressingin er borin fram.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka