Andalæri eru einn af mínum uppáhaldsréttum og þegar ég á afgang af andalærum finnst mér fátt betra en að útbúa ferskt og gott andasalat. Þá ríf ég niður kjötið af andalærunum út á salatið og hægt er að leika sér með hvað er í salatinu. Hver og einn getur valið með sínu nefi. Stundum er líka lag að nýta það sem er til í ísskápnum í salat og setja saman tryllt andasalat.
Hér er ein útgáfan af andasalati sem hefur notið mikilla vinsælda á mínu heimili en ég er iðin við að breyta til í því sem ég hef út í salatinu. Stundum eru í salatinu harðsoðin egg, ástríðuávöxtur, granateplafræ og perlulaukur, eða bara það sem ég á til í ísskápnum hverju sinni sem passar með önd.
Andasalat með mandarínum og geitarosti
- 2 stk. andalæri, elduð
- 1 pk. blandað salat frá VAXA eða salathaus
- 1 pk. geitarostur að eigin vali
- 1 stk. vorlaukur, skorinn í þunnar sneiðar
- Rifsber eftir smekk
- 1-2 mandarínur
- Hindber eftir smekk
- Sprettur frá VAXA eftir smekk
- Grófrifinn parmesanostur
Aðferð:
- Byrjið á því að velja fallega skál undir salatið, fallegt er að vera með grunna og stóra skál, þá nýtur salatið sín betur.
- Setjið salat í botninn á skálinni og dreifið því.
- Því næst dreifið þið lauksneiðunum yfir salatið og takið síðan mandarínurnar í sundur og dreifið bátunum/laufunum yfir salatið.
- Rífið niður kjötið af andalærunum og dreifið yfir salatið ásamt rifsberjum, hindberjum og geitarostinum sem þið hafið valið.
- Loks er vert að klippa niður sprettur og rifinn parmesanost (grófrifinn eða skorinn með ostaskera) og dreifa yfir salatið að vild.
- Berið fram með sósu eða dressingu sem ykkar bragðlaukar girnast.
- Ég hef borið salatið fram með léttri hvítlaukssósu, hunangssósu og sinneps-dressingu (sjá uppskrift fyrir neðan).
Sinneps-dressing
- 4 msk. ólífuolía
- 2 ½ msk. hvítvínsedik
- 2 msk. dijon sinnep
- Salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
- Gerið dressinguna með því að blanda öllum hráefnunum saman í skál og hrærið vel.
- Geymið í kæli þar til dressingin er borin fram.